Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Hvað er að gerast í Úkraínu?

Hvað er að gerast í Úkraínu?

Á RIFF, alþjóðlegu kvikmyndahátíiðnni, er einn aðalgesturinn hinn úkraínski Sergei Losnitza. Kvikmynd hans og opnunarmynd RIFF, Donbass, er allrar athygli verð. Hún minnir okkur á það að í Úkrainu geisar styrjöld síðan 2014 sem kostað hefur um 10.000 mannslíf og valdið flótta um 1.5 - 2 milljóna manna. Stríð sem leitt hefur af sér viðskiptabann á Rússland og aukna spennu í alþjóðakerfinu.

Stríð þetta, er orðið er einskonar "stöðustríð" í anda skotgrafahernaðar fyrri heimsstyrjaldar, þar sem vígstaðan breytist lítið sem ekkert. Að mati Sergei virðist engin lausn vera sjónmáli. Þetta kom fram í ,,spurt og svarað" eftir sýningu á kvikmynd hans síðastliðið laugardagskvöld, 29.september.

Myndin, sem er leikin, en hefur á sér mjög raunverulegan blæ, gerist nánast alfarið á svæðum sem eru undir yfirráðum aðskilnaðarsinna (se vilja kljúfa sig frá Úkraínu og sameinast Rússlandi). Hún var þó tekin í borg sem er um 300 kílómetra frá víglínunni sagði Sergei.

Í myndinni er dregin upp dökk mynd af aðskilnaðarsinnum, en þeim er mörgum hverjum lýst sem ræningjum og skúrkum. Þá er einnig komið inn á djúpstæða andúð úkraínskra aðskilnaðarsinna á "venjulegum" Úkraínumönnum, sem þeir kalla yfirleitt fasista. Það á rætur allt aftur til seinni heimsstyrjaldar, þegar nokkur fjöldi Úkraínumanna studdi innrásarher Hitlers, enda var Jósef Stalín, þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna búinn að murka lífið úr milljónum Úkraínumanna, með pólitískum hreinsunum og manngerðum hungusneyðum (Holodomor).Einnig er í myndinni komið inn á lygar og áróður sem ávallt fylgja stríðsátökum.

Myndin var áhrifamikil og drungaleg og gaf ekki vonir til mikillar bjartsýni á ástand mála í þessu risastóra landi í Evrópu (um 600.000 ferkílómetrar og íbúar eru um 43 milljónir). 

Einnig kom fram í máli Sergei að mannfall er nánast daglegt brauð í þessum átökum, þó svo að það rati ekki í heimsfréttirnar. Að hans sögn falla um 5-10 manns á dag. Þá féll einn af helstu leiðtogum aðskilnaðarsinna, Alexander Zakharchenko, í tilræði fyrir um mánuði síðan. Sá hafði lýst yfir stofnun lýðveldis í borginni Donetsk árið 2014 en í borginni og úthverfum hennar búa um 2 milljónir manna, eða álíka og í Stokkhólmi.

Fljótlega beindu ýmsir rússneskir aðilar (þó ekki Pútín) spjótum sínum að yfirvöldum í Úkraínu vegna tilræðisins en ekkert er á hreinu í sambandi við það og orðin ganga á víxl. Sem er algengt í svona tilfellum og hafa Úkraínumenn sjálfir sagt að Rússar gætu þessvegna verið gerendur í málinu.

Sergei Losnitza hefur gert fleiri kvikmyndir og meðal annars heimildamynd um mótmælin miklu á Maidan-torginu í Kíev, höfuðborgborg Úkraínu (nóvember 2013-febrúar 2014). Þau eru á sinn hátt einskonar forleikur að þeim átökum sem nú standa i austurhluta landsins.

Á sínum tíma var skrifað undir friðarsamkomulag í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands (helsta alræðisríki Evrópu og eitt af fáum sem er eftir). Það virðist hinsvegar ekki vera pappírsins virði því daglega deyr fólk í stríðsátökum í Úkraínu.

Fyrir áhugasama má einnig benda á ágæta grein eftir blaðakonuna Anne Applebaum í The Washington Post um átökin í Úkraínu og hvernig þau eru að breyta sambandi Rússlands og Úkraínu, sem eitt sinn voru ,,systkin” í Sovétríkjunum en berast nú á banaspjótum.

Á myndinni sem fylgir með og er frá Reuters má einmitt sjá hinn fallna leiðtoga aðskilnaðarsinna á henni miðri.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu