Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Sumarið sem sakleysið hvarf?

Sumarið sem sakleysið hvarf?

Stundum- reyndar svolítið oft, er mjög sérkennilegt hvernig hlutirnir gerast á Íslandi. Við bara ,,skellum okkur í þá“ – já, bara svona einn, tveir og þrír. Og allt í einu eru þeir bara staðreynd.

Eins og þetta með byssurnar. Allt í einu var löggan bara alvopnuð, meira að segja á 17.júní, fyrir framan Fjallkonuna, og fólk vissi varla hvaðan á sig stóð veðrið. Hvað þá borgarstjórinn í Reykjavík, sem frétti þetta í fjölmiðlum.

En stóra spurningin er: Eru vopnaðir lögreglumenn orðnir staðreynd á almannafæri? Er sumarið 2017 sumarið þegar Ísland tapaði endanlega sakleysinu? Svona eiginlega af því bara?

Þurfum við að vera eins og allir hinir – er þetta einhver minnimáttarkennd, eða er þetta nauðsynleg vörn gegn alvöru ógn sem íslensku samfélagi stafar af hryðjuverkum? Hafa einhver hryðjuverk verið framin á Íslandi? Mér dettur tvö atvik í hug: Þegar bændur á Norðurlandi sprengdu virkjun sem þeir voru á móti (í nafni náttúruverndar) árið 1970. Alls lýstu um 113 einstaklingar yfir ábyrgð á verknaðinum og frá þessu var sagt í heimildarmyndinni ,,Hvellur“ sem sýnd var á RÚV á sínum tíma.

Í janúar árið 2012 sprakk svo sprengja (eða hluti hennar) við Stjórnarráðið. Sprengjusérsveit löggunnar var kölluð til og gripið til aðgerða, sprengjuleitar, stóru svæði lokað og svo framvegis.

Í illa skrifaðri frétt á vefnum Landspósturinn segir: ,,Plaggöt með pólitískum áráðri höfðu verið hengd upp þar sem sprengjan fannst svo telja má að tilvikið sé ádeila á stjórnmál í landinu. Vitni sá feitlaginn lítinn mann á miðjum hlaupa frá sprengjusvæðinu rétt áður en fyrri sprengjan sprakk.“

Síðar kom í ljós að ,,,feitlagni maðurinn“ var 72 ára gamall maður, sem ætlaði í raun að setja sprengjuna fyrir framan heimili Jóhönnu Sigurðardóttur, en vissi ekki hvar hún átti heima. Sennilega var hann ekki með síma með Já.is-appinu. En með sprengjunni fylgdi bréf þar sem meðal annars var gerð krafa um að Ísland segði sig úr EES og Schengen. Það má því kannski segja að þetta ,,hryðjuverk“ hafi verið verk and-Evrópusinna.

Í fljótu bragði man ég ekki eftir öðrum ,,hryðjuverkum“ hér á landi. Nema kannski að Hrunið og ýmsir glæpir tengdir því hafi verið það sem kalla mætti ,,efnhahagsleg hryðjuverk“ (markaðsmisnotkun, allskyns svindl og svínarí, þjófnaður á peningum og fleira). En í þessum tilfellum er um innlenda gerendur (,,domestic“) að ræða. Og tvö fyrstu tilfellin snúast um stjórnmál að miklu eða öllu leyti.

Hryðjuverkahugtakið er snúið og í bók sinni ,,The New Threat: The Past, Present, and Future of Islamic Militancy“ segir blaðamaður The Guardian, Jason Burke, að í gegnum tíðina hafi fjölmargar skilgreiningar verið í gangi og séu enn. En, þetta snúist allt meira eða minna um að ná einhverjum pólitískum markmiðum og nota aðferðir sem vekja ótta og ógn, til þess.

Hræðsla er gríðarlega öflugt vopn. Þegar við erum hrædd þá drögum við okkur inn í skelina, leitum skjóls og höldum okkur þar, þangað til að öryggið lætur á sér kræla á ný. En hræðsla er slæm fyrir til dæmis efnahagslífið, því hrætt fólk kaupir minna og dregur úr neyslu. Eitt skýrasta dæmið um það hvernig þjóð er hrædd upp úr skónum eru aðgerðir bandarískra yfirvalda eftir 11.september 2011. Þá komu þau sér upp sérstöku ,,litaskema“ sem var óspart notað.

Skýrt dæmi um samfélag sem er gegnsýrt af byssuofbeldi er að finna í Bandaríkjunum. Enda falla og særast þar á hverju ári tugir þúsunda manna vegna byssuofbeldis. Lögreglan beitir skotvopnum þar grimmt og hefur á síðustu misserum fengið mjög mikla gagnrýni fyrir. Varla er bandarískt samfélag það sem við viljum taka okkur til fyrirmyndar að þessu leyti? Vopnaeign og beiting skotvopna er samtvinnuð sögu Bandaríkjanna og réttlætt með vísun í aðra viðbót stjórnarskrár landsins. Í landinu hafa fleiri fallið vegna byssumorða (1.4 milljónir) frá 1968-2011, en í öllum styrjöldum í sögu þess, allt frá sjálfsstæðisstríðinu við Breta, til innrásarinnar í Írak (heimild:BBC.co.uk).

Rök hérlendra ráðamanna fyrir vopnavæðingu Íslands hafa hvorki söguna né stjórnarskrá til að styðjast við. Ísland fór t.d. í gegnum báðar heimsstyrjaldirnar sem herlaust og hlutlaus land. Heldur eru rök þeirra viðbrögð við atburðum í öðrum löndum og vísað til þess að það sem gerist í útlöndum ,,geti mögulega gerst á Íslandi líka.“ En eru það nógu sterk rök? Er þörfin fyrir vopnaburð meðal almennra lögreglumanna á útíhátíðum og öðrum fjöldasamkomum knýjandi?

Málið er þetta: Þegar um er að ræða álíka grundvallarbreytingu á löggæslu í landinu, þá er nauðsynlegt að slíkt sé gert að vandalega athuguðu máli og eftir ítarlega greiningu á aðstæðum hér innanlands. En einhvernveginn læðist að manni sá grunur að svo hafi ekki verið í þessu tilfelli, heldur miklu fremur að menn séu að gera einshverskonar ,,prufu“ til að kanna viðbrögð almennings. Sagt hefur verið að þetta eigi að vera í takmarkaðan tíma og væri að sjálfsögðu best að slíkt yrði raunin.

Mynd: Carl Fredrik Reuterswärd (fyrir framan byggingu SÞ í New York).

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni