Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Kremlarbóndinn sem hlær

Kremlarbóndinn sem hlær

Kremlarbóndinn, Vladimír Pútín, hlýtur að veltast um af hlátri þessa dagana. Honum hefur tekist hið ómögulega; að setja bandaríska stjórnkerfið á hvolf, og það með nánast sem engri fyrirhöfn og engum stríðskostnaði.

 

Um þessar mundir eru stjórnvöld í Washington upptekin við það að a) rannsaka hvort og þá með hvaða hætti Rússar blönduðu sér í forsetakosningarnar síðastliðið haust, sem Donald Trump svo vann og b) rannsaka hvort einhverjir af mönnum Trumps hafi haft einhver ótilhlýðileg/óeðlileg samskipti við einhverja af mönnum Pútíns í aðdraganda kosninganna.

 

Þetta tvennt er búið að tröllríða bandarískum fjölmiðlum á undanförnum vikum og öll athyglin beinist að Pútín. Sem er nánast eins og kallinn sem stjórnar strengjabrúðunni í þessu tilfelli.

 

Við erum að horfa upp á það sem kalla mætti fyrsta tölvustríðið, þó svo að enginn hafi lýst yfir stríði. Það fer þannig fram að menn eru að hakka sig inn á öllum mögulegum og ómögulegum stöðum, til þess að eyðilegga og komast yfir upplýsingar, sem síðan er lekið og dreift með kerfisbundnum hætti. Markmiðið er að veikja andstæðinginn eða sverta ímynd hans. Þetta er það sem á ensku er kallað „cyberwarfare“ og það eru allir alvöru gerendur á alþjóðasviðinu byrjaðir að iðka það.Málið sýnir fyrst og fremst að allir eru berskjaldaðir og nánast sama hvaða (og hvernig) öryggiskerfi eru notuð – það er enginn óhultur.

 

Þegar nútíma fjölmiðlar urðu til, með kvikmyndina í broddi fylkingar, áttuðu menn sig strax á krafti þessara nýju fyrirbæra. Adolf Hitler og nasistar hans, með kvikmyndagerðarkonuna Leni Riefenstahl þar fremsta, voru fljótir að tileinka sér þessa nýju tækni í áróðursskyni. Þeir skildu að það var hægt að heilaþvo heila þjóð og gíra hana inn á eitt sameiginlegt markmið.

 

Nákvæmlega þessa sömu tækni notar Vladimír Pútín, sem hefur á sínum ferli kæft alla gagnrýni og alla alvöru lýðræðislega umræðu í Rússlandi. Stjórnartíð Silvio Berlusconi (4x forsætisráðherra) á Ítalíu er einnig annað dæmi, þar sem lýðræðislega kjörinn valdhafi kæfir nánast alla gagnrýni. Tyrkland er svo nýjasta dæmið þar sem Erdogan er gjörsamlega að drepa niður allar raddir sem eru á einhvern hátt á móti honum og skoðunum hans.

 

En aftur að USA og „Russiagate“: Skuggi Pútíns hvílir semsagt yfir Trump, sem hefur ekki verið 100 daga í embætti og mál öryggisrágjafa hans, Michael Flynn, var satt að segja afar vandræðalegt. Hann var aðeins 24 daga í embætti og enginn hefur verið eins stutt í embætti öryggisráðgjafa og hann. Flynn var staðinn að því að hafa sagt varaforseta USA, Mike Pence ósatt um samskipti sín við Sergey Kislyak, sendiherra Rússa í Washington í desember síðastliðnum. Með í för var Jared Kushner, tengdasonur Trump og helsti ráðgjafi. Þetta var sem sagt áður en Trump tók við embætti, 20.janúar á þessu ári. Ef til vill voru þessi samskipti ekki óeðlileg og samkvæmt Washington Post var markmið þeirra að koma á „samskiptalínum“ milli Trump og Pútíns. Trump hefur ekki verið feiminn við að mæra Pútín sem leiðtoga og reyndar farið mjög fögrum orðum um hann sem slíkan. Pútín örugglega til mikillar skemmtunar.

 

En mönnum í Washington sem muna enn daga kalda stríðsins og hafa alist upp á dögum „Rússagrýlunnar“ er ekki skemmt. Í þeirra augum eru Rússar og Rússland ennþá stóri óvinurinn og aðal keppinauturinn (þó Kína komi þar einnig fast á hæla).

 

Í augnablikinu er ekkert sem bendir til annars en að Pútín verði forseti til 2024, eins og stjórnarskrárbreytingar sem hann lét gera, miða að. Hann hefur öll spilin á hendi sér og í raun er hann eins og rússneskur skákmeistari sem er með yfirburðastöðu á taflborðinu og er búinn að hugsa marga leiki fram í tímann. Að maður tali ekki um Úkraínu, þar sem Pútin gerir það sem hann vill, með aðstoð aðskilnaðarsinna á landamærum landanna. Eða Sýrland, þar sem hann skaut Vesturveldunum ref fyrir rass og Rússar búnir að koma sér vel fyrir.

 

Hinum megin við pollinn (Atlantshafið) eins og Kanar segja, er kominn til valda tístljúgandi silfurskeiðungur, sem aldrei hefur þurft að setja sig í spor venjulegs fólks og þekkir ekki hlutskipti þess. Maður sem hefur lifað í gullhúðum verleika og aldrei þurft að hugsa um hvort það verði nú til peningar fyrir reikningunum um næstu mánaðarmót.

 

Forseti Trump vinnur markvisst að því að veikja stöðu Bandaríkjanna á alþjóðasviðinu, með ýmsum aðgerðum sem hann hyggst standa fyrir, eins og t.d. með því að skera niður í þróunarhjálp. Hann virðist ekki átta sig á því að þegar Bandaríkin hverfa af sviðinu, þá kemur einhver annar í staðinn og verður „góði gæinn“. Kannski Rússland?

 

En vonandi verður Trump bara í forseti fjögur ár.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni