Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Umbótasinnar: Stýrum umræðunni, látum ekki eingöngu stjórnast af henni

Eitt það sem hefur einkennt stjórnmálaumræður umbótafólks á Íslandi undanfarinn áratug hið minnsta, er að umbótafólk lætur samfélagsumræðuna stjórna sér og sinni orðræðu, með því fyrst og fremst að gagnrýna hugmyndir sem koma frá öðrum, aðallega hægrinu, og raunar einnig sérhagsmunaöflum fjármagns- og fyrirtækjaeigenda. Gagnrýnin er nauðsynleg, enda er einn kjarni allrar siðaðrar menningar gagnrýni á hugmyndir, helst í átt til betrumbóta.

En umræður umbótafólks því miður eiga sterka tilhneigingu til að ná ekki til betrumbóta: Mestmegnis ná umræður þeirra til gagnrýni og þar er látið staðar numið, sérstaklega þegar kemur að efnahagsmálum. Sárlega vantar að umbótahreyfingar leggi til sínar eigin hugmyndir, rökstyðji og haldi lifandi í umræðunni. Stjórnmál fjalla nefnilega ekki bara um galla í hugmyndum annarra, heldur líka um hvernig heim maður vill líka sjá verða til, og ekki nóg með það: Hugmyndunum verður að halda til streitu.

En af hverju þessi áhersla á efnahagslegu hlið mannlífsins? Vegna þess að það eru efnahagsmálin sem marka stefnuna í samfélaginu, það eru þau sem ákvarða hvernig gæðunum er skipt, hver fær að njóta auðsins af verðmætasköpuninni, auk þess sem af öllu þessu stafa ýmisleg áhrif á lýðræðið og valdakerfi samfélagsins. Efnahagsmálin, þótt drepleiðinleg séu á köflum, skipta verulegu máli, því þau smitast yfir á flestar hliðar samfélagsins á einhvern hátt.

Vandinn er fólginn í því að umbótasinnar fjalla sjaldan og lítið um sínar eigin hugmyndir um hvernig hagkerfið og efnahagsmálin eiga að ganga fyrir sig, þó með einni undantekningu: Á undanförnum árum hefur verið fjallað allnokkuð um ójöfnuð og að draga megi úr honum með breytingum á skattkerfinu. Það er vel, en umræðan mætti fjalla mun meira um tilteknar breytingar á skattkerfinu.

Mun minna er t.d. fjallað um lýðræði á vinnustöðum, eignarhald starfsmanna á fyrirtækjum sem þeir starfa fyrir, samfélagsbanka og lýðræðislegt aðhald gagnvart fjármálakerfinu. Þetta eru allt mikilvæg atriði sem varða gang hagkerfisins og geta haft mikilvæg áhrif á samfélagið. Þetta verður að breytast: Vinstrisinnuð umbótaöfl verða að fjalla mun meira og af festu um efnahagsmál og hagkerfið, út frá sínum hugmyndum og heimssýn – ekki bara sín á milli, heldur líka í fjölmiðlum sem ná til fjöldans.

Hugmyndir, gildi og fjöldinn – framtíðarsýn

Vandanum sem blasir við umbótahreyfingunum má lýsa þannig að þeim skorti framtíðarsýn, en nóg er af óánægju með stefnuna sem rekin er í samfélaginu, stefnu sem löngu er orðið ljóst að er innantóm og verður að breytast. Gagnrýnin beinist fyrst og fremst að þessari stefnu, eðlilega.

En hvað er átt við með framtíðarsýn? Framtíðarsýn er stefna og hugmyndir sem fólk vill sjá settar í framkvæmd, og framtíðarsýnin er lifandi í orðum og hugsun stjórnmálamanna, félagasamtaka, og hagsmunasamtaka. Framtíðarsýnin er þannig tjáð að allir skilja við hvað er átt og að allir átta sig á hvernig samfélag viðkomandi vill. Framtíðarsýninni er þó ekki eingöngu ritað plagg á einhverri vefsíðu sem er veifað rétt fyrir kosningar: Framtíðarsýnin er lifandi, samanstendur af auðskildum hugmyndum og röksemdum, og er flutt í fjölmiðlum sem nær til fjöldans. Hún byggir á gildum sem höfða til fjöldans. Og framtíðarsýnin verður að stórum hluta að ná til hagkerfisins og virkni þess, enda hefur það svo mikil áhrif á samfélagið í heild sinni, sem fyrr segir.

Sem stendur, á Íslandi í dag, er helsta vísbendingin um framtíðarsýn að finna í stefnuskrám þeirra flokka sem mætti kalla umbótasinnaða. Stefnuskrárnar á vefsíðum þeirra eru prýddar að mörgu leyti ágætis hugmyndum: Einn flokkur leggur áherslu á lýðræði á vinnustöðum í sinni stefnuskrá, en slíkt er þó aldrei nefnt í ræðu né riti frá fulltrúum flokksins. Annar flokkur nefnir að auka jöfnuð í gegnum skattkerfið, m.a. með breytingum á tekjuskattinum, en hvergi eru fjármagnstekjur nefndar í stefnuskránni, né breytingar á skattlagningu þeirra, þótt svo að fjármagnstekjur séu ein helsta orsök ójöfnuðar á Íslandi. Þriðji flokkurinn talar um lýðræðisvæðingu lífeyrissjóðanna, en fulltrúar flokksins og stuðningsmenn minnast aldrei á þetta í opinberri umræðu.

Stefnuskrárnar vísa allar í rétta átt, en þeim vantar allar ferskar hugmyndir um efnahagskerfið, auk þess sem flokkunum vantar að gera þær að orðræðu þeirra sjálfra.

Tvær hugmyndir að framtíðarsýn

Skoðum tvær hugmyndir sem umbótasinnaðir flokkar gætu auðveldlega gert að sinni framtíðarsýn.

Enginn áðurnefndra flokka minnist einu orði á að breyta bönkum landsins í samfélagsbanka – stefnuskránar fjalla eitthvað um notendagjöld bankanna, en ekki mikið meira. Að umbreyta bönkunum í samfélagsbanka væri ein mikilvægasta aðgerð sem hægt væri að framkvæma í efnahagskerfinu, enda væru bankar landsins þá reknir með það fyrir augum að gagnast samfélaginu með því að veita sem skilvirkustu og ódýrustu þjónustuna, en jafnframt stunda siðleg og heilbrigð viðskipti. Hagnaður væri ekki aðalatriðið né hámörkun hans, en þeir væru þó reknir með hagnaði til að tryggja tilvist þeirra til framtíðar. Þetta væri stefnubreyting frá þeim bönkum sem við búum við í dag, sem hafa það markmið eitt að hámarka hagnað, á kostnað notendanna og jafnvel samfélagsins í heild. Samfélagsbankar eru til í öðrum löndum, eins og t.d. Þýskalandi, þar sem bankinn Sparkasse er öflugur.

Önnur hugmynd væri að innleiða löggjöf sem gerir fólki kleift að stofna lýðræðisleg fyrirtæki. Sem stendur er engin löggjöf til um slík fyrirtæki á Íslandi og því erfitt að stofna þau. Lýðræðisleg fyrirtæki eru fyrirtæki í eigu starfsmanna þeirra, þar sem þeir stjórna ferðinni í ákvarðantöku um stór mál og stefnu almennt, t.d. í gegnum aðalfundi, en stjórnendur sjá um dagsdaglega ákvarðanatöku. Markmiðið með slíkum fyrirtækjum er að tryggja eigendunum – starfsmönnunum – atvinnu og ef svo ber undir, ágóða af starfseminni. Slík fyrirtæki eru t.d. til í þúsundavís á Spáni og Ítalíu, og er eitt stærsta fyrirtæki Spánar, Mondrágon, einmitt lýðræðilegt fyrirtæki.

Þetta eru tvær hugmyndir sem ættu að geta orðið hluti framtíðrasýnar hvaða umbótaflokks sem er á Íslandi. Báðar ættu þær að geta orðið vinsælar meðal kjósenda, og báðar myndu þær geta haft grundvallaráhrif á gang hagkerfisins eftir því sem á líður, hvort sem er vegna áhrif á jöfnuð eða lýðræðislega ákvarðanatöku í samfélaginu.

Umbótasinnar verða að mynda fylkingar, vinna saman og hafa áhrif á þær hugmyndir sem stýra samfélaginu, með bæði gagnrýni og eigin hugmyndum sem verkfæri. Þetta þarf að gerast í gegnum fjölmiðla, í gegnum félagasamtök, í gegnum fulltrúa stjórnmálaflokka, og svo framvegis. Lykillinn er alltaf sá sami: Framtíðarsýn og boðun hennar, ekki bara fyrir kosningar, heldur sí og æ yfir langan tíma.

Þannig hefst þetta.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni