Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Samtök Atvinnulífsins gegn skemmri vinnutíma

Undir lok síðasta árs lögðu fimm þingmenn fram frumvarp á Alþingi um styttingu vinnudagsins. Efni frumvarpsins er sáraeinfalt: Styttum vinnuvikuna um fimm stundir, úr fjörtíu stundum í þrjátíu og fimm, en með þessu myndi núverandi viðmið um fulla vinnuviku breytast þannig að þrjátíu og fimm stundir væru viðmiðið — allt umfram það væri yfirvinna.

Markmiðið með frumvarpinu er líka einfalt: Að skapa fólki meiri frítíma til að eyða með vinum, fjölskyldu og til að sinna áhugamálum. Ísland er nefninlega frekar illa sett hvað varðar vinnutíma, sérstaklega í samanburði við hin Norðurlöndin: Á Íslandi vinnur fólk um klukkutíma lengur hvern virkan dag en fólk gerir almennt í Noregi, eða sem nemur um 35 heilum vinnudögum meira á ári. Það er svipað þegar Ísland er borið saman við t.d. Þýskaland og Frakkland: Á Íslandi vinnur fólk næstum heilum vinnudegi lengur í hverri viku en fólk í Þýskalandi, og hálfum vinnudegi lengur en fólk í Frakklandi (þessar tölur miðast við árið 2015). Á myndinni má sjá hvernig vinnutíminn hefur þróast á Íslandi allt frá um 1960: Eins og sjá má hefur lítið þokast frá um 1980, nema ef vera skyldi árin frá hruni, en þau einkennast þó frekar af takmörkunum á yfirvinnu en öðru, sem ku vera að breytast.

Myndin sýnir þróun vinnutíma á Íslandi, í öðrum Norðurlöndum en Íslandi, og svo í nokkrum þróuðum evrópulöndum (m.a. Þýskalandi og Frakklandi), auk umskiptalanda (m.a. Slóvenía og Lettland).

Eins og vanalegt er á Alþingi var kallað eftir umsögnum um frumvarpið frá ýmsum hagmunaaðilum, en umsagnirnar voru margar jákvæðar. Hins vegar voru ákveðnir fjölmiðlar snöggir að grípa til umsagnar frá Samtökum Atvinnulífsins, og hana eingöngu — svolítið eins og þessi tilteknu sérhagsmunasamtök atvinnurekenda séu algerlega óbrigðul í dómgreind sinni hvað varðar almannahag.

Samtök Atvinnulífsins brugðust við frumvarpinu með því að lýsa yfir „fullkominni andstöðu við frumvarpið“, eins og það var orðað í umsögn samtakanna um það. Aðalröksemd Samtakanna virðist vera að Alþingi eigi ekki „ráðskast“ með vinnutíma, eins og þau orða það, heldur eigi að semja um vinnutíma í kjarasamningum, en að auki grípa Samtök Atvinnulífsins til gamalkunnugrar, en svo mjög slitinnar sér-íslenskrar Grýlu: Óðaverðbólgu og aukins kostnaðar.

Samtök Atvinnulífsins reyna nefninlega að draga upp þá mynd, að stytting vinnudagsins myndi valda fyrirtækjum auknum kostnaði: Vinnuvikan myndi ekkert styttast, segja þau, við lagabreytinguna, heldur myndi fólk vinna jafn mikið, en eftir lagabreytinguna þyrfti að greiða meiri yfirvinnu, sem er betur launuð, og þannig yrði kostnaðaraukinn til. Þau bæta svo í, og segja að lög sem voru sett árið 1972 um 40 stunda vinnuviku hafi markað „upphaf óðaverðbólgunnar sem ríkti næstu 10-15 árin“. Þessi splunkunýja skýring á þessum miklu verðbólgutímum er ekkert rökstudd að neinu leyti, heldur sagt frá eins og hér sé um að ræða gamalkunnar staðreyndir, sem er ekki raunin, heldur er hér er um að ræða órökstuddar alhæfingar frá sérhagsmunasamtökum.

Ólíkt því sem kannski margir geta séð fyrir sér, þá gerist ýmislegt þegar vinnudagurinn er styttur skipulega: Fólk breytir því hvernig það vinnur, það reynir að sinna vinnunni á hagkvæmari hátt, fólk tekur upp nýtt skipulag, eyðir minni tíma í hluti sem litlu máli skipta og þar fram eftir götunum. Þetta er ekki úr lausu lofti gripið, heldur er þetta reynslan frá Þýskalandi og Frakkandi þar sem vinnudagurinn var styttur nokkrum sinnum undir lok síðustu aldar.

En innherjar í Samtökum Atvinnulífsins, fólkið sem ákveður hvernig eigi að skrifa umsögn eins og þessa, ætli það í alvöru trúi skýringum eins og þeirri að fækkun vinnustunda hafi komið af stað óðaverðbólgu? Kannski. En mögulega liggur þó að baki önnur ástæða, öllu pólítískari.

Samtök Atvinnulífsins leggjast kannski gegn þessum breytingum, eins og svo mörgum öðrum, af þeirri einföldu ástæðu, að ef Alþingi gerir breytingar sem eru venjulegu fólki hagfengin, en valda fyrirtækjum að einhverju leyti auknu álagi, eru Samtök Atvinnulífsins búin að tapa frá sér völdum. Með því að koma í gegn breytingum, alveg sama hvert inntak þeirra er, gætu Samtök Atvinnulífsins átt erfiðar um vik í næsta máli sem kemur fram á Alþingi — það er því allt eins gott fyrir Samtök Atvinnulífsins að vera mótfallin flestu sem er ekki beinlínis þeirra hugmynd, ekki beinlínis partur af þeirra sérhagsmunum.

Stytting vinnuvikunnar gæti nefninlega sett álag á fyrirtækin í landinu: Skyndilega er komin fram krafa um hagræðingu — ekki hagræðingu sem flest í því að segja upp fólki, heldur hagræðingu í formi þess að vinna skynsamar, betur, en ekki lengi, eða bara að bæta við starfsfólki. Íslensk fyrirtæki standa sig nefninlega frekar illa í því að vinna vel, en það er vinsælt að vinna bara lengur til að bæta fyrir það. Þetta sést best í því að framleiðni — hversu mikil verðmæti eru sköpuð á hverri klukkustund — er lág á Íslandi: Til að skapa jafn mikil verðmæti og meðal vinnandi maður gerir í Danmörku á tíu klukkutímum, þá þarf meðal vinnandi maður á Íslandi að vinna í tólf klukkutíma. Hér er augljóslega tækifæri til framfara: Það er ekkert sér-íslenskt sem ætti að valda því að meðalmaður á Íslandi geti ekki náð sömu afköstum og meðalmaður í Danmörku — eða meiri.

Kannski ástæðan fyrir því að Samtök Atvinnulífsins leggast gegn frumvarpinu, sé líka sú að fólkið sem vinnur hjá sérhagmunasamtökunum — því þau eru það, sérhagmunasamtök atvinnurekenda — er ekki fólk sem þarf að vinna langa vinnudaga á lélegu kaupi? Kannski fólkið sem vinnur fyrir Samtök Atvinnulífsins, sé hreinlega ótengt við hvernig venjulegt fjölskyldufólk á Íslandi býr og lifir, með laun vel yfir meðaltali, allt í orden?

Kannski.

Samtökin reyna svo sem fleira til að afstýra sjálfsögðum umbótum á lögum um vinnutíma: Þau reyna að villa um fyrir sjálfu Alþingi með því að birta tölur um umsaminn vinnutíma á Íslandi í samanburði við önnur lönd — og eru þessar tölur birtar á þann hátt að það gæti verið auðvelt að halda að fólk vinni mun minna á Íslandi en gert er í öðrum löndum. Hins vegar, eins og margt vinnandi fólk þekkir, þá er umsaminn vinnutími ekki það sama og raunverulegur vinnutími: Raunverulegur vinnutími vill verða lengri en sá umsamdi. Það sést mjög greinilega á myndinni að ofan, að á Íslandi er meira unnið en í nágrannalöndunum.

Við skulum  hafa það hugfast hér sem endranær, að Samtök Atvinnulífsins eru sérhagmunasamtök, að þau eru ekki samtök sem vinna í þágu almennings, heldur fyrir þá hópa sem hafa undirtökin í Samtökum Atvinnulífsins. Við eigum hreint ekki að láta sérhagsmunasamtök atvinnurekenda ráða því hvernig við vinnum, eða hversu lengi, og það alveg sérstaklega þegar það er augljóslega tækifæri til að vinna minna og njóta lífsins betur.

Íslendingar geta klárlega gert betur en þeir gera þegar kemur að vinnutíma; þeir geta unnið skynsamlegar, þeir geta unnið skemur, þeir geta hagrætt: Það þarf hins vegar að koma því í framkvæmd, og einhversstaðar þarf að byrja. Lagasetning getur allt eins komið því til leiðar að íslendingar loksins fari að vinna skemur, rétt eins og það að semja um skemmri vinnudag í kjarasamningum getur gert það. Frumvarp fimmmenninganna er hið besta mál, og vonandi að það komist áfram innan Alþingis.

* * *

Fyrri myndin er fengin af Wikipediu, og er tekin af manni sem vinnur að uppbyggingu stíflu í Bandaríkjunum. Meiri upplýsingar má finna hér.

Myndin með upplýsingum um vinnutíma er teiknuð eftir gögnum úr Total Economy Database. Gögnin má finna hér.

Upplýsingar um framleiðni eru einnig fengnar úr Total Economy Database.

Ítarefni um styttingu vinnudagsins má finna hér.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu