Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Sjálftaka ríkissjóðs á skyldusparnaði launamanna

Sjálftaka ríkissjóðs á skyldusparnaði launamanna

Í umræðunni sem fram fer þessa dagana um lífeyriskerfið er greinilega ástæða til þess að draga fram á hvaða stoðum íslenska lífeyriskerfið var reist. Fyrsta stoð lífeyrisskerfisins hefur frá upphafi verið grunnlífeyrir almannatrygginga sem er fjármagnaður af skatttekjum ríkissjóðs. Þeir sem hafa verið búsettir hér á landi amk þrjú almanaksár á tímabilinu frá 16-67 ára aldurs öðlast rétt á grunnlífeyri almannatrygginga, en hann skerðist hlutfallslega við lengd búsetu á tímabilinu til 67 ára aldurs. Í tilfelli hjóna er miðað við rétt þess sem hefur haft lengri búsetu á Íslandi.

Þann 19. maí árið 1969 náðu fulltrúar verkalýðssamtaka og vinnuveitenda samkomulagi í kjaradeilu sem staðið hafði í þrjá mánuði. Lausnin fólst í samkomulagi um stofnun lífeyrissjóða sem yrði önnur stoð íslenska lífeyriskerfisins. Lífeyrissjóðunum var þegar í upphafi ætlað að sinna fleirum þáttum trygginga en bara ellilífeyri sakir þess hversu slakur réttur almenns verkafólks var hjá almannatryggingum. Íslendingar voru langt á eftir hinum norðurlandanna þrátt fyrir að verkalýðsfélögin hér hefðu náð mun meiri lengingu á veikindadögum og stofnum sjúkrasjóða hér á landi. Það varð til þess að í stofnsamningum lífeyrissjóðanna var ákveðið, að auk þess að greiða ellilífeyrir myndu þeir greiða örorkubætur, makabætur og barnabætur.

Lífeyrissjóðirnir komust í fulla starfsemi með starfskjaralögunum árið 1974. Þar voru kjarasamningarnir gerðir bindandi fyrir alla í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem kjarasamningar tóku til og þar með aðild að lífeyrissjóðum. Í 2. gr. þeirra segir að öllum launþegum sé skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði. Þarna varð til nýr viðbótarbótaflokkur í almannatryggingum sem nefndur var tekjutrygging. Með þessum bótaflokki var að því stefnt að þeir einstaklingar, sem verið höfðu utan vinnumarkaðar, nytu mannsæmandi lífeyris sem tryggði þeim a.m.k. fjárhagslegs sjálfstæðis og virðingar.

Einnig var gert ráð fyrir því að þangað til lífeyriskerfið yrði fullburða, sem tekur heila kynslóð á vinnumarkaði (45 ár), myndu greiðslur frá lífeyrissjóði skerða tekjutrygginguna um sem nemur 45% af upphæðinni en einstaklingurinn héldi eftir 55%. Lífeyriskerfið verður ekki fullburða fyrr en upp úr árinu 2025, þeas þá fyrst verða til lífeyrisþegar sem hafa greitt fullt iðgjald í heilan starfsaldur í lífeyrissjóð, það var í raun ekki fyrr en eftir árið 1982 sem tryggt er að sparifé launamanna brann ekki jafnharðan upp á verðbólgubálinu

Við erum nákvæmlega núna að ganga í gegnum erfiðasta tímabilið. Tímabil sem margir hafa varað við undanfarna áratugi. Það eru til mörg brot úr ræðum á fundum launamanna á þessum tíma þar sem fram kemur að erfiðast muni reynast að halda stjórnmálamönnum frá inngripum í lífeyriskerfið. Þeir myndu þegar sparifé launamanna færi að nema umalsverðum upphæðum telja sig vera til þess kjörna að ráðstafa sjóðunum.

Þessar spár hafa ræst og það eru til mýmörg dæmi um þessar tilraunir, nákvæmlega það sama sem stjórnmálamenn eru að gera þessa dagana með því að hrifsa til sín hluta af sparnaði launamanna með því að skerða bætur frá Tryggingarstofnun.

Í úttektum á stöðu bótakerfisins upplýsist að stjórnmálamenn hafa komið hlutunum þannig fyrir að samfélagið hefur síðustu ár greitt nákvæmlega ekkert fyrir þjónustu við aldraða. Staðan er orðin sú að aldraðir eru látnir fjármagna sjálfir útgjöld vegna lífeyris og reksturs hjúkrunarheimila og töluvert umfram það og framlög aldraðra til samfélagsins eiga eftir að tvöfaldast á næstu árum. Samfélagið greiðir í raun minna en ekkert til þessara verkefna. Svör stjónmálamanna við kröfum aldraðra um að staðið sé við fyrri loforð eru að það sé alltof dýrt og það muni raska stöðugleikanum. Krafa aldraðra er einföld við viljum lifa mannsæmandi lífi og höfnum sjálftöku stjórnvalda á sparifé okkar.

Athafnir stjórnmálamanna hafa leitt til þess að það eru margir á lífeyrisaldri sem standa mjög illa í dag og margir sem fá ekki notið þess sem þeir hafi sparað til elliáranna. Enginn sjóðsfélagi almennu lífeyrissjóðanna hefur greitt til þeirra fullan starfsaldur, margir einungis hluta. Þeir sem verst standa eru konur sem áttu börn og það eru ekki mörg ár síðan sem það var talin beinlínis siðferðisleg skylda þeirra að vera heima að sinna börnum sínum. Það varð til þess að þær greiddu ekki í lífeyrissjóð. Sumar þeirra eru ekkjur eða hafa lent í skilnaði og eiga þannig sáralítinn rétt. Ef sýna einhvern vilja til sjálfsbjargar er þeim grimmilega refsað af fjármálaráðherra.

Grunnlífeyrir TR átti ætíð að vera til viðbótar við lífeyri, þannig er það á öllum Norðurlöndunum. Þeir sem hafa lagt til hliðar í lífeyrissjóð fá notið þess án eignaupptöku af hálfu stjórnvalda. Núverandi fjármálaráðherra lofaði því í síðustu kosningabaráttu að lagfæra þetta, en það loforð var svikið. Í stað þess voru hins vegar framkvæmdar tilfærslur innan bótakerfisins þannig að framlag aldraðra til samfélagsins var í raun aukið. Ef atvinnutekjur og fjármagnstekjur að viðbættum atvinnu- og fjármagnstekjum fara upp fyrir 214.604 kr. er grunnlífeyrir frá Tryggingastofnun skertur um 25% og ef lífeyrisþegi sýnir það mikla sjálfsbjargarviðleitni að fara upp fyrir 374.050 krónur á mánuði falla grunnlífeyrisgreiðslur niður.

Þetta klárt bort á öllum fyrri samningum um grunnlífeyrinn og íslensk stjórnvöld eru þau einu í norrænu samfélagi sem eru með hendur á bólakafi í vösum aldraðra.

Það er því ljóst að í öllum samningum um formsetningu lífeyriskerfisins var ætíð gert ráð fyrir að grunnlífeyrir væri fyrsta stoð lífeyris en úttekt lífeyrisþega úr skyldusparnaði sínum í lífeyrissjóð kæmi til viðbótar. Þar skipti einu hversu mikið launamaðurinn hefði lagt fyrir. Það kæmi stjórnvöldum ekkert við eins sagt var á sjóðsfélagafundum hér á árum áður þegar þessi mál voru rædd. Td hafa margir í tekjuháu hópunum reynt að setja þak á hversu mikið þeir greiddu til samtryggingarhluta lífeyriskerfisins. Þeas þeir vildu greiða það sem dygði til að uppfylla þeirra hlut til fullrar samtryggingar en allt sem væri umfram það færi inn á séreignarreikninga.

Í tekjuhæstu hópunum innan Rafiðnaðarsambandsins voru þessi skil reiknuð nákvæmlega út og send inn með umsókn, þar var það um 7-8% að iðgjaldinu sem færu til samtryggingarinnar og restin inn á séreign. Þáverandi fjármálaráðherrar börðust hart gegn þessu. Allur skyldusparnaður skyldi fara í samtrygginguna. Í dag er reyndin hins vegar sú að allt fyrir ofan þessi skil hefur fjármálráðherra ákveðið að gera upptækt og það rennur beint í ríkissjóð.

Það er einnig komið í ljós þessa dagana að margir þeirra sem stóðu gegn þessu framkvæmdu þetta hins vegar sjálfir með tilfærslum úr íslenska krónukerfinu yfir í erlend skattaskjól.

Í umræðum um jöfnun lífeyrisréttinda og í samningum um lífeyriskerfið hefur grunnlífeyririnn ávalt verið tekinn með sem er mikilvæg forsenda þess að það markmið náist. Starfsmenn gerist fullgildir aðilar að almannatryggingunum, en lífeyrissjóðir þeirra starfrækjast áfram sem viðbótartrygging. Inngreiðslur í almenn lífeyriskerfið skilar lífeyri sem samsvarar um 60% af meðallaunum, grunnlífeyririnn þar til viðbótar lyftir því í 75% sem er það sama og opinberu lífeyrissjóðirnir eru að skila til sinna sjóðsfélaga.

Stjórnmálamenn eru enn eina ferðina í bullandi mótsögn við sjálfa sig. Þeir sem greiða skatta öðlast rétt til grunnlífeyris, engu skiptir hvaða aðrar tekjur viðkomandi hefur. Þetta er hefur verið grunntónn allra viðræðna við mótun lífeyriskerfisins enda er þetta praktíserað með þessum hætti á öllum Norðurlöndunum. Nema Íslandi.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni