Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Þrælakistur á Íslandi

Þrælakistur á Íslandi

Yfirferð Kveiks í RÚV á undirheimum íslenska vinnumarkaðsins hefur slegið marga og það má skilja á mörgum þ.á.m. nokkrum stjórnmálamönnum að þetta sé eitthvað nýtt hér á landi. Þetta ástand er ekki nýtt og hefur tíðkast á íslenskum vinnmarkað um allangt skeið. Það kom fyrst í áþreifanlegum mæli upp á yfirborðið í slagsmálum verkalýðshreyfingarinnar við erlent verktakafyrirtæki sem tók að sér að reisa Kárahnjúkavirkjun, reyndar gerði Landsvirkjun samning árið 1998 við rússneskt fyrirtæki um reisa eina af Búrfellslínunum á verði sem var langt undir áætlunum og það kom síðan í ljós að það var reist á erlendum verkamönnum sem voru á launum langt undir gildandi lágmarkslaunum og aðbúnaður þeirra var langt undir því að vera mannsæmandi.

Þann 6. des. 2002 voru tilboð í byggingu Kárahnjúkavirkjunar opnuð og þar reyndist ítalskt fyrirtæki vera langlægst eða 44 milljarða kr. í verkið, sem var um 6 milljörðum undir kostnaðaráætlun Landsvirkjunar. Önnur fyrirtæki sem buðu í verkefnið voru öll með töluvert hærri tilboð. Forsvarsmenn þeirra fyrirtækja, sem sum hver höfðu reist nokkrar virkjanir fyrir Landsvirkjun, sögðu að það væri einfaldlega útilokað að reisa Kárahnjúkavirkjun fyrir þessa upphæð, þ.e.a.s. ef farið væri eftir lögum um lágmarkskjör, aðbúnað starfsmanna og öryggisreglum Vinnueftirlits.

Þessu var mótmælt kröftuglega, ekki bara af talsmönnum ítalska fyrirtækisins, heldur einnig af talsmönnum Landsvirkjunar og af öllum þá mættu ráðherrar í hvern fréttaþáttinn af öðrum og báru hástemmd loforð á hið erlenda fyrirtæki. Þegar vinna við að reisa vinnubúðir við virkjunina kom í ljós að fyrirtækið hefði ekki kynnt sér íslenskar reglugerðir um öryggismál, aðbúnað og lágmarkskjör starfsmanna. Ítalska fyrirtækið ætlaði sér ekki að virða lög og reglur um lágmarksrými hvers starfsmanna í svefnherbergjum, snyrtiaðstöðu og sameiginlegra vistarvera. Þrátt fyrir að gengið væri hart að íslenskum fyrirtækjum að virða þessar reglur fékk ítalski verktakinn umsvifalaust heimild frá stjórnvaldinu um að það mætti nýta sér reglugerð um færanlegar vinnubúðir sem áttu augljóslega ekki við um byggingu Kárahnjúkavirkjunar sem átti standa yfir í a.m.k. þrjú ár.

Glæsilegustu vinnubúðir í Evrópu

Ráðherrar stigu fram og brugðust ókvæða við gagnrýni trúnaðarmanna stéttarfélaganna, og sumir þeirra fóru í sérstakar ferðir upp í búðirnar og tóku ávallt með sér sjónvarpsfréttamenn. Í fréttatímum lýstu ráðherrar vinnubúðunum sem þeim glæsilegustu sem reistar hefðu verið í Evrópu. Halldór Ásgrímsson ráðherra tók eiginkonu sína með og skoðaði starfsmannabúðirnar og lýsti því yfir í fréttum Sjónvarpsins að þeim hjónum litist svo vel á búðirnar að þau gætu vel hugsað sér að flytja að Kárahnjúkum. Tekið var viðtal við verktakann sem sagði að fyrirtækið ætlaði að reisa á svæðinu knattspyrnuvelli og fleiri mannvirki til afþreyingar, sem komst reyndar aldrei í framkvæmd.

Starfsmenn stéttarfélaganna bentu, ásamt heimamönnum, á að vinnubúðirnar myndu ekki standast lágmörk byggingareglugerða og þaðan af síður íslensk vetrarveður. Bændur í nágrenni við virkjunina bentu á að hálsinn sem vinnubúðirnar voru reistar á væri mesta veðravíti hálendisins fyrir utan hálendi Vatnajökuls. Þegar fyrstu vetrarveður skullu kom í ljós allar þessar athugasemdir reyndust réttar. Vera verkafólksins fyrsta veturinn í Kárahnjúkum varð af þessum sökum skelfileg og ömurleg í alla staði og fjarri því að vera mannleg. Milliloft vinnubúðanna fylltust af snjó í skafrenning og loft í herbergjanna hrundu ásamt snjósköflum niður í rúm starfsmanna.

Starfsmenn stéttarfélaganna minntu eftirlitsmenn Landsvirkjunar árangurslaust á reynslu þeirra af rekstri vinnubúða á hálendinu sem hefði orðið til þess nauðsynlegt væri að tengja saman íbúðarskála og hafa jafnframt innangengt í mötuneytið, en við Kárahnjúka væru margir stakir svefnskálar og matsalir og sameiginlegar vistarverur í húsum fjarri svefnskálum. Í stórhríðum á hálendinu hefðu menn orðið úti við það að reyna að komast á milli húsa.

Þessum aðvörunum var í engu sinnt. Hurðir af skálunum fuku út í buskann í fyrstu hríð og starfsmennirnir þurftu í vondum veðrum að skríða á milli skálanna til þess að komast í mötuneytið. Allt fyrir var þetta framkvæmanlegt fyrir tilverknað ráðherranna sem gáfu undanþágur á öllum settum reglum. Það var skelfileg staðreynd fyrir íslenska þjóð að vera þannig aðili í slíkri framkomu við bláfátæka og bjargarlausa verkamenn.

Á myndinni hér sést hvernig skaflarnir mynduðust á loftum svefnskálanna og loftin hrundu niður á starfsmennina.

Íslenskir launamenn sniðgegnir

Í kynningu stjórnvalda og Landsvirkjunar af framkvæmdunum við Kárahnjúka var því lýst að íslenskt verkafólk myndi hafa forgang. Ítalski verktakinn gaf út yfirlýsingu við upphaf framkvæmda að fyrirtækið stefndi að því að 70% starfsmanna yrðu af Íslendingar og í boði yrði góð laun og frábær aðbúnaður. Síðar kom í ljós að þessar yfirlýsingar voru innhaldslaust og meiningarlaust hjal og umsóknum íslenskra launamanna var ekki svarað.

Erlendir starfsmenn kvörtuðu við trúnaðarmenn verkalýðsfélaganna undan framkomu verkstjóra, aðbúnað og laun. Starfsmannavelta varð strax óvenjulega há við Kárahnjúka, langt umfram það sem áður hafði þekkst hér á landi. Þegar stjórnarþingmenn, ráðherrar ásamt talsmönnum verktakans og Landsvirkjunar gripu til varna gagnvart gagnrýni á innflutningi á erlendu verkafólki langt umfram fyrri loforð voru helstu varnirnar reistar á því að veitast að talsmönnum verkalýðsfélaganna og saka þá um rasisma og fordóma gagnvart erlendu launafólki.

Starfsmenn stéttarfélaganna sýndu einnig fram á að skjólfatnaður verkamanna við Kárahnjúka væri lítilsvirði við íslenskar aðstæður, en því var í engu sinnt af hálfu fyrirtækisins. Starfsmenn stálu öllum dagblöðum sem þeir komust yfir og settu innundir þann skjólfatnað sem þeim var skaffaður. Þeir fengu til afnota skó sem ekki héldu snjóbleytu og margir gengu með dagblöð og plastpoka í skóm sínum.

Skömmu eftir að aðaltrúnaðarmaður hafði bent á þetta mætti fjölmiðlafulltrúi ítalska fyrirtækisins í frettunum og tilkynnti að vertakinn hefði keypt 200 pör af ullarsokkum. Engar kaffistofur voru út á vinnusvæðunum og starfsmenn menn urðu að neyta nestis í giljum eða á milli þúfna eða ef svo vel stóð á að stutt væri í næsta gám. Engar snyrtingar voru út á vinnusvæðunum og oft nokkrir kílómetrar að næstu snyrtihúsi, sem varð til þess að verkamennirnir nýttu sér næsta skjól til sinna þörfum sínum og ástandið á skjólsælum stöðum varð víða ákaflega ógeðfellt.

Á myndinni sést kaffihlé í gám sem var það besta sem boðið var upp á

Trúnaðarmenn starfsmanna og við starfsmenn stéttarfélaganna voru gáttuð á viljaleysi Íslenskra eftirlitsstofnana að taka á þessum málum gagnvart fyrirtækinu. Stjórnvöld stilltu reglulega upp sjónarspili í fjölmiðlum í tilraunum að breiða yfir hver staða mála væri í Kárahnjúkum og reyndu þannig að gera þá sem kröfðust úrbóta tortryggilega. Allt væri í lukkunnar standi uppi við Kárahnjúka.

Eftir fyrsta starfsár ítalska fyrirtækisins var haldin haldinn sameiginlegur fundur fulltrúa Vinnu- og Heilbrigðiseftirlits, Brunamálastofnunar, sýslumanns, sveitarstjórna og byggingarfulltrúa þeirra og trúnaðarmenn stéttarfélaganna. Ástandið á Kárahnjúkasvæðinu væri hreint út sagt óásættanlegt í brunavörnum, löggæslu og heilbrigðismálum. Verktakinn hefði fengið margskonar undanþágur frá ráðuneytum og greinilegt væri að allar eftirlitstofnanir vildu ekki koma nálægt Kárahnjúkunnum.

Þetta ástand hefði orðið til þess og fyrirtækið virti vitanlega að vettugi alla þá ramma sem tíðkuðust á íslenskum vinnumarkaði og gekk sífellt lengra í að brjóta reglugerðir, en á sama tíma gengu þau hart að íslenskum fyrirtækjum. Stjórnarformaður Landsvirkjunar kom fram af þessu tilefni í fjölmiðlum og bar á stéttarfélögin og reyndar Íslendinga almennt, að þeir væru virkilega ósanngjarnir í garð hins erlenda verktaka. Ráðherrar komu reglulega fram í fjölmiðlum og fluttu þar hástemmdar þakkarræður til hins erlenda fyrirtækis um hversu mikilsvert það væri fyrir íslenska þjóð að eiga jafnt góða að.

Trúnaðarmenn fengu upplýsingar um launakjör og fóru með þau út á vinnusvæðin og báru þau undir starfsmenn, þeir könnuðust ekki við þessi laun og sá starfsmaður sem neitaði að skrifa undir Excel-skjalið var umsvifalaust rekinn heim. Í framhaldi af því fóru talsmenn stéttarfélaganna austur og héldu stóran fund með starfsmönnum á svæðinu. Þar kom fram margskonar beiðnir um aðstoð við lagfæringar á launum og aðbúnaði. Þegar við fórum tilbaka komu tveir af starfsmönnum verktakans til okkar og fengu að verða okkur samferða til Egilsstaða og þaðan til Reykjavíkur. Í ljós kom að þeir hefðu verið reknir eftir að hafa verið veikir í tvo daga og voru algjörlega vegalausir. Þegar lent var í Reykjavík var haft samband við fjölmiðla og starfsmennirnir fengnir til þess að segja sögu sína.

Á myndinni hér sést hvar loft féll í rúm starfsmanns og snjóskaflinn fylgdi

Þrælakisturnar við Kárahnjúka

Niðurstaða fundarins og viðtöl við starfsmennina urðu til þess að landsmenn fóru að tala um þrælakisturnar við Kárahnjúka. Og viti menn forsvarsmenn Landsvirkjunar féllust á kröfur verkalýðsfélaganna að þeir væri núna tilbúnir að funda með verktakanum og krefjast þess að hann færi að íslenskum lögum og reglugerðum um allan aðbúnað. Landsvirkjun fór að loknum fundum með talsmenn ítalska verktakans í Vatnsfellsvirkjun og sýndi þeim hvernig íslenskar vinnubúðir þyrftu að vera ef þær ættu að standast íslensk hálendisveður og aðrar kröfur. Í þessari stöðu varð mörgum landsmönnum loks ljóst hversu ömurleg afstaða íslenskra ráðherra og talsmanna eftirlitsstofnana hefði verið í garð hinna erlendu starfsmanna og hvaða afleiðingar þær hefðu haft.

Stækkun neðanjarðarhagkerfisins

Nú var stillt upp umfangsmikilli sjónvarpskynningu þar sem talsmenn verktakans og stjórnvaldsins héldu því fram að þetta hefði alltaf staðið til og „upphlaup” verkalýðsforkólfa hefði verið óþarft og lýsingar þeirra á ástandi einungis óraunsætt frumhlaup sem einkenndist af rasisma gagnvart erlendu verkafólki. Auk þess komu í Sjónvarpið fréttir af umræðum stjórnarliða á Alþingi þar sem þeir skömmuðust út í verkalýðshreyfinguna fyrir að hafa ekkert gert til útbóta í málum, þar væri að finna ástæðu þess að þetta hefði dregist svona lengi. Fyrirtækið hefði sjálft tekið frumkvæði í að lagfæra hlutina á virkjanasvæðinu. Við fengum reyndar nákvæmlega sömu skýringar frá talsmanna Vinnumaálstofnunar í Kastljósinu í gærkvöldi (4.10.2018) Það var sorglegt fyrir trúnaðarmenn starfsmanna að horfa upp á þennan málflutning og ekki síður að fjölmiðlamenn virtust ekkert gera til þess að fletta ofan af þessum mótsagnakenndu fullyrðingum stjórnþingmanna og talsmanna verktakans og spunameistara þeirra.

Mikil fjölgun erlendra starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði var á þessum árum varð til þess að margskonar brot á réttindum erlendra starfsmanna urðu algeng. Íslenskar starfsmannaleigur birtust á vinnumarkaðnum og fluttu til landsins fleiri hundruð erlendra verkamanna sem hófu samdægurs störf á stærstu vinnuvélum landsins á Kárahnjúkasvæðinu án þess að lögregla eða Vinnueftirlitið kannaði réttindi þeirra. En aftur á móti var gerð sú krafa til Íslendinga, að þeir sæktu dýr námskeið til þess að ná meiraprófi eða réttindum á vinnuvélar.

Ef Íslendingar voru staðnir að vinnu á þessum tækjum án þess að fullnægja þessum skilyrðum, voru þeir hins vegar umsvifalaust dregnir fyrir dómstóla og sektaðir. Íslenskum fyrirtækjum var gert að búa sínum starfsmönnum lágmarksaðbúnað og tryggja öryggi þeirra á vinnustað í samræmi við lög og reglugerðir. Annað virtist gilda um hið erlenda fyrirtæki sem starfaði við að reisa Kárahnjúkavirkjun.

Þegar endanlegt uppgjör var gert árið 2007 um byggingarkostnað Kárahnjúkavirkjunar kom í ljós að ummæli íslensku fyrirtækjanna reyndust vera rétt. Heildakostnaðurinn við Kárahnjúkavirkjun reyndist vera 133 milljarðar. Hagfræðingur við Háskóla Íslands sagði eftir að hafa skoðað gögnin að kostnaður við Kárahnjúkavirkjun hefði farið 45% fram úr áætlun og gagnrýndi aðferðarfræði Landsvirkjunar við uppgjörið þar væri augljóslega verið fela staðreyndir.

Hér hafa verið stofnuð eru fyrirtæki sem leigja út verkafólk til hverskonar verka á 100 dollara á mánuði. Lengd vinnutíma skiptir engu máli. Neðanjarðarhagkerfið blómstrar í skjóli kennitöluflakksins og gjöld til samfélagsins skila sér ekki sem veldur því að eðlilegur rekstur innlendra fyrirtækja verður erfiðari eða jafnvel vonlaus. Stjórnmálamenn eru allt frá því að framkvæmdir hófust við Kárahnjúka lofað því að taka á þessum málum, en ekkert hefur gerst þessi 15 ár og jafnvel ganga stjórnmálamenn svo langt að segja að þeir hafi aldrei heyrt neitt um þetta hratt vaxandi mein íslensks samfélags.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu