Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Þriðji orkupakkinn

Þriðji orkupakkinn

Þingmenn komast ekki upp úr spori sjálfstortímingar og viðhalda falli trausts Alþingis. Þar má nefna örfá dæmi Hrunið, Wintris, Panamaskjölin, Icesave, Klausturheimsókn, Kjararáð, Landsdómur og Mannréttindadómstóll og nú fer fram umræðan um 3ja orkupakkann. Enn eina ferðina eru þingmenn komnir í þekktan farveg með upphrópunum, lýðskrumi og innistæðulausum fullyrðingum og virðing Alþingis visnar.

Í umræðu þeirra er sjaldgæft að bent sé á atriði í lagatextanum sem eigi að vera hættuleg. Þess í stað er höfðað til tilfinninga með því að tala um almenn atriði. Þetta sé eitt af einkennum fyrirbærisins þjóðernispopúlisma. Tilteknir fjölmiðlar grípa þetta á lofti og draga á þessum forsendum upp ranga mynd af samfélagi okkar og þeim hættum sem steðji að því.

Hagtölur, regluverk og gildandi lög svo maður tali nú ekki um staðreyndir allt þetta skiptir engu. Upplifun sem teiknuð er upp í ræðupúltinu verður hinn eini sannleikur. Við slíka afstöðu er nær ómögulegt að eiga rökræðu. Eitt blasir við hér er oftast talað um allt aðra hluti heldur en þriðja orkupakkann.

Við vitum hvert stefnt er, á Alþingi eru þegar flokkar sem hafa opnað á það í stefnuskrám sínum að skoða möguleikann á því að segja sig frá EES-samningnum eða Schengen-samstarfinu. Það er ekki verið að framselja ákvörðunarvald og skylda Ísland til þess senda orku úr landi. Það er hinsvegar nauðsynlegt, já reyndar óhjákvæmilegt, að ræða kosti og galla þess að tengjast raforkumarkaði ESB. Við komumst einfaldlega ekki hjá því að horfa nokkra áratugi fram í tímann þegar rætt er um orkumálin. Við getum ekki verið stikkfrí í umræðunni um loftslagsmálin.

Sameiginlegur raforkumarkaður ESB hefur með vaxandi framleiðslu umhverfisvænnar raforkuframleiðslu stuðlað að stórbættri orkunýtingu og er einn af mörgum mikilvægum þáttum þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Um allan heim hafa verið stigin stór skef með því að stóruauka framleiðslu með endurnýjanlegum hætti eins vatnsorkuverum, vindmyllum og sólarorkuverum. Í dag eru lagðar gríðarlegar upphæðir í að finna nýjungar í orkuvinnslu með samruna og nýjum tegundum af kjarnorkuverum. Það blasir við að skriðþungi umræðunnar um umhverfisvænnar framleiðslu orku mun aukast umtalsvert á næsta áratugum.

Sæstrengur mun auka orkuöryggi hér á landi og jafna sveiflur í dreifikerfinu vegna óstöðugrar raforkuframleiðslu frá vind- og sólarorkuverum. Sæstrengur frá Íslandi gæti flutt um 2% af orkuþörf Bretlands og árleg áhrif á minnkun útblásturs gróðurhúsalofttegunda er metin um 1 – 2,9 milljónir tonna CO2 ígilda á ári. „Íslensk eldfjöll gætu gefið breskum heimilum rafmagn“ var sagt eftir fund David Camerons og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar eftir ráðstefnuna Northern Future Forum sem haldin var á Íslandi í byrjun október 2015. Eftir fundinn var skipaður vinnuhópur til að finna út verð og magn á raforku sem gæti verið seld í gegnum sæstreng. Viðræður um sæstreng milli landanna tveggja hafa verið í gangi síðan 2012.

Í umræðunni þessa dagana tala margir eins og þeir þekki ekki þá vinnu sem Landsvirkjun hefur lagt í könnun á lagningu sæstrengs. Þar hefur komið fram að strengurinn gæti aflað þjóðinni gríðarlegra tekna. En það er óframkvæmanlegt nema að hér verði reistar allmargar virkjanir og þar á meðal eina risavaxna auk þess að endurbyggja verði allt raforkuflutningskerfið hér innan lands svo hægt sé að safna saman raforkunni á þann stað sem strengurinn nemur land.

Styrking orkuflutningskerfis hér á landi er hins vegar verkefni sem unnið er að og miklar kröfur um að auka hraða þeirrar uppbyggingar. Það er mikill orkuskortur á ákveðnum svæðum hér á landi, dreifikerfið er víða úr sér gengið, en það hefur staðið í hinu opinbera að fjármagna það. Þeir einstaklingar sem eru að reisa minni virkjanir vilja augljóslega að skattborgarar borgi flutninginn en þeir fái söluna á raforkunni í sinn vasa. Það eru þegar í farvatninu mikill fjöldi virkjana af stærðinni 2-20 MW víða um land.

Ein af mótsögnum í málflutning andstæðinga 3ja orkupakkans er sú að orkupakkinn sé einhvers konar forsenda útflutnings á rafmagni um sæstreng. Í því samband má benda á allir sæstrengir Norðmanna til þessa hafa verið ákveðnir og þeir lagðir án þess að orkupakkinn hafi komið þar við sögu. 3ji orkupakkinn skiptir engu um hvort sæstrengur verði lagður til Brexit-landanna.

Það er einfaldlega ekki hægt að ráðast í lagningu sæstrengs nema með vitund og vilja íslenskra stjórnvalda, og hvað varðar áhyggjur af framsali eftirlits- og eftir atvikum refsiheimilda til hinnar samevrópsku orkustofnunar þá eru þær heimildir í eðli sínu þær sömu og saklausari en heimildir hins samevrópska fjármálaeftirlits, sem við höfum þegar samþykkt.

Það er hins vegar allt annað mál hvort tenging Íslands við sameiginlegan raforkumarkað ESB sé áhugaverður kostur fyrir okkur. Ákvörðun Norðmanna um að fjárfesta í tengingum við evrópska markaðinn hefur stuðlað að auknu raforkuöryggi og Norðmenn hafa hagnast verulega á þessum viðskiptum. Samningsstaða þeirra gagnvart stóriðju styrkist verulega við lagningu sæstrengjanna og nú stendur til að fjölga. Norðmenn hafa með þessu komið sér í þá stöðu að geta valið hverjum þeir selja orkuna, og eru ekki í sömu stöðu og við að vera fastir greipum stóriðjunnar, en orkuverð heimilanna hefur hækkað en tekjurnar af orkusölunni renna í að fjármagna samfélagslega þjónustu sem vegur ríflega upp á móti hærra orkuverði.

Í þessu sambandi mætti benda á að þetta er sambærilegt að við stöðvuðum fiskútflutning okkar á þeim forsendum að ýsuflakið myndi hækka í fiskbúðinni. Við seljum um 80% af raforkuframleiðslu okkar til útflutnings í gegnum stóriðjuna og höfum mun meiri hagsmuni af því að hámarka verð á raforku en að halda því niðri og það er hægur vandi að vega á móti mögulegri hækkun á raforkuverði. Þeas segja ef við viljum komast hjá því að hækka skattana okkar svo hægt verði að fjármagna nauðsynlegar lagfæringar á samneyslunni.

Í kerfisáætlun Landsnets 2015-2024 kemur fram að styrkja þurfi flutningskerfið á næstu árum með miklum lagfæringum á byggðalínunni og lagningu línu yfir hálendið til að tengja saman Þjórsársvæði við Kárahnjúka, það er óháð því hvort sæstrengur verði lagður. Til að geta fætt 1.000 MW sæstreng þarf hins vegar mikla styrkingu umfram það sem Landsnet hefur þegar kynnt. Með landtöku sæstrengs á Austurlandi þarf annað hvort tvöföldun línukerfisins og spennuhækkun um hálendið eða spennuhækkun á endurbyggðri byggðalínu með ströndum landsins, en með landtöku á Suðurlandi þarf tvöföldun á línu um hálendið eða sömu spennuhækkun á byggðalínu og í kerfi án sæstrengs.

Kostnaður við styrkingu flutningskerfisins, vegna sæstrengs, er áætlaður á bilinu 30 – 75 milljarðar kr. eftir stærð sæstrengs og kerfis. Sú niðurstaða er miðuð við strengurinn hafi tengipunkt á Austurlandi, en ef tengipunkturinn er á Suðausturlandi verður kostnaðurinn 20% lægri.

Umræðan á Alþingi endurspeglar þröngsýni og einangrunarhyggju þeirra sem halda henni hæst á lofti. Þar er sannarlega ekki til að dreifa þeirri framsýni sem ráðamenn fyrri tíma sýndu með því að leggja höfuðáherslu á þátttöku Íslands í alþjóðasamstarfi og alþjóðaviðskiptum eins og t.d. með EES samningnum og þátttöku í fyrri orkupökkum.

Ástæða er að geta þess að ég er og hef verið þeirrar skoðunnar að það orkumagn sem við getum framleitt, þar geng ég útfrá því að okkur takist að halda þingheimi innan við niðurstöður rammaáætlunar,  þá sé það svo lítið að það muni ekki standa undir sæstreng. Þeas segja miðað við verðlag á sæstrengjum í dag, en það blasir við að þar er mikil þróun. En það er reyndar einnig að eiga sér stað mikil þróun í umhverfisvænum orkugjöfum. En við erum að tala um framkvæmdir sem hugsanlega geta gerst í fyrsta lagi eftir amk einn áratug

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni