Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Þráin eftir frelsi

Þráin eftir frelsi

Þéttbýliskjarnar mótuðust hér á landi ekki með sama hætti og var annarsstaðar í Evrópu. Fólksfjölgun var hér lítil á miðöldum og lausamennska mun minni. Því var haldið fram í kennslubókum fram eftir síðustu öld eða allt fram til 1960-1970, að saga Íslands hefði einkennst af baráttu milli góðra Íslendinga og vondra erlendra manna. Fullyrðingu reistri á einfaldaðri mynd af verslunareinoki Dana.

Þetta breyttist og þá varð áberandi sú skoðun náttúrufræðinga um að eldur og ís hafi verið helsta ástæða þess að hér varð ekki fólksfjölgun og sambærileg þróun og varð á hinum Norðurlöndunum. Upp úr árinu 1980 fer síðan að bera á þeim skýringum eftir ítarlegri rannsóknir að alíslenskt höfðingjaveldi og almenn íhaldssemi hefði staðið einna helst í vegi fyrir samfélagslegri þróun hér á landi á miðöldum og kúgun Dana á íslensku þjóðinni hafi verið orðum aukin. Hér hafi viðgengist séríslenskur níðingsskapur bænda og íslenskrar valdastéttar sem stóð í vegi fyrir allri samfélagslegri þróun.

Vistarbandið var ekki séríslenskt og Ísland ekki eins einangrað og margir hafa haldið fram. Sú löggjöf sem hér ríkti var mótuð af hugmyndastraumum sem viðgengust um alla norðurálfu. Íslensk samfélagsgerð varð um margt sambærileg og hún var í nágrannalöndum okkar. Á miðöldum ríkti hér tvöfalt valdakerfi, annars vegar veraldlegt og hins vegar kirkjulegt. Lengst af á kaþólskum tíma voru stöðugar deilur milli þessara valdabokka.

Meinlætalifnaður hvarf smá saman í kjölfar siðaskiptanna, en í þess stað kom nýtt ögunarkerfi gagnvart verkafólki þar sem lagt var upp úr iðni, skyldurækni og þjónustu við samfélagsheildina. Tilskipun um helgidaga var sett árið 1744 þar sem allir landsmenn voru skikkaðir til þess að sækja kirkjur alla sunnudaga og taka helgihaldið alvarlega.

Þessu fylgdi síðan húsagatilskipunin árið 1746 þar sem kveðið var á um að allt heimilisfólk ætti að uppbyrja og enda daginn með bæn og andvarpan til Guðs fordómalaust. Húsbændum var gert skylt að refsa börnum sínum og vinnuhjúum fyrir óhlýðni og aðrar ódyggðir. Lausamennskubannið er síðan sett árið 1783 þar sem allir búlausir menn voru skyldaðir í vistir sem markar upphaf vistarbandsins og lausamennska bönnuð.

Vistarskyldan var leið stjórnvaldsins til þess að stemma stigu við fólksfjölgun sem myndi framkalla aukna framfærslubyrði hreppanna. Það ríkti mikil vinnuharka hjá bændum með kröfum um iðjusemi og undirgefni. Algengt var að vinnutíminn yfir bjargræðistímann væri 16-18 klukkustundir á sólarhring og lengur á vertíðum til sjós. Vinnuhjú og börn urðu að þola barsmíðar ef bóndi taldi þau slóra við störfin. Vinnan var miskunnarlaus og talinn lífsnauðsyn í samfélagi fátæktar og harðara lífsbaráttu, þar sem laun letinnar voru dauðinn.

Á miðöldum fjölgaði í Norðurálfu Evrópu í þeim hópi verkafólks sem ekki vann í föstu vinnusambandi við bónda og byggði afkomu sína í auknum mæli á launavinnu. Þessi hópur var á faraldsfæti í leit að lausum störfum. Þegar störf skorti sköpuðust margskonar vandamál hjá stjórnvöldum og þeim betur settu, sem varð til þess að reglur voru hertar um hámarkslaunataxta og framkvæmd fátækrahjálpar.

Þessi samfélagsþróun leiddi til vaxandi ríkisvalds og því fylgdi krafa um aukna miðstýring og hagkvæmni. Í stað þess að greiða út fátæktarstyrki voru þeir iðjulausu nýttir til þess að byggja upp innviðina m.a. við gerð flutningsleiða með síkjum, stíflum, vegagerð og eins byggingu opinberra bygginga. Ætlast var til þess að ríkið stuðlaði að hagvexti með opinberum framkvæmdum, en það kallaði hins vegar á auknar skatttekjur.

Í hinni nýju hugmyndafræði sem þá er að ryðja sér rúms varð það hlutverk ríkisins að skipuleggja nýtingu vinnuaflsins þannig að sem flestir ynnu í þágu samfélagsins með agatilskipunum og varð grunnur vistabandsins. Það skipulag framkallaði þörf á reglulegum manntölum svo mögulegt væri að framfylgja aga sem næði til allra landsmanna.

Leti og sjálfræði var flokkað sem andstæða við kristilegar dyggðir, siðferði og aðra hornsteina samfélagsins. Iðju- og agaleysi væri ekki einungis syndsamlegt gagnvart Guði, slakur húsagi væri skaðlegur landi og þjóð. Magnús Stephensen landshöfðingi var mikilvirkur boðberi fræðslu og upplýsinga. Hann var langt á undan sínum samtíma hér á landi hvað varðar samfélagslega uppbyggingu. Hann lagði áherslu á siðrænt ögunarhlutverk laga um vinnuhjú og sagði m.a. „að það væri augljóst hvort sem var af lögum Guðs, náttúrunnar eða hins borgaralega samfélags að undirsátum bar að sýna yfirboðurum sínum hlýðni og hollustu í hvívetna og að agabrot gegn réttu þeim á og má enginn húsbóndi hjúum, enginn yfirboðari undirgefnum strafflaust líða.“

Hér á landi ríkti, eins og í öðrum evrópskum löndum, gríðarlega mikil stéttarskipting og það var ekki síst íslensk yfirstétt sem kúgaði íslenska alþýðu. Á nítjándu öld eru danskir ráðamenn hins vegar boðberar nýrra hugmynda og frjálslyndari viðhorfa til frelsis einstaklingsins í kjölfar alþýðubyltinganna. Þetta blasir við þegar litið er yfir þróun hins danska samfélags.

Danir voru í því hlutverki að þröngva lýðfrelsi upp á Íslendinga, oftast við hávær mótmæli ráðandi afla hér á landi. Prentfrelsi, trúfrelsi og ýmis boð um meira frjálsræði almennings barst hingað óbeðið frá Dönum. Íslensk valdastétt barðist gegn auknu sjálfræði alþýðufólks undir því yfirskini, að það myndi hafa í för með sér vaxandi lausung vinnuhjúa.

Danir voru ekki með her hér á landi og hengdu ekki þá sem voru fyrir þeim, eins og t.d. Englendingar gerðu í sínum nýlendum. Dönsk stjórnvöld stóðu hins vegar í bréfaskiptum við íslenska baráttumenn jafnvel áratugum saman. Leikreglurnar báru þess glögg merki að staða bóndans gegn hjúaliðinu er þar fyrst og síðast varin undir þeim formerkjum að hrekja í burtu leti og kenna þyrfti alþýðunni reglusemi og iðni. Lausamennska og þurrabúð þar sem verkamaðurinn væri sjálfs síns herra myndi einungis leiða til þess að hann temdi sér svall, eyðslusemi og leti sem leiddi til þess viðkomandi myndi síðan verða hreppsómagi og lenda á sveitinni með auknum álögum á bændur.

Það er fyrst í lok nítjándu aldarinnar að íslenska iðnbyltingin nær sér á strik, eða um 60 árum á eftir því sem gerðist í nágrannalöndum okkar og þar skapast loks staða hjá verkafólki til þess að brjóta af sér viðjar vistarbandsins -ófrelsisákvæðisins- og ná auknu frelsi. Sjálfstæðisbarátta íslenskrar alþýðu hófst á sama tíma og gamla samfélagið í Vestur-Evrópu lætur undan síga fyrir frjálslyndari hugmyndum um skipan samfélagsins í kjölfar alþýðubyltinganna sem risu í kjölfar bandarísku byltingarinnar og stjórnarbyltingarinnar Frakklandi.

Óþekktur höfundur sem ritaði í Þjóðólf árið 1889 orðaði þar þrá alþýðunnar eftir frelsi ákaflega vel : „Hin mikla þrá hjá mönnum til þess, að þjóðin verði auðugri, er í raun rjettri löngun til þess, að eptirkomendur vorir verði sælli og að þeim líði betur, heldur en oss sjálfum, og á hún rót sína að rekja til kærleikans.“

Á fyrstu árum tuttugustu aldarinnar eru gerðar ýmsar lagalegar umbætur, en það er ekki fyrr en verkafólk tekur að mynda verkalýðssamtök að skipulögð átök verða um réttindamál. Það er fyrst upp úr árinu 1930 sem íslenskt verkafólk nær með skipulegri baráttu verkalýðshreyfingarinnar helstu undirstöðu- og grundvallarmannréttindum hér landi, en var töluvert á eftir verkafólki í nágrannalöndum okkar.

Sama átti við um baráttu íslenskrar verkalýðshreyfingar við að koma á samskonar samtryggingarkerfi og var myndað á hinum Norðurlöndunum. Þar stóðu ávallt í vegi þingmenn bænda og útgerðarmanna sem varð til þess að við vorum ríflegum áratug á eftir félögum okkar á hinum Norðurlandanna með vökulögin, atvinnuleysistryggingar og fleiri atriði hvað varðar öryggisnetið á vinnumarkaðinum.

Sé litið til nýlegra frétta blasir við að við erum enn töluvert á eftir félögum okkar á hinum Norðurlöndunum hvað varð samfélagslegt öryggisnet. Og ef við lítum til umræðunnar á Alþingi og samsetningu valdastéttarinnar þá virðist það lítið hafa breyst

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni