Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Milljón prósent launahækkun

Milljón prósent launahækkun

Í tilefni ófara flugstjórnarmanna og kennara og reyndar fleiri hópa langar mig til þess að varpa fram nokkrum spurningum.

Hvers vegna lenda íslenskir launahópar reglulega inn á blindgötu í kjarabaráttu sinni?

Hvers vegna sker Ísland sig úr í hinum vestræna heimi sem land þar sem stjórnmálamenn hika ekki við að beita launmenn ofbeldi með lagasetningu?

Hver er ástæða þess, ef við lítum yfir nágrannalönd okkar, að það myndast reglulega á Íslandi svo mikið misræmi milli launahópa að sumir verða að fara fram með kröfur upp á tugi prósenta launahækkana? Á sama tíma eru nágrannalönd okkar að semja um launahækkanir upp örfáar prósentur. Samt er kaupmátturinn þar allt að helmingi hærri en hér.

Hvers vegna eru laun umtalsvert lægri á Íslandi en í nágrannalöndum okkar þrátt fyrir við náum alltaf kjarasamningum með margfalt meiri launahækkunum en samið er í nágrannlöndum okkar?

T.d. voru lágmarkslaun rafvirkja á Íslandi, þegar þeir stofnuðu stéttarfélag sitt árið 1926, þau sömu og voru í Danmörku eða 1.70 Dkr. Laun norrænna rafvirkja fylgdust að fram að seinni heimstyrjöld, en þá vorum við reyndar komin með íslensku krónuna. Í heimstyrjöldinni var ástandið á Íslandi langbest á Norðurlöndunum og lágmarkslaun íslenskra rafvirkja voru þá 3.15 Íkr. en danskra rafvirkja 3.00 Dkr.

Haustið 2008 voru lágmarkslaun danskra rafvirkja 110 Dkr. (2.200 Íkr) en íslensku rafvirkjana 1.500 Íkr. Til þess að hafa þetta sambærilegar tölur þá verðum við að taka inn núllin tvö sem voru klippt í burtu 1981 og þá eru lágmarkslaun íslenskra rafvirkja 150.000 Íkr.

Launahækkanir í kjarasamningum Félags danskra rafvirkja frá 1926 til ársins 2008 voru sem sagt um 6.500%.

Hækkun lágmarkslauna íslenskra rafvirkja nam hins vegar um 8.800.000% (já þetta er rétt lesið hjá þér 8.8 millj. prósent launahækkun) Íslensk verkalýðshreyfing er semsagt margfaldur Evrópumeistari í launahækkunum.

Þrátt fyrir það gerum við hróp að íslenskum stéttarfélögum fyrir slaka kjarasamninga. Vigdís Hauksdóttir formaður fjárlaganefndar Alþingis sagði nýlega að það á ábyrgð íslenskra verkalýðsfélaga hversu slök lágmarkslaunin væru á Íslandi.

Svarið við spurningunum hér ofar er : Örgjaldmiðill sem stjórnað er af stjórnmálamönnum sem hafa komið sér fyrir í faðmi útflutningsfyrirtækja. Margfalt fleiri gengisfellingar hér á landi valda vitanlega falli á umsömdum launatöxtum og kalla fram mun umfangsmeiri launakröfur ætli stéttarfélög sér að gera tilraun til þess að viðhalda kaupmætti.

Íslensku launafólki er gert að búa við gjaldmiðil sem markvisst er nýttur af hluta þjóðarinnar til eignaupptöku hjá launafólki. 12% af launum íslensks verkafólks fer í að greiða vaxtamun milli Íslands og ESB. Það fer liðlega fjórðungur tekna íslenskra heimila í að greiða kostnaðinn sem hlýst af því umhverfi sem krónan býr okkur.

Stærsti hluti þessa gengismunar rennur þráðbeint í vasa hins efnaða minnihluta, og vitanlega berst hann með öllum tiltækum ráðum gegn öllum breytingum. Hann vill geta selt sína vöru í erlendum myntum, en greitt launamönnum í íslenskri krónu og geymt mismuninn á aflandseyjum.

Fjölmiðlar eru keyptir og reknir með milljarða tapi til þess að „útskýra“ málið fyrir launamönnum. Fluttir eru inn handvaldir sérfræðingar og keyptir stærstu ráðstefnusalir borgarinnar til þess að boða fagnaðarerindið um bjargvættinn íslensku krónuna.

Fyrirtækin selja sína vöru í erlendum myntum en greiða launamönnum í íslenskri krónu. Öll stærstu fyrirtæki Íslands gera upp í evrum eða dollurum, rekstrarkostnaður krónunnar lendir þar af leiðandi á minni fyrirtækjum og launamönnum.

Íslenska krónan er mesti óvinur íslensks launafólks.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu