Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Ísland varaorkustöð Evrópu

Ísland varaorkustöð Evrópu

Á þessari mynd sést vindmylla sem er verið að gangsetja við Skotland þessa dagana. Við hlið hennar eru stór skip sem eru ámóta og 10 hæða hús, sem segir okkur hverskonar ferlíki menn eru farnir að nýta . Myllurnar eru liðlega 170, til samanburðar þá er Hallgrímskirkjuturn um 70 m. hár. Þessi mylla framleiðir 6 MW miðað við 12 m/s. Það þarf um 10 svona myllur til þess að framleiða sama afl og hin fyrirhugaða Hvalárvirkjun myndi geta framleitt og það þyrfti rúmlega eina svona vindmyllu til þess að framleiða svipað orkumagn og hin umdeilda Svartárvirkjun gæti framleitt.

Vindmyllan er fljótandi og alfarið stjórnað úr landi. Ef þetta verkefni gengur vel, eins og útlit er fyrir, þá er tilbúin pöntun hjá Skotum upp á 3.000 svona vindmyllur. Uppsett afl þeirra er semsagt um það sjö sinnum meira en uppsett raforkuframleiðsla er á Íslandi. Bretar eru með sambærilegar hugmyndir og eru reyndar komir vel af stað með þær áætlanir. Í BBC í gærkvöldi kom fram að Skotar væru þessa daga að taka allar jarðir sem ekki eru í nýtingu með það að markmiði að nýta þær undir sólarrafhlöðugarða.

En Sigmundur Davíð þáv. forsætisráðherra Íslands sagði okkur skömmu áður en hann féll, að hann væri að gera samninga um að Ísland yrði varaflsstöð Evrópu. Margir ráðherrar og þingmenn hafa haldið því að okkur að að Íslandi beri siðferðileg skylda til þess að framleiða eins mikið af hreinni orku og mögulegt sé.

Þessu er haldið að okkur á sama tíma sem fyrir liggur að t.d. Bandaríkjamenn urða árlega bjórdósum sem samsvarar því magni af áli sem þyrfti til þess að endurnýja allan flugflota Bandaríkjanna fjórum sinnum. Ef Bandaríkjamenn myndu endurvinna álið sem er í bjórdósunum, sparaði það orku sem samsvarar allri orkuframleiðslu Íslendinga. Það segir okkur að öll orkuframleiðsla Íslendinga sem fer til álveranna og reyndar helmingi meira en það, endar á ruslahaugum Bandaríkjanna.

Þetta er kallað hrein orkuframleiðsla og hreinn málmur í kynningarefni álveranna þessa daga og íslenskir ráðherrar taka undir.

Evrópubúar eru um 750 millj. en Bandaríkjamenn um helmingi færri. Það er ekki ólíklegt að Evrópubúar hendi a.m.k. jafnmiklu af bjórdósum sínum og Bandríkjamenn. Það liggur þannig fyrir að þó við myndum slökkva á allri stóriðju hér á landi og virkja allt sem hönd á festir hér á landi. Þá myndi það ekki duga til þess að framleiða þá orku sem fer á öskuhauga Evrópu og Bandaríkjanna í formi notaðra bjórdósa.

Með öðrum orðum að í dag endar orkuframleiðsla Íslendinga á öskuhaugum nágrannalanda okkar. Náttúruperlur landsins draga hingað ferðamenn sem skapa gjaldeyristekjur sem samsvara samanlögðum tekjum okkar af stóriðjunni og sjávarútveginum. Ferðaþjónustan hefur á undanförnum árum skapað þúsundir nýrra starfa og verið meginundirstaða fjárfestinga í landinu.

Ég afþakka því hér með boð ráðherra okkar og stjórnarþingmanna um að senda fleiri náttúruperlur á öskuhaugana.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu