Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Að krefjast en vilja ekki

Að krefjast en vilja ekki

 

Þessa dagana liggur fyrir Alþingi nýr búvörusamningur þar sem tekið er m.a. á starfsskilyrðum sauðfjárframleiðslu á Íslandi. Rætt er um að skuldbinda ríkissjóð um nokkra tugi milljarða króna greiðslu til sauðfjárræktar. Það fer ekki á milli mála að tryggja þarf byggð í sveitum þar sem sauðfjárrækt hefur verið undirstaða búsetu og tryggja framboð á lambakjöti fyrir innanlandsmarkað. Frumskilyrði fyrir ríkisstuðningi við sauðfjárrækt verði að nýting gróður- og jarðvegsauðlindarinnar standist kröfur um sjálfbæra landnýtingu.

Búvörusamninga verður að reisa á efnahagslegum forsendum og gæta þess að starfsskilyrði sauðfjárræktar festi ekki í sessi ósjálfbæra landnýtingu á þeim svæðum landsins þar sem afréttir eru verst farnir. Þessi svæði eru einkum á gosbeltinu á Mið-Suðurlandi og í Þingeyjarsýslum. Þar er gróðurhulan aðeins brot af því sem hún gæti verið miðað við ríkjandi loftslagsskilyrði, víða langt innan við 10%. Þar eru vistkerfi landsins í raun hrunin vegna langvarandi ofbeitar.

Í þeim sveitum þar sem ástand afrétta er verst er víða mjög gott atvinnuástand og sauðfjárbúskapur orðinn aukabúgrein. Nýr búvörusamningur er tækifæri til þess að endurskoða stöðuna og hætta ríkisstyrkjum til ósjálfbærrar sauðfjárræktar og fækka sauðfé um þann fjórðung kjötframleiðslunnar sem niðurgreiddur er til útflutnings. Gullið tækifæri til þess að friða verst förnu afréttina á gosbeltinu og beina styrkjum í sauðfjárrækt til svæða þar sem ástand afrétta er gott eins og það er á vestan- og austanverðu landinu.

Það er margt í umræðunni um búvörusamningana sem maður skilur alls ekki. Þar er krafist lagfæringa en í sömu andrá er sömu atriðum algjörlega hafnað. Talsmenn Bændasamtakanna hafa t.d. rætt í fréttum um stóraukinn útflutning sauðfjárafurða, meðal annars um að útflutningsleyfi til Kína sé á borðinu. Sá stóri markaður kalli á gríðarlega mikið magn af lambakjöti og það sé ögrandi verkefni fyrir Bændasamtökin. En :

Hvað með afurðaverð og niðurgreiðslur úr ríkissjóð vegna stóraukins útflutnings?

 

Hvað með beitarþol landsins?

 

Hvað með mengun og aukna losun kolefna frá íslensku landi?

Hvað með þau umhverfisáhrif sem flutningur á íslenskt lambakjöti yfir hálfan hnöttinn skapa?

 

Talsmenn búvörusamninganna hafa ítrekað varað okkur þá gríðarlegu mengun sem innflutningur á kjöti til Íslands skapar.

Stjórnarþingmenn sem styðja búvörusamninganna hafa reglulega gagnrýnt samtök launamanna á almennum vinnumarkaði fyrir að þau séu afætur og rekin á lögbundnum sköttum. Ef maður skoðar fjárlögin þá kemur í ljós að það renna digrir sjóðir vestur í Bændahöll, þau samtök sem ég hef verið í forsvari fyrir hafa ekki fengið krónu úr ríkissjóð.

 

Daglega eru nafnlausar auglýsingar með hvatningum um aukna neyslu á lambakjöti. Hver borgar þessar auglýsingar? Hvaðan fær Bændablaðið sína fjármuni? Blað sem ekki með neina áskrift og er dreift um land allt í tugþúsunda upplagi. Blað sem rekur svæsin áróður og hafnar móttöku greina sem ekki falla að ritstjórnarstefnunni. Þar er markvist haldið fram áróðri sem beinist gegn hagsmunum almennra launamanna. Hver borgar þennan rekstur?

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni