Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Velferðarkerfi efnaðra lögfræðinga

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki hikað við að þenja út dómskerfið á undanförnum árum með tilheyrandi kostnaði fyrir skattgreiðendur. Ráðherra flokksins afnam reglugerð um hámarks tímagjald sem ríkissjóður greiðir verjendum í opinberum málum, t.d. bankahrunsmálum. Þá kom flokkurinn á millidómstigi sem talið er auka kostnað ríkissjóðs um rúman hálfan milljarð á ári og nú er unnið að því að koma á fót nýrri ríkisstofnun, dómstólasýslu, auk þess sem ríkisstjórnin fjölgaði ráðuneytum með því að búa til sérstakt dómsmálaráðuneyti. Nýr stóll undir dómsmálaráðherrann, sem segist sérstakur áhugamaður um að verja skattgreiðendur fyrir opinberu bruðli, mun kosta okkur nærri hálfan milljarð á kjörtímabilinu.

En áhersla flokksins í dómskerfinu er önnur þegar kemur að því að verja einstaklinginn fyrir yfirgangi stórfyrirtækja, opinberra stofnana eða fyrirtækja í opinberri eigu. Til marks um það er að ríkisstjórnin ætlar að leggja fram frumvarp um breytingu á lögum um meðferð einkamála sem gerir ráð fyrir því að rétturinn til gjafsóknar verður þrengdur. Verði frumvarpið samþykkt yrði umhverfisverndarsamtökum t.d. gert ókleift að fá gjafsókn fyrir dómi. Þegar frumvarpið var fyrst lagt fram fyrir ári síðan sögðu umhverfisverndarsamtök í umsögn að um gríðarlega afturför væri að ræða. Einstaklingum mun einnig reynast erfitt að fá gjafsókn verði frumvarpið samþykkt því að tekjuviðmiðið er svo lágt að einstaklingur á atvinnuleysisbótum telst of tekjuhár til að njóta slíkra réttinda. Af umsögnum Lögmannafélags Íslands og Öryrkjabandalagsins að dæma virðist frumvarpið takmarka möguleika efnaminna fólks á að nýta sér gjafsókn.

Forysta Sjálfstæðisflokksins mokar skattpeningum í sjálfa sig, pólitíska bandamenn sína og félaga úr lögfræðingastétt. En það stendur henni fjarri að gæta hagsmuna náttúru og hinna efnaminnstu. Þetta er velferðarkerfi efnafólks í verki.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni