Þessi færsla er meira en 5 ára gömul.

Stjórnvöld stefna að aukinni losun gróðurhúsalofttegunda

Heimsbyggðinni hefur algjörlega mistekist að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og það mun bitna illa á lífsgæðum þeirra sem nú eru á barnsaldri. Það hefur ekki vantað upp á hástemmdar yfirlýsingar stjórnmálamanna um mikilvægi þess að draga úr losun, t.d. hefur forsætisráðherra sagt að loftslagsbreytingar séu stærsta verkefni alþjóðasamfélagsins um þessar mundir og að viðbrögð við þeim skipti öllu um hvernig framtíð mannkynsins verði. Vísindamenn hafa áréttað mikilvægi skjótra aðgerða og fullyrða að mannkynið hafi einungis tólf ár til að koma í veg fyrir stjórnlausa hlýnun og hörmuleg áhrif á samfélög og lífríki jarðar – hrun siðmenningar eins og David Attenborough orðaði það á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Póllandi.

Í skýrslu sem Sameinuðu þjóðirnar gáfu út í aðdraganda ráðstefnunnar segir að mannkynið þurfi að gjörbylta hegðun sinni á fjórum meginsviðum – orkunotkun, landnotkun, borgarskipulagi og iðnaði. Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur greindi stöðuna ágætlega í viðtali við RÚV þegar hann sagði að staðan krefðist byltingarkenndra breytinga á öllum okkar kerfum: „Því hvernig menn nýta land, því hvað menn borða, hvernig menn ferðast og svo framvegis. Þetta er hægt, það er bæði eðlisfræðilega og efnafræðilega hægt að bregðast nógu fljótt við … Eina spurningin um það hvort það sé hægt er hin pólitíska spurning, það er, er pólitískur vilji til að gera það eða ekki, þar liggur efinn og boltinn er hjá stjórnvöldum, þau verða að draga vagninn.“

Hér á landi hefur losun gróðurhúsalofttegunda aukist mikið á undanförnum árum, þvert á allar þær stefnur og aðgerðaáætlanir sem stjórnvöld hafa lagt fram. Samkvæmt nýjustu tölum er losun okkar á hvern einstakling sú mesta í allri Evrópu og hefur tvöfaldast á tuttugu árum. Þrátt fyrir þetta árangursleysi segist ríkisstjórnin nú ætla að gera betur en kveðið sé á um í Parísarsamkomulaginu og Ísland verði kolefnishlutlaust í síðasta lagi árið 2040. En hjá þessari ríkisstjórn, eins og þeim fyrri, er óralangt milli orða og athafna. Á sama tíma og háleit markmið eru sett fram þá vinnur ríkisstjórnin að verkefnum og framkvæmdum sem munu auka mjög losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að „hruni siðmenningar“. Dæmi um þetta er opinbera fyrirtækið ISAVIA sem nú stefnir að stækkun Keflavíkurflugvallar til að geta aukið mengandi flugumferð um 45%. Ríkisfyrirtækið Landsvirkjun misnotar kerfi ESB um upprunaábyrgð raforku, sem á að stuðla að aukinni framleiðslu endurnýjanlegrar orku, og blekkir þannig neytendur sem telja sig stuðla að grænni orkuframleiðslu á meginlandi Evrópu. Stjórnvöld hafa einnig unnið að því, m.a. í gegnum Landsvirkjun og með beinum ríkisstuðningi, að fjölga kísilverum með þeim afleiðingum að mengandi kolabrennsla jafnast nú orðið á við það sem gerðist á fyrri hluta síðustu aldar. Og á sama tíma og rætt er um að draga úr kolefnisfótspori matvæla þá skrifa ráðherrar undir samninga um mengandi flutninga á íslensku lambakjöti til Indlands og Kína.

Leiðarahöfundur Financial Times skrifaði nýverið að viðbragðsleysi stjórnmálamanna í loftslagsmálum stafaði af tveimur ólíkum forsendum – blindni sumra en sjálfsblekkingu annarra. Þeir sem afneiti enn loftslagsbreytingum af mannavöldum séu blindir, en það sé engu betra að hinir sem átti sig á ógninni þykist bara bregðast við vandanum. Íslenskt ráðafólk fellur í síðari flokkinn. Það leggur fram langar áætlanir um skógrækt og rafvæðingu bílaflotans en lætur síðan eins og millilandasamgöngur og iðnaður komi sér ekki við. Það er eins og bogaskytta sem ætlar sér að hitta í mark með aðra höndina bundna fyrir aftan bak. Það eru til margar þjóðsögur um bogmenn sem hafa staðið frammi fyrir því að þurfa að bjarga afkomendum sínum með því að kljúfa epli á höfði þeirra. Nú stöndum við í slíkum sporum sem samfélag og það er undir okkur komið hvort stjórnvöld komist upp með að sinna þeirri björgunaraðgerð með hangandi hendi.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni