Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Minnihlutastjórn Pírata og Viðreisnar

Guðni Th. Jóhannesson hvatti til þess í góðri innsetningarræðu 1. ágúst síðastliðinn að þingmenn gættu betur að virðingu Alþingis og vísaði til kosninga í haust: „Í kosningum er tekist á um ólíkar stefnur og markmið en að þeim loknum verða þingmenn að vinna saman, finna lausnir, sýna sanngirni og beita þeim aðferðum sem auka virðingu þeirra sjálfra og hinnar aldagömlu stofnunar, Alþingis.

Um þetta hefur mikið verið rætt að undanförnu en ekkert orðið um aðgerðir. Þar af leiðandi mælist Alþingi í ruslflokki þegar almenningur er spurður um traust til stofnana ríkisins. Það mældist 54% árið 1999 en hefur í kjölfar hrunsins ekki farið hærra en 24%, árið 2014. Nú segjast 17% aðspurðra bera traust til Alþingis samkvæmt könnun Gallup. Kannanir MMR sýna sömu niðurstöðu.  

Þrátt fyrir hvatningu nýs forseta lýðveldisins er fátt sem bendir til þess að þingmenn ráði við það verkefni að auka virðingu Alþingis. Þar dugar ekki að kenna umræðuhefðinni einni um stöðuna og lýsa yfir góðum vilja til að bæta hana. Vegurinn til glötunar mun víst vera varðaður góðum ásetningi.

Ætli menn sér virkilega að auka virðingu Alþingis þarf að koma til eðlisbreyting á stjórnkerfinu sjálfu og kosningar í haust veita okkur einmitt tækifæri til slíkra breytinga.

Svonefndur fjórflokkur hefur verið kjölfesta í íslenskum stjórnum í nær heila öld. Árið 1931 var hann kominn fram undir merkjum Alþýðuflokks, Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Kommúnistaflokks og hlaut 97% atkvæða. Þessir flokkar hafa síðan þá, með sárafáum undantekningum, myndað meirihlutastjórnir sem hafa farið með pólitískt alræðisvald milli kosninga. Þetta fyrirkomulag hefur skapað þennan þvermóðskufulla átakakúltúr ráðherravalds og málþófs sem við búum við í dag.

Nú kann að vera að þetta tímabil í íslenskri stjórnmálasögu sé að líða undir lok. Að minnsta kosti var fylgi fjórflokksins óvenju lítið í síðustu kosningum eða 74,9% og samkvæmt könnunum kann það að fara undir 60% í kosningum í haust. Þá er strax farið að tala um að Píratar og Viðreisn komi fjórflokknum til bjargar við að mynda „sterka ríkisstjórn“ og viðhalda þannig átakakúltúrnum.

En fari svo í kosningum í haust, eins og kannanir benda til, að hægri og vinstri vængir fjórflokksins fái um 30% fylgi hvor en Píratar og Viðreisn 40% fylgi, þá skapast kærkomið tækifæri til að gera eðlisbreytingu á íslenskum stjórnmálum með því að mynda minnihlutastjórn tveggja síðastnefndu flokkanna. Slík ríkisstjórn yrði að semja við aðra flokka til hægri og vinstri til að koma málum í gegnum þingið. Hún kæmist því ekki upp með sams konar ráðherraræði og hefur einkennt fjórflokkstímabilið.

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, fjallaði um þennan möguleika í vor og orðaði það svo að meirihlutastjórn væri ekki stjórnskipunarlegt lögmál, heldur stjórnskipunarlegt vandamál. Hann benti á góða reynslu af minnihlutastjórnum í Danmörku og nefndi þennan ókost meirihlutastjórna: „Ef framkvæmdarvaldið og meirihluti þingsins samanstanda af sömu flokkunum er til staðar hagsmunaárekstur sem gerir þinginu ókleift að rækja með góðri trú það aðhaldshlutverk sem því er ætlað undir þingræði. Afleiðingin af fyrirkomulagi meirihlutastjórnar er sú að þingið veikist mjög, bæði að starfsgetu og sjálfstæði.“ Helgi Hrafn sagðist því telja að minnihlutastjórn ætti að vera reglan hér á landi, ekki undantekning.

Nýr forseti lýðveldisins hvatti þing og þjóð til finna lausnir og aðferðir til að auka virðingu Alþingis. Minnihlutastjórn væri svar við því ákalli.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni