Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Kvótinn, bankarnir og raforkan

Spilling í stjórnmálum og fjármálakerfinu er stærsta áhyggjuefni Íslendinga á sviði þjóðmálanna samkvæmt niðurstöðu árlegrar könnunar MMR, en 44% aðspurðra segjast hafa slíkar áhyggjur. Líklega hefur þetta viðhorf og almennt vantraust í garð stjórnvalda verið frjór jarðvegur fyrir andstöðu við orkupakka 3. Þjóð sem horfði upp á spillta viðskipta- og stjórnmálamenn eyðileggja heilt bankakerfi geldur að sjálfsögðu varhug við því þegar enn frekari breytingar eru boðaðar á grunnkerfum samfélagsins, ekki síst þegar það er gert undir trúarstefi aukinnar samkeppni og opnari markaða. Fyrsta skrefið í átt til markaðsvæðingar raforku var tekið með orkupakka 1 árið 2003 þegar opnað var á samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku. Samtök atvinnulífsins tóku þeirri breytingu fagnandi á sínum tíma, enda var það markmið frumvarpsins að „stuðla að … viðskiptum með raforku með því að hagnýta kosti markaðskerfisins eins og unnt er með samkeppni og frjálsri verðmyndun á markaði.“ Þetta var auðvitað á þeim árum þegar lang flestir virtust sannfærðir um yfirburði einkaframtaksins á öllum sviðum samfélagsins. En gallar samkeppnisvæðingar orkumarkaðarins komu fljótt í ljós og stöðugleiki á sviði auðlindanýtingarinnar vék fyrir bólum og braski. Traust fyrirtæki eins og Orkuveita Reykjavíkur riðaði fljótlega á barmi gjaldþrots, erlend gervifyrirtæki voru komin með eignarhald á orkuauðlindinni (Magma-málið) og landsþekktir braskarar úr bankageiranum gerðu tilraunir til að söðla undir sig verðmæti í opinberri eigu (REI-málið).

Nú þegar Alþingi er í þann mund að samþykkja þriðja orkupakkann, sem er m.a. ætlað að stuðla enn frekar að aukinni samkeppni og „opnun“ raforkumarkaðarins, þá sjáum við hóp áðurnefnda braskara og aðra, flesta með sterk tengsl við Sjálfstæðisflokkinn, sækja það mjög stíft að fá stórvirkjanahugmyndir sínar færðar í virkjanaflokk Rammaáætlunar. Þannig yrði þessum fyrirtækjunum færð verðmæti á silfurfati, þ.e. réttinn til að virkja, ekki ólíkt úthlutun kvótans á sínum tíma. Meðal þessara fyrirtækja eru Íslensk vatnsorka, sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík hefur farið fyrir, og Arctic Hydro, hvurs stjórnarformaður er náfrændi fjármálaráðherra. Bæði þessi fyrirtæki vinna líka að því að reisa mikinn fjölda minni virkjana um allt land, utan reglukerfis rammaáætlunar, þar á meðal á landi Jim Ratcliffe á Austurlandi. Eins hafa einstaklingar og fyrirtæki sem byggja auð sinn á gjafakvótakerfinu í sjávarútvegi fært sig inn á þennan vettvang, t.d. Kaupfélag Skagafjarðar og eigendur Samherja. Sömu sögu er að segja af heildsöluhluta raforkunnar, þar sem fyrirtækið Íslensk orkumiðlun var stofnað árið 2017. Stjórnarformaður fyrirtækisins er Bjarni Ármannsson, einn aðalleikara bankahrunsins og REI-málsins og viðskiptafélagi formanns Sjálfstæðisflokksins. Starfsmenn fyrirtækisins eru tveir, annar fyrrverandi formaður Ungra Sjálfstæðismanna og hinn fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins og þar áður aðstoðarmaður formanns Sjálfstæðisflokksins. Aðrir eigendur Íslenskrar orkumiðlunar eru fjárhagslegir bakhjarlar Sjálfstæðisflokksins, t.d. Kaupfélag Skagfirðinga og Ísfélag Vestmannaeyja. Það fer ekki á milli mála hvaða hag þessi fyrirtæki hafa af þriðja orkupakkanum þegar umsögn Samtaka orkufyrirtækja er lesin: „ … orkulöggjöf Evrópusambandsins og þá sérstaklega þriðji orkupakkinn vinnur sérstaklega með þau markmið að tryggja nýjum raforkuframleiðendum jafna stöðu þegar kemur að tengingum við flutnings- og dreifikerfin.“

Þessi þróun á raforkumarkaði vekur óneitanlega upp margar og áleitnar spurningar um það hvers konar kerfi við erum að búa til og fyrir hverja. Hvers vegna sækja fyrirtæki í einkaeigu svona fast á það að fá að reisa mikinn fjölda virkjana til að selja inn á kerfi sem framleiðir nú þegar miklu meiri raforku á hvern íbúa en nokkur önnur þjóð í heiminum? Treysta þessi fyrirtæki á rafstreng til Bretlands til að skapa markað eða sjá þau fyrir sér að fjölgun gagnavera og rafvæðing bílaflotans skapi þeim sölutækifæri? Hvernig ætla þessi fyrirtæki að geta keppt við Landsvirkjun, sem hefur nú þegar nýtt hagkvæmustu virkjanakosti landsins og sækist enn eftir að fjölga hagkvæmum stórvirkjunum? Ætla þau kannski að krefjast uppskiptingar Landsvirkjunar á samkeppnissjónarmiðum? Á að leyfa einstaklingum sem hafa auðgast gríðarlega á gjafakvótakerfinu að gerast líka aðsópsmiklir í nýtingu orkuauðlindarinnar? Og að lokum er líklega rétt að spyrja hvort stefna ríkisstjórnarinnar í málinu kunni að byggja á tengslum umræddra fyrirtækja við forystu Sjálfstæðisflokksins?

Það er óumdeilt að margt forystufólk Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og stundum fjölskyldur þeirra, vinir eða pólitískir bandamenn, auðguðust verulega á breytingum sem gerðar voru á grunnkerfum samfélagsins á undanförnum áratugum. Ber þar auðvitað hæst setning og þróun kvótakerfisins í sjávarútvegi á níunda og tíunda áratug síðustu aldar og einkavæðing bankanna á fyrstu árum þessarar. Nú bendir margt til þess að ný kynslóð forystufólks í flokknum vilji nýta aðstöðu sína til að leika þennan sama leik á raforkumarkaði. Vonandi munu augu fleiri stjórnarandstöðuþingmanna opnast fyrir því áður en þriðji orkupakkinn kemur til afgreiðslu á Alþingi síðar í þessum mánuði. Sá stóri hluti kjósenda sem telur spillingu í stjórnmálum og fjármálakerfinu stærstu ógnina á sviði þjóðmálanna á það skilið að fleiri flokkar tali hans máli í þingsal.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu