Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Fyrsta ráðuneyti Pírata

Fyrsta ráðuneyti Pírata

Hún vakti nokkra athygli greinin sem Andríkismenn skrifuðu um fyrsta ráðuneyti Birgittu Jónsdóttur. Þar var ágætu fólki skellt í ráðherrastóla í bland við pólitíska drauga og kjaftaska, líklega til þess að reyna að skjóta kjósendum skelk í bringu.

Þetta var þó æði sérkennileg uppstilling, sérstaklega í ljósi þess að Píratar hafa samþykkt stefnu þess efnis að þingmenn verði ekki líka ráðherrar og Birgitta hefur sjálf sagt að hún sækist ekki eftir því að verða ráðherra. Ekki er tekið fram í ályktun Pírata hvort skipa skuli utanþingsráðherra eða að þingmenn víki sæti veljist þeir til að gegna starfi ráðherra.

Sjálfum þætti mér gæfulegra að skipa utanþingsráðherra sem sæktu umboð sitt til Alþingis. Þá værum við laus við þetta ráðherraræði sem hefur valdið því að Alþingismenn virðast stundum hafa lítinn metnað til annars en að komast í slíka stóla. Þess vegna forðast þeir að rugga bátnum og virka oft á tíðum frumkvæðislausir og óhóflega húsbóndahollir. Eins og segir í ályktun Pírata þá myndi aðgreining ríkisstjórnar og þings auka möguleika Alþingismanna á að hafa raunveruleg áhrif á störf ráðherra og að veita framkvæmdavaldinu nauðsynlegt aðhald.

Rétt eins og Andríkismenn stilltu upp sinni martraða ríkisstjórn undir stjórn Pírata, þá ætla ég að stilla upp minni drauma ríkisstjórn sem gæti tekið til starfa hér í haust og unnið að nokkrum mikilvægum framfaramálum á stuttu kjörtímabili, hvort sem það yrði 18 eða 30 mánuðir. Svona er drauma stjórnin:

  • Guðrún Johnsen hagfræðingur og lektor í fjármálum við Háskóla Íslands yrði iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Hún var starfsmaður Rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið og skrifaði bókina Bringing down the Banking system. Hún hefur því yfirgripsmikla þekkingu á því hvað þarf að betrumbæta í íslensku viðskiptalífi.
  • Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur yrði umhverfis- og auðlindaráðherra. Hann hefur verið formaður verkefnisstjórnar rammaáætlunar og hefur því yfirgripsmikla þekkingu á heitasta þrætueplinu á þessu sviði.
  • Sigríður Rut Júlíusdóttir lögfræðingur yrði innanríkisráðherra. Einn besti lögmaður landsins myndi þá leiða vinnu við stjórnarskrárbreytingar.
  • Gunnar Smári Egilsson ritstjóri yrði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann hefur farið einna fremstur í umræðu um óréttláta skiptingu auðlindaarðsins og hann fengi það hlutverk að rétta hlut þjóðarinnar í þeim efnum.
  • Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra yrði utanríkisráðherra. Hún hefur verið farsæl í starfi í utanríkisþjónustunni og gegndi t.d. stöðu aðstoðarforstjóra OECD og framkvæmastjóra Norðurlandaráðs.
  • Frosti Sigurjónsson, fráfarandi þingmaður og fjárfestir, yrði fjármála- og efnahagsráðherra. Hann fengi það hlutverk að efla nýsköpun, stofna samfélagsbanka og draga úr vægi verðtryggingar.
  • Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir stjórnsýslufræðingur yrði heilbrigðis- og velferðarráðherra. Hún hefur rannsakað heilbrigðiskerfið og fengi það hlutverk að draga úr kostnaðarþáttöku almennings innan þess.
  • Gerður Kristný rithöfundur yrði mennta- og menningarmálaráðherra. Hún er farsæll rithöfundur sem hlotið fjölda viðurkenninga og verið virkur þátttakandi í rithöfundaheimsóknum í grunnskóla.
  • Benedikt Sigurðarson, framkvæmdastjóri Búseta á Norðurlandi yrði félags- og húsnæðismálaráðherra. Hann fengi það hlutverk að koma á virkum leigumarkaði.

Þá er bara eftir að velja fyrirliðann – forsætisráðherra. Hann kæmi væntanlega úr röðum þess flokks sem leiðir ríkisstjórn. Verði það Píratar mætti ímynda sér margir gætu fallist á að Helgi Hrafn Gunnarsson gegndi því hlutverki.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu