Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Þjóðin með Stokkhólmsheilkennið

Eftir hrunið 2008 varð allt bandbrjálað og fólk flykktist niður á Austurvöll og krafðist kosninga. Eina kvöldstund á meðan búsáhaldabyltingin stóð yfir sagði vinkona mín í vantrú, vel hugsandi og vitiborinn einstaklingur; en hver á að fara í ríkisstjórn? Vinstri grænir? Ekkert virtist henni finnast meira fjarri lagi og óhugsandi þrátt fyrir aðstæðurnar og afleiðingar aðgerða eða aðgerðaleysis hægriflokkanna sem árum saman höfðu gengið með okkur til móts við hrunið eins og fé til slátrunar.

Hugtakið „Stokkhólmsheilkennið“ vísar til gíslatöku í Stokkhólmi fyrir um fjörutíu árum þegar bankaræningjar komust í svo gott samband við gísla sína að þeir neituðu að flýja. Hægriflokkarnir hafa haldið þjóðinni í spilltu kerfi sérhagsmuna og valdmisnotkunar svo lengi að þjóðin er búin að venjast því og virðist hræðast betra kerfi. Hvernig mun okkur ganga með stjórnvöldum sem leiða án spillingar og frændhygli og með hag þjóðarinnar að leiðarljósi? Ég get ekki svarað því, enda hef ég aldrei náð að upplifa það þó að eftir kosningar 2009 hafi ég eygt vonarglætu um breytingar. Sú glæta slökknaði snarlega með kosningunum 2013 þegar aðstæður kreppunnar voru allt í einu gleymdar og grafnar um leið og sama gamla pakkið lofaði öllum happdrættisvinningi í Undralandi og var treyst til áframhaldandi tiltektar eftir eigið svall. Það sem ég veit er að margir eru komnir með nóg af spillingunni eins og flutningar til Skandinavíu síðastliðin ár hafa sýnt. En til að losna við hana verður að velja nýtt.

Undanfarin ár hafa flokkar komið fram á sjónarsviðið með það eitt að höfuðmarkmiði að breyta kerfinu, að koma á alvöru lýðræði í landinu, en af einhverri ástæðu hafa þeir hingað til ekki náð inn nægilegu magni fólks á Alþingi til að geta komið breytingunum í gegn. Nýlega fóru Píratar að hljóta svo mikið fylgi að enn er hægt að halda í vonina um að komandi kosningar breyti landinu til framtíðar. En aðeins ef nægilega margir þora að losna úr prísundinni.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni