Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

„Við vorum ekki fædd með raddir út af engu“

Mér var ýtt út í þessi skrif. Ég þurfti hjálp, áminningu. Það gerðist eiginlega óvart, eða fyrir hendingu, eins og svo margt gott sem gerist í þessum margræða heimi. Og það gerðist á Facebook, af öllum stöðum.

Heróp til góða fólksins

Allan síðastliðinn föstudag hugsaði ég um að skrifa grein sem átti að bera heitið „Heróp eða ákall til þeirra sem þegja og ekkert gera“. Lengra var ég ekki kominn … jú, ég vissi að mig langaði að skrifa um það hvernig við þegjum og gleymum og aðhöfumst lítið sem ekkert og hvernig rödd okkar getur kafnað og koðnað niður þegar við stöndum frammi fyrir erfiðum málstað sem þarf að verja.
Þegar við hittum freka kallinn sem setur ótta í brjóst okkar.
Af nógu er að taka þessa dagana og smámálin ýmis. En að sjálfsögðu er manni efst í huga ástandið í Sýrlandi og nærliggjandi löndum, hrikalegur flóttamannastraumurinn þar af leiðandi – en ekki síst það „ástand“ sem er um það bil að myndast í mörgum þjóðarsálum Evrópu og ber sterkan keim af rasisma.
Þarna var ég að hugsa.
Föstudagurinn leið og vinnunni lauk; eins og gengur og gerist var lífið að reynast flókið og fullt af alls konar brýnum verkefnum eins og að versla fisk í matinn og greinin sem mallaði í hálfu kafi í huga mér var á hraðleið út af borðinu í áunnum, nútíma athyglisbresti. 
Það var ekki fyrr en um kvöldið sem kviknaði á mér aftur.
Þá rakst ég á þessi beinskeyttu orð frá 12 ára stelpu sem ég þekki lítillega og þau hleyptu öllu af stað:

„Við ættum að nota orð, bækur og penna, til að útskýra fyrir hvort öðru að nú er ekki tími til að ímynda sér og hugsa; þetta mun breytast. Heldur taka áhættuna og leggja sitt allt fram. Við vorum ekki fædd með raddir út af engu. Við skulum nota hana.“

Sagði Amíra.
Hún er 12 ára gömul: 
„Nú er ekki tími til að ímynda sér og hugsa: þetta mun breytast.“
Þessi orð eru hluti af alveg hreint mögnuðum pistli sem ég hef fengið leyfi til að birta með pistlinum mínum.
Takk, Amíra, fyrir að ýta við mér og leiða til þess að ég settist niður til að skrifa til að nota mína rödd og segja:

Ákall: Núna er tíminn til að þegja ekki

Það stendur yfir stríð á Íslandi þessa dagana. Þér kann að finnast ég gjaldfella orðið „stríð“ vegna þess að víða í heiminum falla alvöru sprengjur og þjóta alvöru kúlur í gegnum fólk af holdi og blóði. Kannski er meira að segja eitthvað til í þessu hjá þér og gott og vel, en stríðið sem sannanlega geisar núna í sálum Íslendinga (og Evrópubúa og Bandaríkjamanna líka) er þess eðlis að ef við grípum ekki inn í mun það hafa ómæld áhrif á fjölmarga einstaklinga í allra nánustu framtíð.
Þetta er grundvallarstríð. Áróðursstríð. Óttastríð. Stríð um tengslin á milli heila og hjarta.
Viðhorfsstríð.
Ég veit það ekki. Mig langar innilega til að segja og trúa því að Íslendingar séu hafnir yfir það að renna inn í rasisma. Líklega hef ég innst inni alltaf viljað trúa því. En sú trú er farin og í staðinn er kominn djúpstæður uggur yfir því að jú, líklega séum við hlutfallslega alveg jafn illa upplýst, fordómafull og óttaslegin við hið óþekkta og aðrar þjóðir þessa heims.
Að líklega gætum við orðið Ungverjaland. Orðið í heildina svo hrædd að við yrðum hættuleg, sjálfum okkur og öðrum.
Það er um þetta sem stríðið snýst – um afstöðu okkar og innri viðhorf til Íslands, menningar okkar, samfélags og „útlendinga“ sem eiga samkvæmt nýjustu fréttum að geta ógnað þessu öllu.
Þetta er stríð um það hvort við verðum víðsýn þjóð eða rasísk.

„Þetta er grundvallarstríð. Áróðursstríð. Óttastríð. Stríð um tengslin á milli heila og hjarta.“

Hvað ef óttahagsmunir væru ekki til?

Af hverju eru margir stjórnmála­menn hikandi gagnvart stuðningi við innflytjendur og flóttamenn?
Fyrir þessu er vert að nefna tvær ástæður, þótt vitanlega sé ástæðuvefurinn mun flóknari. Í fyrsta lagi eru margir þeirra alveg jafn hræddir við hið óþekkta og hvaða Jón Jónsson sem er; stjórnmálamenn eru jú í grunninn bara fólk. En í öðru lagi spila pólitískir hagsmunir stóran þátt. 
Hvernig kemur þetta fram?
Öll samfélagsmál sem fela í sér ótta verða sjálfkrafa hagsmunamál í pólitískum skilningi. Um leið og tiltekinn málaflokkur nær að valda ótta í stórum hópi einstaklinga skapast pólitískir hagsmunir vegna þess að stjórnmálaflokkar geta „eignað sér“ málaflokkinn og nælt sér í aðgengileg atkvæði. Þeir finna og vita að þeir geta sótt sér fylgi með tilteknum málflutningi. Og þetta virkar. Það sást best á síðustu dögunum fyrir borgarstjórnarkosningarnar árið 2014, þegar skyndileg og opinber umræða stjórnmálaflokks um innflytjendur skilaði honum auknu fylgi á mettíma. (Já, ég er að vísa til Framsóknarflokksins vegna þess hve dæmið var afgerandi og augljóst, en ég bið þig um að líta ekki svo á að þessi skrif séu til höfuðs þeim flokki umfram aðra flokka eða samfélagshópa.)
Þeir sem treysta á atkvæðaleit af þessu tagi eru í raun orðnir hagsmunaaðilar. Það er þeim í hag að fólk haldi áfram að vera óttaslegið.
Óttinn vinnur með í atkvæðaleitinni.
Hugarró, traust og umburðarlyndi kjósenda stríðir gegn atkvæðaleitinni.
Þeir sem klókir eru í stjórnmála­vafstri vita upp á hár að innflytj­enda­ótti er raunverulegur í hjörtum margra kjósenda og þeir vita að þar er að finna auðsótt atkvæði. Við höfum séð þetta gerast nánast í öllum löndum Evrópu upp að einhverju marki. Svíþjóðar­demókratarnir – sem eru ekkert annað en fægður rasistaflokkur – eru orðnir einn stærsti stjórnmálaflokkur þar í landi.
Hvernig gerðist það?
Það gerðist þannig að of mörg hjörtu töpuðust, of mörg hjörtu létu glepjast af áróðri óttans.
Það sama getur gerst á Íslandi næstu 5–10 árin. Og það er af þessari ástæðu sem þína rödd vantar í þessu stríði um hjörtu og sálir Íslendinga á öllum aldri.

„Það gerðist þannig að of mörg hjörtu töpuðust, of mörg hjörtu létu glepjast af áróðri óttans.“

Það er rödd í okkur öllum

Hvað er ég biðja um með þessum pistli? Ég er að tala til þín, sem ert ekki alveg viss í þinni sök. Þín, sem veist innst í hjarta að í múslímum og allra þjóða kvikindum slær alveg eins hjarta og þitt, þín sem samt hefur séð svo margar upphrópanir og myndbönd um hina meintu upplausn sem á að fylgja múslimum að þú veist ekki í hvorn fótinn þú átt að stíga; ég er að tala til þín, sem veist að óttinn er blekking en finnur að hann vill helst ná tökum á þér.
Ég er líka að tala til þín, sem veist nú þegar að óttinn við innflytjendur er ekki á rökum reistur. Ég er að biðja þig um að skerpa á afstöðu þinni, vera undir það búinn að næstu árin verði togað í alla þína tilfinningalegu spotta, bæði í einkasamtölum, fjölmiðlaumræðu og stjórnmála­skaki. Ég er að biðja þig um að vera áfram viss í þinni sök og vera virkur málsvari hins góða.
Að nota röddina.
Það felur í sér að mæta þessum órökstudda ótta með kærleika að vopni. Ég er að biðja þig um að opna munninn og nota alltaf rödd þína þegar glittir í rasísk viðhorf á kaffistofunni, í fermingarveislunni, á Facebook eða öðrum samfélags­miðlum.
Ég er að biðja þig um að verja mennskuna.
Til þess þarf allar tiltækar raddir – til þess þarf þína rödd. Núna er ekki tíminn til að ímynda sér að þetta muni breytast. Sagði Amíra. Þetta eru orð sem keyra á dýptina; lesum þau aftur þar til við höfum innbyrt þau.
Til að leið okkar sem þjóðar liggi ekki inn í enn harðari rasisma þurfum við rödd Amíru og mína rödd og þína rödd; við þurfum að taka áhættuna og leggja allt okkar fram, alltaf:

„Við ættum að nota orð, bækur og penna, til að útskýra fyrir hvort öðru að nú er ekki tími til að ímynda sér og hugsa; þetta mun breytast. Heldur taka áhættuna og leggja sitt allt fram. Við vorum ekki fædd með raddir út af engu. Við skulum nota hana.“

* * *

Óbreyttur pistill Amíru með fororði móður hennar, Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur (birtur þann 25. september 2015):

Hún Amíra mín (12 ára) er búin að biðja mig í soldinn tíma að birta þennan texta eftir hana hér á facebook. Þetta eru hugleiðingar hennar sem hún skrifaði alveg sjálf og óstudd eftir lestur bókarinnar um Malölu. Ég verð nú við þrábóninni og skil hugleiðingar 12 ára stúlkunnar minnar eftir handa ykkur. Þær eru mjög fallegar þó ég segi sjálf frá ...

Orðin hennar Amíru

Ég heiti Amíra Snærós Jabali. Ég er 12 ára stelpa sem býr í Vesturbæ, Reykjavík og á ættir sem fara langt inn í Evrópu en líka langt inn í Palestínu. Ég tileinka þetta fyrir allar konurnar þar, og í öðrum löndum sem þurfa að fela andlit sitt og ganga eins og þær skammist sín að þær eru konur. Öllum stelpunum og strákum út um öll lönd, eins og Palestínu sem er of hrædd að segja hvað þeim finnst rétt og sanngjart að því þau geta verið drepinn. Fyrir allar ungu stelpurnar á mínum aldri sem þurfa þrífa húsið á meðan strákar læra og verða menn. Það er engin munur á að læra, þroskast til að vera maður frekar enn að konur læri, þroskast til að vera konur.

Hvort sem þú trúir á það eða ekki, held ég að Guð skapaði okkur öll jöfn. Þegar ég heyrði af Malölu Yosafhi skildi ég að hún var stelpan sem var skotinn af Talibana. En núna, skil ég hana sem Malölu. Ungu stelpuna Malölu sem barðist fyrir lífi sínu og margra annarra stelpna. Hún var einfaldlega að berjast fyrir réttum okkar kvenna. Hún var skotin, en af hverju gafst hún ekki upp? Fyrir mér, þá held ég að byssukúlan gerði Malölu sterkari. Eftir það var hún hrædd við engan. Hún var sterkari enn óttinn.

„Láttu í þér heyra og deildu með öðrum af hverju þú heldur að við þurfum á manngæsku að halda.“

Svona ættu stelpur að hugsa. Hvar sem þær eru staddar. Þær ættu að hugsa að Guð skapaði okkur sem hamingjusamar, glaðar, sterkar stelpur. Nám og börn út um allan heim gera okkur sterkari og öflugri. Það er tilgangur okkar allra, ekki bara stelpur. Heldur allra. Malala kemur frá landinu sínu, þar sem hún var skotinn, í Pakistan. Í landinu þar sem Malala varð sterkari, öflugri og þar sem Malala varð Malala. Ég vil sjá það land og öll lönd verða falleg, sterkt og örugg í framtíðinni. Ég vil ekki sjá ættingja mína, í Palestínu, fólkið sem berst fyrir hvort öðru leggja sig í hættu. Eða öllu fólki í þessum heimi.

Við ættum að nota orð, bækur og penna, til að útskýra fyrir hvort öðru að nú er ekki tími til að ímynda sér og hugsa; þetta mun breytast. Heldur taka áhættuna og leggja sitt allt fram. Við vorum ekki fædd með raddir út af engu. Við skulum nota hana. Ég vil ekki bara sjá ættingja mína læra, þroskast og verða af mönnum og konum, heldur öll börn í heiminum. Fyrir mér, þá er stór munur á að trúa á eitthvað sem einhver annar trúir á eða því sem þú trúir sjálf á. Þú ert manneskja, þú hefur þínar eigin tilfinningar, hugsanir og drauma. Láttu í þér heyra og deildu með öðrum af hverju þú heldur að við þurfum á manngæsku að halda. Guð skapaði okkur því við erum öll kraftarverk. Við erum öll eins á okkar hátt en öll öðruvísi á okkar eigin hátt. Við eigum skilið að vera jöfn. 

Þessi pistill var fyrst birtur á Stundinni þann 12. október 2015.

http://stundin.is/pistill/vid-vorum-ekki-faedd-med-raddir-ut-af-engu/

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni