Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Unga fólkið og spillingin

Kannski hvarflaði að þér að þessi pistill fjallaði um það hversu spillt unga fólkið er á Íslandi nú til dags?

Nei.

Hann fjallar hins vegar um það hvar unga fólkið er í dag, hvar það er ekki – og hvað það getur gert til að breyta íslenskum stjórnmálum.

Í mínum huga er ungt fólk einmitt andstæðan við spillingu og þess vegna vildi ég skrifa þennan pistil. Fyrir unga fólkið og um unga fólkið. Pistillinn fjallar um spillingu, hann fjallar um framtíðina – hann fjallar um þig sem ungan einstakling og þitt hlutverk í samfélagi án spillingar.

Tilefnið er Wintris-málið, Panama-skjölin í stærsta gagnaleka heimssögunnar og tilefnið er líka fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar þann 4. apríl 2016. Pistillinn er skrifaður vegna þess siðrofs sem orðið hefur í samfélaginu síðustu daga. Hann er skrifaður vegna þess að líklega verður kosið á ný til Alþingis innan tíðar.

Og hann er skrifaður vegna þess að hvert einasta atkvæði skiptir höfuðmáli.

Sérstaklega þitt atkvæði. Sérstaklega núna.

Þurfum við nýja kjósendur?

Þegar rætt er um að íslensk stjórnmál séu gölluð og flokkarnir séu lélegir er til kaldhæðnislegur frasi sem hljómar nokkurn veginn svona:

Við þurfum ekki nýja stjórnmálaflokka – við þurfum nýja kjósendur.

Inntakið í þessari háðugu athugasemd er að í raun séu illa upplýstir og lélegir kjósendur meginvandamálið í stjórnmálakerfinu – vegna þess að þeir kjósi ranga og spillta flokka. Er þetta sanngjörn athugasemd?

Já og nei.

Aðallega já.

„Inntakið í þessari háðugu athugasemd er að í raun séu illa upplýstir og lélegir kjósendur meginvandamálið í stjórnmálakerfinu.“

Það er nefnilega alltaf verið að rannsaka fylgi stjórnmálaflokkanna. Í ljós kemur að ótrúlega stór hluti kjósenda pælir lítið sem ekkert í valkostunum fyrr en á allra síðustu metrunum fyrir kosningar. Þetta er oft kallað lausafylgi og það er þetta fylgi sem allir flokkar keppast um að sækja sér í kosningabaráttunni, þar sem eytt er tugum milljóna í að sannfæra kjósendur.

Sannfæra þá sem vilja láta sannfæra sig.

Þú ert hinn nýi kjósandi

Auglýsingar geta verið mjög sannfærandi. Þess vegna eyða fyrirtæki og aðrir aðilar hundruðum milljarða í þær á hverju ári – þær virka.

Þess vegna er mér annt um þessa fullyrðingu:

Leiðin að betra samfélagi er að hver kjósandi geri sjálfur upp hug sinn – löngu áður en kosningabaráttan hefst.

Ef þú ert á aldrinum 18–25 ára ertu kannski að fara að kjósa í fyrsta eða annað skipti. Kannski leiðir þú stjórnmálaumræðuna hjá þér – sumir kjósa að gera það. En ég er viss um að undanfarna daga hefurðu hugsað meira en áður um íslensk stjórnmál. Það hefur ekki farið framhjá þér að vegna hneykslismála sem tengjast skattaskjólum hefur Ísland verið í heimspressunni í heila viku, forsætisráðherra hefur sagt af sér og nýr tekið við, mjög stór hópur venjulegra Íslendinga hefur mótmælt á Austurvelli nánast daglega í heila viku – og sér ekki enn fyrir endann á mótmælunum.

Ástæðan er sú að fólki er misboðið. Það er komið með nóg. Það varð trúnaðarbrestur á milli þjóðar og ríkisstjórnar þegar í ljós kom að þrír ráðherrar höfðu átt fjármuni í skattaskjólum. Það varð siðrof, eins og margir vildu nefna það. Enn hefur enginn beðist afsökunar eða tekið ábyrgð á málinu og reyndar hafa báðir stjórnarflokkarnir lýst yfir fullum stuðningi við alla sem eiga hlut að máli.

Spillingin virðist vera rótgróin og alls ekki á útleið.

Spilling er ekki náttúrulögmál

Spilling er lærð hegðun sem yfirleitt tekur nokkurn tíma að þróast hjá einstaklingum, einkum ef þær komast í tæri við mikið vald og lengi. Þess vegna er unga fólkið á Íslandi óspillt. Og þess vegna er unga fólkið framtíðin. Þú – ert framtíðin.

Mig langar því alveg óskaplega að hvetja þig til að ákveða – hér og nú og einn tveir og strax – að þú munir nota kosningaréttinn þinn í komandi kosningum, bæði þegar kosið verður til forseta og í næstu Alþingiskosningum.

Eitt atkvæði getur skipt höfuðmáli. Og það er vel þekkt staðreynd að kjörsókn er minnst hjá yngstu kjósendunum. Á mannamáli þýðir það að rödd þinnar kynslóðar heyrist síst inni á Alþingi; að þú, vinir þínir og vinkonur hafið minnst vægi allra þjóðfélagshópa. Þetta er staðreynd sem er svo auðvelt að breyta og besta dæmið um þessi áhrif er að gerast einmitt núna, í Bandaríkjunum, þar sem ótal ungir Bandaríkjamenn flykkjast á kjörstað til að kjósa Bernie Sanders. Það eru þeir sem gera gæfumuninn og eru að breyta bandarísku stjórnmálalandslagi.

 

 

Sérðu rauða svæðið fyrir ofan súlurnar þrjár hér að ofan?

Þetta svæði stendur fyrir þúsundir ungmenna undir þrítugu sem ekki mæta á kjörstað. Ef 100 ykkar mæta á kjörstað í staðinn fyrir að sleppa því verða áhrifin mjög skýr. Ef 500 ungmenni mæta fer rödd þeirra að heyrast fyrir alvöru. Ef kjörsóknin í ykkar aldurshópi verður svipuð og foreldra ykkar eru ný atkvæði fleiri þúsund talsins, atkvæði sem koma beint út frá hjartslætti og hugmyndum ungra Íslendinga.

Með 62.800 atkvæðum kjósenda undir þrítugu er svo sannarlega hægt að breyta gangi sögunnar og hreinsa til í íslenskum stjórnmálum.

Með 62.800 atkvæðum kjósenda undir þrítugu er í alvöru hægt að kjósa spillinguna í burtu.

Vertu með – deildu – skiptu máli

Það er ekki þannig að ungt fólki hafi ekki áhuga á stjórnmálum líðandi stundar. Það bara mætir ekki eins vel á kjörstað – þar sem valdið raunverulega liggur. Í nokkrum könnunum síðustu daga hefur einmitt komið fram að ungt fólk hefur fylgst sérlega vel með, t.d. í þessari könnun Maskínu, þar sem 90,9% ungs fólks sagðist hafa fylgst mikið með fréttum.

 

 

Þess vegna er þetta ákall til þín sem ert á aldrinum 18–25 ára um að meðtaka hvatningu þessa pistils og deila honum með vinum þínum og vinkonum.

  • Gerðu upp hug þinn, upp á eigin spýtur, áður en kosningabaráttan hefst.
  • Skoðaðu stefnumál flokkanna vandlega.
  • Skoðaðu hvaða flokkum er treystandi, hvers vegna og hvers vegna ekki.
  • Kjóstu gegn spillingu, með heiðarleika.

Mættu síðan á kjörstað til að hafa áhrif á samfélagið þitt, taktu með þér vin, gerðu glaðan dag úr kjördeginum. Þetta er hátíðardagur því að þín eigin framtíð er í húfi.

Spilling er alls ekkert náttúrulögmál. Þú og vinir þínir getið kosið hana í burtu með því að mæta á staðinn með 62.800 atkvæði og láta finna fyrir ykkur.

 

Þessi pistill var fyrst birtur á Stundinni þann 14. apríl 2016.

http://stundin.is/pistill/unga-folkid-og-spillingin-hvert-stefnum-vid/

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni