Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Heimaslátrun og aðrar vögguvísur

Heimaslátrun og aðrar vögguvísur

Það kemst auðvitað lítið að þessa vikuna annað en umfjöllun um Scamherja og félaga í Afríku. Því miður varpar það skugga á annað stórmál, sem ekki er jafnmikið hneyksli: Ég er að gefa út mína fyrstu ljóðabók heil í 16 ár. Lengi var von á einum!

Bókin heitir Heimaslátrun og aðrar vögguvísur og forsölu/söfnun lýkur á morgun, fimmtudag. Hún er hér: https://www.karolinafund.com/project/view/2664.

***

Nýja bókin er tvískipt. Annars vegar ljóðabálkurinn Heimaslátrun frá árinu 2006 (!) sem var tilbúinn og meira að segja lesinn yfir af nokkrum vel völdum aðilum. Ég get ekki skýrt hvers vegna handritið leitaði ofan í skúffuna, en ég man að ég las upp úr því á þrælmögnuðu listakvöldi í Kling og Bang í gömlu Hampiðjunni og einhvers staðar á ég útprentað handrit með eiginhandaráritunum frá meðlimum Blonde Redhead, sem voru að spila í Reykjavík þessa helgi og ég rakst á fyrir tilviljun. Heimaslátrun er ljóðarant sem hefur reglulega minnt á sig og nú er greinilega kominn tími á aðgerðir. Þemað er neyslusamfélagið, kjötskrokkar og slátrun. Jafnvel slátrun á heimilum ...

Hinn hluti bókarinnar er svo rjóminn af ljóðum sem hafa safnast upp hjá mér á blöðum, í bókum og ýmsum tölvuskjölum. Þótt 16 ár séu liðin frá síðustu ljóðabók hef ég aldrei hætt að skrifa ljóð. Þau eru og hafa alltaf verið minn fyrsti snertipunktur við tungumálið ... og sjálfan mig.

Ég lofa þéttri blöndu af pólitík og einlægni, allt að því væmni. Allar upplýsingar er að finna hér:

https://www.karolinafund.com/project/view/2664

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni