Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Tekur enginn mark á landlækni?

Tekur enginn mark á landlækni?

Árið 2014 gaf Embætti landlæknis út upplýsingabækling sem ber heitið Ráðleggingar um mataræði og var hann endurútgefin 2015. Bæklingurinn er aðgengilegur og læsilegur og leggur línunar, í grófum dráttum, hvernig landsmenn geta hagað mataræði sýnu til þess að styðja við góða heilsu og forðast sjúkdóma. 

Ráðleggingar landæknis eru að mörgu leiti til fyrirmyndar en í bæklingnum er meðal annars lögð mikil áhersla á neyslu ávaxta og grænmetis sem og grófs kornmetis. Sérstaka athygli vekur að neysla kjöts á að vera í hófi og segir þar orðrétt:

Mikil neysla á rauðu kjöti, sér í lagi unnum kjötvörum, tengist auknum líkum á krabbameini í ristli og þyngdaraukningu. Feitar kjötvörur innihalda einnig mikið af mettaðri fitu. Stór hluti mettaðrar fitu í fæði Íslendinga kemur úr mjólkur- og kjötvörum. Með því að skipta út hluta af mettuðu fitunni fyrir ómettaðar fitusýrur má lækka LDL-kólesteról í blóði og minnka líkur á hjarta- og æðasjúkdómum. 

  • Með unnum kjötvörum er átt við kjöt (oftast rautt kjöt) sem er reykt, saltað eða rotvarið með nítrati eða nítríti. Sem dæmi má nefna saltkjöt, spægipylsu, pepperóní, beikon, pylsur, bjúgu, kjötfars, hangikjöt og skinku. 

  • Með rauðu kjöti er átt við t.d. nautakjöt, lambakjöt og svínakjöt. 

Í samræmi við þessar upplýsingar ráðleggur landlæknir að takmarka neyslu rauðs kjöts við 500g á viku. En hvað borða Íslendingar mikið af rauðu kjöti á viku?

Ef einstaklingur neytir 500g af rauðu kjöti á viku þá gerir það um 26.1 kg á ári. Samkvæmt vef Hagstofu Íslands þá var meðalneysla rauðs kjöts um 54.7 kg fyrir árið 2014 og 56.2 kg fyrir árið 2015. Neysla á rauðu kjöti er því rúmlega tvöfalt meiri en ráðleggingar landlæknis gera ráð fyrir. Þetta er svo verulega varlega áætlað því þetta er meðalneysla á alla 330.000 íbúa Íslands frá 0 ára og uppúr og telur allar grænmetisætur með. Því mætti gera ráð fyrir að meðalneysla kjötæta á rauðu kjöti sé enn ofar ráðleggingum landlæknis en þessar tölur gera ráð fyrir.

Landlæknir gengur skrefinu lengra og tekur fram að hægt er að setja saman hollt fæði án kjöts. Landlæknir hefur þó þann varnagla á að ef maður ætli sér að sniðganga kjöt þá þurfi að bæta það upp á einhvern hátt eins og með fisk, mjólkurvörum, eggjum og baunum. Það sem vantar upp á annars fínar ráðleggingar landlæknis er hvað beri að ráðleggja fólki sem neytir ekki dýra né afurða þeirra. Kröftug vitundavaknging hefur átt sér stað meðal fólks að siðferðislega sé erfitt, ef ekki ómögulegt, að réttlæta meðferð okkar á ómennskum dýrum til þess eins að útvega okkur næringu sem við getum hæglega orðið okkur útum án aðkomu dýra. Vitaskuld eru siðferðisleg álitamál gagnvart ómennskum dýrum ekki á borði landlæknis en það eru ýmsir aðrir ávinningar sem felast í því að sniðganga matarafurðir úr dýraríkinu m.a. heilsufarslegar eins og athugasemdir landlæknis hér að ofan um rautt kjöt segja til um en landlæknir varar einnig við neyslu feitra mjólkurvara og svo spila einnig umhverfisþættir hér inn í en landlæknir segir orðrétt:

Flestir Íslendingar hefðu heilsufarslegan ávinning af því að auka neyslu á fæðu úr jurtaríkinu

og bætir svo við:

Aukin neysla á jurtaafurðum og minni neysla dýraafurða mun auk þess hjálpa til við að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda og vernda þannig umhverfið

Óskandi væri að landsmenn færu betur eftir ráðleggingum landlæknis og takmörkuðu neyslu sýna á dýraafurðum. 

Það væri viðurkenning og hvatning til betri vegar ef að landlæknir myndi veita ráðleggingar um mataræði fólks sem, af hvaða ástæðu sem er, kýs að neyta dýraafurða í litlu eða engu magni.

Það er óumdeilt að við flest getum lifað án neyslu dýraafurða við góða heilsu og nær öll næringarefni er hægt að fá úr jurtaríkinu. Þau næringarefni sem erfitt er að fá úr jurtaríkinu má auðveldlega bæta upp með aðgengilegum fæðubótaefnum eins og t.d. B12 vítamín. Það væri viðurkenning og hvatning til betri vegar ef að Embætti landlæknis myndi veita ráðleggingar um mataræði fólks sem, af hvaða ástæðu sem er, kýs að neyta dýraafurða í litlu eða engu magni.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu