Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Um íslenzka þjóðmenningu og stjórnarhætti

Ég hélt eg hefði hlaupið apríl þegar það barst í tal þann 1. apríl 2015 að forsætisráðherra hefði ákveðið að hann vildi:

1. Ljúka við byggingu Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem geymir "dýrustu djásn íslenskrar sögu".

2. Byggja við Alþingi eftir hönnun Guðjón Samúelssonar.

3. Endurreisa Valhöll á Þingvöllum.

Einnig mæltist hæstvirtur Forsætisráðherra til þess að haldin yrðu hátíðarhöld hvoru tveggja dagana 18. júlí 2018 og 1. desember 2018 til að fagna undirritun og gildistöku sambandslaganna, sem eins og góðir Íslendingar eiga að vita, gerði Ísland að fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörk. Við fengum reyndar fyrsta ráðherrann 1904, en þá varð Hannes Hafstein fyrsti ráðherra Íslandsmála, með aðsetur í Reykjavík.

Loks mælir forsætisráðuneytið til að tekið verði "saman rit um aðdraganda sambandslaganna". Nú eru sambandslögin með þeim lögum sem hafa verið stúderuð hvað mest af íslenskum sagnfræðingum. Aðdragandi og efnistök voru lyginni líkast þegar Skúli Thoroddsen náði að fá þjóðina með sér í lið sem gerði það að verkum að fyrsta "Uppkastinu" var hafnað. En ókei, frábært að ríkið vilji fá söguna skrifaða, reyndar þann part sögunnar sem hefur verið ritað um og rannsakað i tætlur. En eins og sagt er, þá er góð vísa aldrei of oft kveðin. 

Stofnun Árna Magnússonar

Svo við höldum okkur við söguna, þá var samþykkt árið 2006 að byggja Hús íslenskra fræða. Hönnunarsamkeppnin fór fram 2008 en það varð ekkert úr því að hefja byggingu á þessu húsi fyrr en 2012-2013, í ráðherratíð Katrínar Jakobsdóttur. Það var bersýnilegt að henni þótti vænt um þessar framkvæmdir, enda íslensku- og bókmenntafræðingur að mennt.

Þegar ríkisstjórn Sigmunar Davíðs tók við, þá var það hans fyrsta verk að stöðva áframhaldandi framkvæmdir á stofnuninni. Hans rök voru eitthvað á þann veg að "Hér varð hrun!" og "3,4 milljarðar er of mikill peningur" og hann hváði við slíku munaðargóssi vinstrimanna.  Í dag stendur glæsileg hola íslenskra fræða því við Þjóðarbókhlöðuna.

Sjávarútvegsfyrirtæki, einkaaðilar og bankamenn hafa fengið annað þvíumlíkt afskrifað í kjölfar hrunsins. 

Frábært að Sigmundi Davíð skuli hafa snúist hugur um byggingu Húss íslenskra fræða, en hinsvegar, þá er það ríkisstjórn hans sem stöðvaði framkvæmdirnar. Hversu mikið kostaði það að stöðva framkvæmdirnar? Það hlýtur að hafa kostað eitthvað. Hversu mikið þarf að laga í holunni þar sem hún hefur setið og rotnað og safnað aur og vatni í tvö ár? 

Nei, kæra ríkisstjórn, þið getið ekki eignað ykkur þessa frábæru framkvæmdir sem eiga að stuðla að betra menningarlífi og aðstöðu til þess að rannsaka íslenskan menningararf.

Viðbygging Alþingis

Alþingi Íslendinga er alltof lítið. Það á hvoru tveggja við um salinn þar sem þingfundir eru haldnir, herbergin þar sem nefndarfundirnir fara fram, aðstöðu fyrir þingmenn og annað starfsfólk Alþingis.

Þegar Alþingishúsið var tekið í notkun árið 1881 voru 36 alþingismenn er sátu í tveimur deildum. Þegar leið á 20. öldina fjölgaði þingmönnum, 1903 upp í fjörutíu þingmenn, 1942 upp í 52 þingmenn og svo í 63 þingmenn árið 1984. Á sama tíma hefur fólksfjöldi á Íslandi aukist frá 57.229 manns árið 1844, í 79.181 manns árið 1903. 122.385 manns bjuggu í landinu árið 1942 en á því herrans ári 1984 voru Íslendingar 238.416 talsins. Í dag eru Íslendingar um 325.671. Allar þessar tölur eru fengnar frá Hagstofu Íslands.

Á rétt rúmlega einni öld hefur fjöldi Íslendinga þrefaldast. Það þýðir að íslenska stjórnkerfið hefði þurft að auka umfangið, fyrir utan að það þarf lágmarksfjölda til þess að annast grunnskyldur sjalfstæðrar þjóðar, svo sem að búa til lög og hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu. 

Eins og staðan er í dag þá er of margt um að vera innan þings, sem utan, til þess að sextíu og þrír þingmenn geti almennilega fylgt öllu eftir. Það þarf að stækka Alþingi, en ekki bara að utan heldur líka að innan. Við þurfum fleiri þingmenn til þess að sinna eftirlitshlutverki og löggjafarvaldi Alþingis betur.

Ytri stoðir Alþingis

En að ytri stoðum Alþingis -- þ.e. húsinu sjálfu. Það er byggt árið 1881. Það er langtum eldra en hundrað ára eða 134 ara. Stórmerkilegt hús, enda eitt af fyrstu steinhúsum sem voru reist í Reykjavík og færði þinghald ur Latinuskólanum, en þar hafði verið þingfundur siðan Alþingi var endurreist sem raðgefandi löggjafarþing 1844.

Alþingi sem stofnun þarf stærra húsnæði, það er einsýnt. Er það hins vegar rétt að byggja við hundrað og þrjátiu ára gamla byggingu sem hefur sögulegt gildi? Tvær viðbyggingar sem þegar eru til staðar, þar af nýleg. Kringlan, sem er við listigarðinn, er bygggð í sama stíl og Alþingishúsið, en nýlegri viðbyggingin, er inniheldur mötuneyti, móttöku og fundaherbergi stjornarandstöðuflokkanna, er nutímahönnun. Glertyppi tengir byggingarnar, eins lymskulega og mögulegt er. 

Að bæta við byggingu eftir hundrað ára teikningu er  svona eins og að setja bót á kufl Jóns Arasonar eftir hönnun Sigurðar Málara Guðmundssonar, vegna þess að mölfluga át gat á kuflinn árið sautjánhundruð og súrkál. 

Það þarf að hugsa sig tvisvar um áður en maður breytir hundrað-og-þrjátiu ára gamalli byggingu. Það er ekki gert si svona til þess að fá popúlistastig. Ég er alfarið á móti viðbyggingu við Alþingishúsið - hvort sem um er að ræða þá byggingu sem er nú þegar búið að byggja við eða nýrri byggingar. Það er staður og stund fyrir viðbyggingar en stundum verður maður bara að láta gott heita. Alþingi er sprungið, við þurfum nýtt þing. Ekki bara að utan, heldur líka að innan. 

Og ég held að innviðina þurfi að laga fyrst, þar sem þeir eru svo fúnir að það hálfa væri nóg. Annað væri að setja plástur á beinbrot.

Innri stoðir Alþingis

Um Valhöll hef ég lítið að segja. Finnst þetta samt dæmigert fyrir þjóðernissinnaða rómantíkusa frá 19. öld að reyna að endurbyggja það sem glatast hefur. Reyna að halda sig við tíma gullaldar og fegurðar sem aldrei var til í stað þess að horfa fram á við.

Eftir síðasta útspil utanríkisráðherra er ekki hægt að álykta annað en að Alþingi sé komið aftur á byrjunarreit. Alþingi Íslands er aftur orðið ráðgefandi löggjafarþing, með afar óljóst og takmarkað valdsvið. Það getur lagt fram ályktanir og tillögur, skrifað lög, en þau virðast ekki vera bindandi fyrir ríkisstjórnina. Þegar öllu er á botninn hvolft er löggjöfin að mestu skrifuð í ráðuneytum hvort eð er. 

Ríkisstjórnin fer í senn með löggjafarvald og framkvæmdavald. Alþingi sem slíkt er bara formsatriði, líkt og það var árið 1844.

Á meðan stúdentar ná varla bót fyrir boru sína, öryrkjar hafa ekki efni á að fara til tannlæknis og öldruðum eru skammtaðir eiginfjármunir til lífsloka, þá þykir forsætisráðherra það forgangsverkefni að punta stélið. 

Nýtt þing þurfum vér, en ekki til þess að vera minnismerki um mikilmennskubrjálæði heldur vegna þess að þróttur þess þings er vér höfum i dag, er uppurinn. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu