Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Hefur framlag til samfélagsins einhvern tímann verið metið til launa?

Hefur framlag til samfélagsins einhvern tímann verið metið til launa?

Við lifum í samfélagi þar sem fólk vinnur hörðum höndum störf sem myndu, ef þau yrðu ekki unnin, riða því til falls. Þessi störf eru æði misjöfn og krefjast sum náms og önnur ekki. Fyrir þessi störf eru yfirleitt borguð lág laun og stjórnvöld hafa alla tíð hrætt lýðinn með því að þeir geti ómögulega borgað þeim sómasamleg laun þar sem það myndi leiða til óðaverðbólgu og ógna stöðugleika efnahagskerfisins. Á sama tíma er hér fólk sem vinnur lítið eða ekkert, og jafnvel störf sem skipta samfélagið litlu, og fær fyrir það formúgu ýmist vegna þess að starfið er hægt að selja á „frjálsum“ markaði eða þá að stjórnvöld styrki það gagnrýnislaust til að tryggja sér áframhaldandi völd.

Mikill framámaður í íslensku samfélagi hefur nú sett fram þá sjálfsögðu staðhæfingu að háskólamenntun ein og sér sé engin trygging fyrir því að viðkomandi leggi eitthvað markvert til samfélagsins. Viðbrögð fólks við henni vekur áhuga minn.

Í fyrsta lagi finnst mér merkilegt að fólk gapi af undrun yfir þessu eins og þetta sé ekki augljóslega satt og að einhver hafi einhvern tíman haldið einhverju öðru fram. Margir, sem ekki hafa þessa tilteknu menntun, grípa þetta eins og lottóvinning og segja: ,,Sko, ég er líka mikilvæg/ur! Ég sagði að ég þyrfti enga háskólamenntun til þess!“ Eins og einhver hafi einhvern tíman haldið öðru fram? Ég veit hins vegar alveg að í Íslandi er mikið menntasnobb og þessi viðbrögð kannski pínu skiljanleg í því ljósi.

Aðrir, gjarnan háskólamenntaðir, hafa farið í ákveðna vörn gagnvart þessari staðhæfingu og skrifað um mikilvægi menntunar fyrir margvísleg störf, mannsandann og þar með samfélagið allt. Eins og það sé ekki augljóst líka? Menntun er vissulega góð í sjálfu sér og auðgar alltaf þann sem leggur stund á hana. Það er í sjálfu sér alltaf gott fyrir samfélög að fólk auðgi anda sinn sem mest. Hvort sá hinn sami beri gæfu til að nýta það beint sem framlag til samfélagsins er svo aftur annað mál. Alla vega er erfitt að mæla það framlag í öllum tilfellum þó svo að ég sjálf telja það alltaf skipta máli.

Tímasetningin á þessari grein (eða viðtali) er hins vegar það merkilegasta af öllu. Hún er sett fram í miðri kjarabaráttu stétta sem vinna gífurlega mikilvæg störf fyrir samfélagið og hafa menntað sig í mörg ár til að auka líkurnar á að það starf sé unnið á eins faglegan hátt og hægt er. Eða er einhver að efast um að manneskja sem hefur svo góða mannkosti að hún velur að vinna við og læra til starfa sem snúa að því að hlúa að öðru fólki verði verri starfskraftur við að mennta sig líka til þessara starfa? Þrátt fyrir að þau störf séu hræðilega illa borguð? Er einhver mikilvægari fyrir samfélagið en einmitt slíkar manneskjur? Er það ekki framlag sem ætti að borga hæstu launin?

Þar sem framlag til samfélagsins hefur aldrei verið metið til launa hér hafa margir gripið til menntunar sem rökstuðnings fyrir kröfu um mannsæmandi laun. Með því er ekki verið að segja að þeir sem ekki hafa marga ára menntun eigi ekki líka skilið mannsæmandi laun eða að þeir sem geti ekki unnnið af mismunandi ástæðum eigi ekki líka skilið að lifa mannsæmandi lífi. Það er fáránlegt að ætla að barátta fyrir bættum kjörum eins hóps sé á sama tíma samþykki á að annar hópur hafi það skítt.

Hættum nú þessu karpi um hvort menntun ein og sér sé trygging fyrir því að viðkomandi leggi eitthvað markvert til samfélagsins. Það hefur enginn sagt það og snýst kjarabarátta í raun ekkert um það þótt einkunnarorðin um að menntun sé metin til launa sé sett í forgrunn. Það er eingöngu gert til að reyna að bera fyrir sig rökum sem stjórnvöld geta ekki hafnað (eða ættu ekki að geta). Auðvitað snýst kjarabarátta um að framlag og mikilvægi starfa fyrir samfélagið sé metið til launa og að allir sem vinna fulla vinnu fái mannsæmandi laun.

Föllum ekki fyrir þessari tilraun til að etja vinnnandi fólki saman hvort sem það er með margra ára menntun eður ei. Berjumst fyrir bættum kjörum allra til handa; sameinuð stöndum vér!


 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu