Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Vúlvuspá 2016

Árið 2015 var erfitt ár. Ýmsir erfiðleikar heimsins urðu okkur bómullarhnoðrum Íslands ansi raunverulegir.  Á Íslandi er líka erfitt fyrir mjög marga. Ég ætla hins vegar ekki að tíunda þessa erfiðleika hér, enda er ég enginn fræðimaður og nenni því bara engan veginn. Þessi spá kemur hins vegar djúpt úr mínum vúlvurótum og er helber óskhyggja um betri heim.

Á næsta ári mun fólk fara að fatta betur að við erum öll meira og minna föst í eigin reynsluheimi og túlkum sömu hlutina afar ólíkt. Þetta veldur endalausum misskilningi og óþarfa togstreitum sem þó kannski eru stundum nauðsynlegar. Fólk mun smám saman læra að spyrja spurninga eins og: hvernig ert þú að túlka þetta? Útfrá hvaða forsendum sérðu þetta? Þetta mun leiða til þess að óþarfa tíma og öðrum verðmætum verður síður sóað enda erum við búin að besta okkur í því. Fólk mun komast að því að yfirleitt hafa allir sama markmið um farsæld og betri heim, sumir fyrir alla en aðrir reyndar bara fyrir sig. Við getum þá takmarkað rökræður okkar við að finna út hvaða leiðir séu bestar til að ná markmiðunum en þurfum ekki að reyna sverta markmið hvors annars sem slík. Markmið tengjast nefnilega oftast gildum okkar um hvað skiptir okkur máli og því persónum okkar. Það er svo sorglegt að falla stöðugt í þá gryfju að gera lítið úr persónu hvers annars þegar við erum að reyna að finna út hvaða leiðir eru bestar til að ná farsæld. Enda rökvilla í sjálfu sér.

Kannski er ég fræðimaður eftir allt saman? Búin að sjóða saman Prótagórasi, Hegel og Aristótelesi og krydda með ýmsu öðru í 200 orðum. Eða nei, ég er kennari og hef þá furðulegu áráttu að reyna stöðugt að draga saman aðalatriðin fyrir sjálfri mér og öðrum, ég læt fræðimennina um hitt. Ég er líka voðalega svag fyrir því að reyna að komast að því út frá hvaða forsendum fólk setur mál sitt fram. Ekkert er jafn frústrerandi og að fylgjast með fólki rífast og rökræða útfrá ólíkum forsendum án þess að átta sig á því. Fólk er meira að segja næstum alltaf sammála; ef það bara myndi staldra aðeins við.

Nei djók, ég óska öllum bara kærleika og frið í hjartað sitt ... vúlvuknús 2016 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu