Þessi færsla er meira en 9 ára gömul.

Þreytandi femínismi

Þreytandi femínismi

Mér finnst femínismi ótrúlega þreytandi.  Það breytir því ekki að ég er gallharður femínisti sem þrái ekkert heitar en að allir fái að njóta sín í þessum heimi eins og þeir eru án fangelsi staðalímynda og kerfisbundinnar vitleysu sem hefur átt sér stað í árþúsundir. Ég nenni ekki að telja þessa vitleysu upp hér, held að flestir viti nokkurn veginn hvað ég er að tala um. Kannski er ástæðan fyrir því að mér finnst þetta þreytandi sú að ég er kona. Það er alla vega frekar þreytandi að þurfa stöðugt að sanna sjálfa sig í heiminum til að teljast klár, þenkjandi, eða málefnaleg svo ég tali nú ekki um rökföst. Það besta við þetta allt er samt að það er ekki körlum að kenna. Margir halda að það að tala um misrétti gagnvart konum sé það sama og að segja að karlar séu vondir og að það sé allt þeim að kenna.  Mér finnst það frekar þreytandi. Enda algjört bull.  Karlmenn eru alveg jafn mikið fastir í fangelsi staðalímynda og alls konar kerfisbundins bulls til dæmis varðandi forræði barna. Þess vegna held ég að mörgum körlum finnist femínismi líka frekar þreytandi. En það breytir því ekki að hann er nauðsynlegur. Meira að segja bráðnauðsynlegur. 

Flestum finnst líka femínismi þreytandi af því að tengt honum er fjallað um hluti sem skipta ekki máli í sjálfu sér; þá er ég að tala um hluti eins og liti á fötum eða ís barna, hvort umferðaljósa kallinn sé í buxum eða pilsi o.s.frv. Það breytir því hins vegar ekki að þetta eru samt birtingarmyndir af dýpra misrétti sem skiptir máli að ræða eins og lægri laun fyrir sömu vinnu, vanvirðingu og öðruvísi kröfur til kvenna eða karla varðandi kynlíf, framkomu o.s.frv.. Fólk vill auðvitað frekara ræða þá hluti. Það sem mér finnst samt mest þreytandi varðandi umræðu um femínisma og kynjakvóta sérstaklega (tek það fram að ég er ekkert sérstaklega hrifin af kynjakvótum, enda eru þeir ekki markmið í sjálfu sér heldur tæki til að hjálpa þessu beyglaða samfélagi að komast á réttan kjöl. Vil gjarnan að fundið verði upp annað tæki) er þegar fólk segir: Ástæðan fyrir þessum mun er bara að konur sækja ekkert í þessi störf, eða biðja ekki um launahækkun o.s.frv.  Þá erum við loksins komin að hlutum sem mér finnst EKKI þreytandi að ræða um. 

Það er nefnilega alveg rétt að í mörgum tilfellum er það alveg hárrétt að konur eru oft á tíðum ragari við að gera kröfur um launahækkun og sækja ýmis störf. Þá er ég auðvitað að tala um almennt séð og að meðaltali en ekki sterkar, hugrakkar konur sem gera allt sem þeim sýnist. En einhver ástæða er fyrir þessari óframhleypni hjá konum almennt séð. Hún getur verið blanda af mörgum þáttum en ójafnrétti í gegnum tíðina og feðraveldið er pottþétt stór ástæða. Mig langar að  ræða um AF HVERJU konur standa ekki nógu mikið með sjálfri sér og finna leiðir til að bæta úr því.

Svo langar mig líka að ræða meira um ýmist ójafnrétti gagnvart körlum og það gjald sem þeir þurfa borga að vera fastir í staðalímyndinni um að vera alltaf sterkir o.s.frv. Það hefur sýnt sig að það er stórhættulegt fyrir þá marga hverja enda eru brottfall úr skóla, sjálfsvíg, neysla fíkniefna o.fl. töluvert algengari hjá þeim. Því kynjakerfið sem femínisminn er að reyna að brjóta niður er skaðlegur fyrir BÆÐI kynin. En það er oft hundleiðinlegt að átta sig á því og ræða um birtingamyndir þess sem skipta ekki máli í sjálfu sér. En því miður eru þreytandi og óþægilegir hlutir oft nauðsynlegir. Góðar stundir.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu