Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Kerfið er auminginn!

Í dag titrar internetið vegna úrsagnar Bjarkar Vilhelmsdóttur og gagnrýni hennar á ,,aumingjavæðingu“ innan kerfisins. Ég er sammála Björk um að það sé allt of mikil áhersla í kerfinu á það sem fólk getur ekki gert og í því felist innbyrðis stimplun um fólk og þeirra aðstæður  sem það fer svo kannski ósjálfrátt að reyna að standa undir og viðhelst því í kerfinu. Margir hafa bent á mikilvægi þess að líta frekar á það sem einstaklingurinn getur gert og miða hluti útfrá því. Þannig myndum við tala um að manneskja hefði 50% starfsgetu í stað þess að hún sé með örorkumat upp á 50%. Einhverjum finnst þetta kannski ekki skipta neinu máli eins og rifrildið um hvort glasið sé hálftómt eða hálffullt. En ég held að það skipti máli upp á möguleika einstaklings til að styrkjast og fá hvatningu til að koma aftur til starfa eftir erfið veikindi svo dæmi sé nefnt að horfa jákvæðara á málin yfirhöfuð.

Ég er samt líka sammála Sigríði Ingibjörgu sem gagnrýnir notkun á orðinu ,,aumingjavæðing“ og bendir á tilhneigingu frjálshyggjusjónarmiða kapitalismans að einstaklingsvæða allan vanda þegar í raun veikt og óréttlátt kerfi er upphafið á mörgum vanda og viðheldur honum á ýmsan hátt. Lág laun fyrir flest vinnandi fólk er ávísun á að slíti sér út í vinnu svo ég taki eitt augljóst dæmi. Að foreldrar slíti sér út í vinnu og hafi ekki tíma né orku til að sinna börnum og ungmennum sem mörgum hverjum líður illa og geta ekki einbeitt sér í skóla er annað augljóst dæmi og oft ávísun á skerta starfs- og námsgetu í framtíðinni. Allt of hátt húsnæðisverð og leigumarkaður sem venjulegt fólk nær illa að taka þátt í og þarf að flytja með fjölskyldur á milli hverfa sem eykur vanlíðan og streitu, annað augljóst dæmi. Þetta er vítahringur.

Þannig að það er kerfið sem er auminginn!

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni