Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Flóttamenn eða öryrkjar? Er það spurningin?

Fátt fer eins mikið í taugarnar á mér og ákveðinn málflutningur sem er algengur um þessar mundir. Hann snýst um að við þurfum að hugsa betur um öryrkja og aðra hópa sem standa höllum fæti hér á landi áður en við förum að hjálpa fólki frá í útlöndum. Ástæða þess er margföld. Í fyrsta lagi af því að þetta hljómar svo skynsamlega að ansi margir láta glepjast með. Hver þekkir ekki hugmyndina um að maður þurfi að rækta eiginn garð áður en maður getur gefið eitthvað af sér til annarra. Hún er skynsamleg. Vandamálið er að þrátt fyrir að þetta hljómi sem svipaður málflutningur er hann gjörólíkur og byggir á hrapalegum misskilningi og vanþekkingu á ástæðum alvarlegri stöðu öryrkja hér á landi sem og skort á einfaldri rökhugsun um orsakir og afleiðingar.  

Ef móttaka okkar á þessum örfáu flóttamönnum sem hingað hafa komið síðustu misseri er ástæðan fyrir bágri stöðu öryrkja og aldraðra á íslandi væri það tiltölulega nýtt vandamál. Svo er hins vegar ekki. Ansi lengi hafa margir hópar hér staðið höllum fæti og þurft að týna saman krónur og flöskur til að eiga fyrir mjólkurpotti svo eitt dæmi sé tekið.  Vissulega er ástandið ekkert að skána. Farið er illa með fólk á Íslandi. Þörfum allt of margra er ekki sinnt og þeim ekki sýnd sú virðing og mannúð sem svo ríkt samfélag ætti að geta sýnt. Mannréttindi eru brotin. Ég þarf ekki að telja upp dæmi hér. Við vitum öll um hvað ég er að tala. Eða ég vona það, þrátt fyrir að ansi margir vilji greinilega loka augunum fyrir þeirri staðreynd þ.á.m. ráðamenn sem við kjósum yfir okkur ár eftir ár.

Þannig er það ekki bara röklega rangt að halda því fram að ástæðan fyrir fátækt á Ísland í dagi séu þeir flóttamenn sem nú berjast í bökkum um alla Evrópu heldur einnig einfeldningslegt að mínu mati. Ef íssala eykst á sama tíma og nauðganir aukast getum við þá dregið þá ályktun um að ísát láti fólk verða ofbeldishneigt? Nei, þarna er auðvitað þriðja breytan: sumarið/veðrið, sem er að hafa áhrif á bæði íssölu og aukna tíðni árása. Hver skyldi þá vera þessi þriðja breyta sem ber ábyrgð á því að bæði öryrkjar og fleiri hópar hafa það skítt og að við erum á sama tíma ekki að standa okkur neitt sérstaklega vel í að taka á móti fólki í nauð sem er að flýja hræðilegar aðstæður og ofbeldi sem við getum ekki einu sinni gert okkur í hugarlund? Jú, þriðja breytan og ábyrgðina bera stjórnvöld. Þau stjórnvöld sem hafa í áratugi komið illa fram við fólk hér heima fyrir með því að svelta velferðarkerfin okkar meðan örfáir maka krókinn af ríkum auðlindum þjóðarinnar. Ég heyrði mjög góða setningu um þetta á samfélagsmiðlum um daginn: Þau stjórnvöld sem koma vel fram við flóttamenn eða fólk í nauð eru miklu líklegri til að koma vel fram við öryrkja eða innfædda sem standa höllum fæti. Að vilja virða mannréttindi fólks er yfirleitt eitthvað sem maður hugsar fyrir allar manneskjur, ekki bara tiltekna hópa. Við eigum öll skilið virðingu og mannúð og að okkur sé hjálpað í nauð.

Ég tek þátt í stjórnmálastarfi með flokki sem kallast Dögun. Stefna hans í flóttamannamálum er skýr; Hún snýst um að taka vel á móti fólki í nauð og gera það með virðingu og mannúð að leiðarljósi. Ennfremur er það skýrt í stefnunni að standa eigi við allar alþjóðlegar skuldbindingar í þeim efnum sem Íslendingar hafa þegar skrifað undir. Ég er hins vegar á því persónulega að rammi alþjóðlegra skuldbindinga sé allt of þröngur og set miklar og alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð Útlendingastofnunar og beitingu hennar á Dyflinarreglugerðinni. Ég er þannig þenkjandi að mig langar að taka á móti miklu fleirum. Mörgum finnst það óraunhæft og barnalegt en það er mín sannfæring.  Í svo ríku og strjálbýlu landi ætti hins vegar að vera nóg pláss og bjargir til handa fólki í nauð.  Um leið og Íslendingar sætta sig ekki lengur við stjórnvöld sem tala máli örfárra hagsmunaaðila og fjármagnseigenda getum við búið öllum, innfæddum sem og innfluttum mannúðlegt og réttlátt samfélag.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu