Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Extreme chill skólinn

Eftir að hafa verið á uppáhalds tónlistarhátíðinni minni á Hellisandi fyrr í ágúst og upplifað umsátur, einelti og ofbeldi af hálfu lögreglu þar hef ég verið að velta ýmsu fyrir mér. Ég ætla ekki að fara að telja upp það sem gerðist þarna, enda hefur mjög góð vinkona mín gert það í frábærum pistli sem birtist í Kvennablaðinu fyrir stuttu sem hægt er að lesa hér: http://kvennabladid.is/2015/08/13/ofbeldi-logreglunnar-a-extreme-chill-festival/

Ég stóð sem sagt vaktina með henni og skipuleggjendum nær alla helgina og get staðfest allt sem kemur fram í pistlinum. Ég hitaði kaffi, smurði samlokur, var í miðasölu, tók til og ferjaði tónlistarmenn milli staða. Ég reyndi mitt besta til að styðja vinkonu mína sem hefur verið einn máttarstólpi þessarar frábæru tónlistarhátíðar síðastliðin 6 ár. En það var erfitt; ég sá að hún þurfti að hafa sig alla við að halda andliti gagnvart fólki vegna þess áhlaups sem lögreglan viðhafði að tilefnislausu. Og já, ég segi að tilefnislausu, því þarna var enginn í hættu eða neitt ofbeldi í gangi og hafði ekkert slíkt átt sér stað á hátíðinni frá upphafi.

Reyndar höfðu örfáir ofurölvaðir heimamenn í eitt skiptið reynt að hefja slagsmál inn í félagsheimilinu en skipuleggjendum tókst með lagni sinni, frið og kærleika að afstýra því. Lögreglan hafði fram að þessu alltaf litið við og verið í góðu samstarfi við skipuleggjendur. Mér finnst það sjálfsagt og gott að slíkir öryggisverðir séu til staðar þegar svo margir koma saman og ættu að vera til taks ef eitthvað kemur upp á og fólk þarf að geta leita til þeirra. Það var hins vegar öfugt farið á þessari hátíð. A.m.k. tvisvar veit ég til þess að gestir hátíðarinnar reyndu að leita til lögreglunnar vegna fólks sem var ofurölvi og þeir óttuðust að væri með áfengiseitrun. Einnig var hringt í lögreglu og bent á nokkra aðila sem voru ölvaðir keyrandi á bifhjólum í bænum. Í hvorugt skiptið taldi lögreglan ástæðu til að sinna útkalli, enda upptekin við annað.

Ég er eins og vinkona mín ekki týpa sem er fylgjandi fíkniefnaneyslu almennt eða því að brjóta lögin. Ég er ekki fylgjandi því að fólk sé í neyslu með ung börn og finnst að sjálfsögðu að samfélagið eigi að grípa strax inn í slíkt. Þá breytir engu hvort neyslan samanstendur af löglegum eða ólöglegum vímugjöfum. Ég er ekki týpan sem trúir því að allar löggur séu vondar manneskjur og reyni allt til að gera borgurum lífið leitt. Ég er samt manneskja sem samþykki alls ekki einelti, fordóma og ofbeldi og reyni stöðugt að vinna gegn því með ýmsum ráðum. Ég er manneskja sem vil veita stórnvöldum í sem víðustum skilningi aðhald og málefnalega gagnrýni. Ég er ekki týpan sem þegi yfir ofbeldi.

Ég er samt manneskja sem er fylgjandi afglæpavæðingu fíknisjúkdómsins og trúi því að fíklum skuli sýnd sú virðing sem allar manneskjur eigi skilið og að þeir fái viðeigandi heilbrigðisaðstoð eins og allir aðrir sjúklingar. Enda var ég í framboði fyrir flokk til þingkosninga 2013 sem hafði þá stefnu. Ég trúi að það sé ekki eingöngu mannúðlegt gagnvart einstaklingum heldur líka þjóðhagslega hagkvæmt þegar uppi er staðið. En það er annað mál.

Ég starfa sem framhaldsskólakennari og hef gert í 14 ár og langar að skoða þessa atburði aðeins í því samhengi og gera smá samanburð. Því kannski eru löggur og kennarar ekki í svo ólíkum störfum þegar uppi er staðið. Bæði starfa fyrir ríkið og eiga í grunninn að stuðla að öryggi, vellíðan og þroska samborgara sinna og vera til staðar ef þeir þurfa aðstoð. Þetta á einnig við um fleiri stéttir. Þetta er mikil ábyrgð.

Ég velti fyrir mér hvort ég kæmist upp með að standa við hurð skólastofunnar í byrjun annar og stoppa þar vel valda nemendur sem væru kannski með sítt hár, með gat í vörinni, derhúfu, buxur á hælunum eða eitthvað álíka og segja: þið skuluð ekkert vera að hafa fyrir því að mæta hér neitt meira hér; ég veit að þið eigið eftir að mæta illa, trassa að gera verkefni og sinna þessu illa svo þið getið alveg eins hætt strax. Ég velti fyrir mér hvað myndi gerist ef ég myndi taka nemanda upp á töflu sem ekki hefði ekki unnið heimavinnu eða angaði af reykingalykt eftir frímínútur og myndi segja honum að klæða sig úr fyrir framan bekkinn eða niðurlægja hann með öðrum hætti. Ég velti fyrir mér hvað myndi gerast ef ég leyfði mér að gramsa í töskum nemenda eða vösum eftir bókum, síma eða öðru sem MÉR fyndist að ætti að vera annars staðar. Ég velti líka fyrir mér hvað myndi gerast ef nemandi kæmi til mín til að útskýra aðstæður sínar í von um skilning og ég myndi hvorki hlusta á hann né horfa í augun á viðkomandi og gera að öðru leyti lítið úr hans aðstæðum. Væri það boðlegt og í lagi? Gæti ég með stolti sagst vera starfi mínu vaxin? Ég held ekki.

Ég veit alveg að í öllum starfsstéttum eru og hafa verið einstaklingar sem hefðu kannski átt að vera hættir eða mátt velja sér aðra starfsgrein. En heilt yfir held ég að flestir séu að gera sitt besta í góðri trú um að þeir séu að láta gott af sér leiða. Kannski er það barnalegt af mér. Ég geri mér líka grein fyrir að þessi samlíking er ekki fullkomin. En ég veit það eitt að ég væri ekki stoltur kennari ef ég hagaði mér með þessum hætti sem ég lýsti hér að ofan. Mér finnst líka að slíkur kennari ætti ekki að fá að starfa mikið lengur. Ég tel að löggan á Vesturlandi hafi hagað sér á svipaðan hátt gagnvart gestum hátíðarinnar. Ég tel að ef lögreglan myndi leita á nær öllum gestum annarra tónleika, útihátíða, skemmtistaða og svo framveigis myndi hún finna hlutfallslega alveg jafn mikið magn af fíkniefnum. Hugsanlega yrði samsetningin aðeins önnur en þarna en fjöldinn yrði að öllum líkindum mjög svipaður.

Fjöldinn skiptir samt engu máli að mínu mati. Það sem skiptir máli er að þarna var viðhaft tilefnislaust ofbeldi, vanvirðing og einelti gagnvart ákveðinni tegund tónlistar og borgurum sem höfðu flestir ekki þekkingu til að bera hönd fyrir höfðuð sér. Það sem gerðist á þessari hátíð var ekki í lagi. Þarna var ekki verið að stuðla að öryggi eða vernda borgara með neinum hætti. Ég ætla að vona að yfirvöld skoði með hlutlausum hætti þá starfshætti sem fóru fram þarna. Rétt eins og ég vona að kennari sem beitir nemendur sína samskonar ofbeldi og vanvirðingu verði látinn fara.


 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu