Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Er ég ekki bara að sóa atkvæði mínu?

Er ég ekki bara að sóa atkvæði mínu?

Hvers vegna í ósköpunum ætti ég að kjósa litla flokkinn sem mælist yfirleitt í kringum 2% í skoðanakönnunum? Er ég ekki að sóa atkvæði mínu? Miðað við skoðanakannanir eru þeir ekki að ná inn manni og í seinustu kosningum fengu þeir bara um 3,5% atkvæða. Aðalmarkmiðið með þessum kosningum er líka að koma sérhagsmunastjórninni frá og það er óþolandi að það séu svona margir flokkar á vinstri vængnum eða velferðarflokkar sem virðast vera með sömu stefnuna. Hvaða smákóngapólitík er þetta eiginlega? Þetta er að skemma möguleikann á að koma stjórninnni frá. Af hverju sameinast ekki allir þessir nýju litlu flokkar? Hefurðu hugsað eitthvað á þessa leið upp á síðkastið? Ertu alveg að gefast upp á því að það sé einhver möguleiki á að sanngjörnu samfélagi fyrir almenning? Langar þig helst að stinga af til Bahamaeyja og þurfa ekki að hlusta á þetta framboðskjaftæði og hvernig sumir flokkar lofa og lofa öllu sem þeir hafa svikið áður?

Ég skal segja ykkur af hverju ég býð mig fram með litlum réttlætisflokki en ekki eitthvað af eldri velferðarflokkunum. Stærsta ástæðan fyrir því að ég er yfirleitt að standa í þessu er að mér blöskrar spillingin í íslensku stjórnkerfi og vil gera mitt til að reyna að breyta því. Ég er hugsjónamanneskja og vil réttlátt og mannúðlegt samfélag fyrir allt fólk í landinu. En ég er líka raunsæismanneskja og við erum með raunhæfar leiðir til að fjármagna velferðina sem við boðum. Hér er um að ræða heiðarlegt hugsjónafólk sem hefur unnið með ýmsum hagsmunasamtökum almennings (Samtökum Leigjenda, Neytendasamtökunum, Sjálfsbjörg ofl.) sem er tilbúið að berjast fyrir eftirsókarverðara samfélagi okkur öllum til handa. Ennfremur vegna þess að ég er ósátt við hvernig áður skilgreindir velferðarflokkar gripu ekki tækifærið til að knýja í gegn nýja stjórnarskrá fyrir alþingiskosningar 2013 og kusu ekki á móti búvörusamningum á dögunum svo fátt eitt sé nefnt.

Ég er hrifin af öllum þeim sem þora að vinna að heilindum fyrir mannúð og jafnrétti. Ég er líka hrifin af róttæku fólki sem þorir að ráðast að rótum vandans í spilltu samfélagi og er óhrætt við að kollvarpa kerfinu þannig að það þjóni almenningi en ekki bara örfáum fjármagnseigendum. Því miður eru ekki nógu margir af þekktum stjórnmálamönnum sem uppfyllir þau skilyrði. Þess vegna verðum við að vera óhrædd við að hleypa nýju fólki að. Stjórnmálamenningin á Íslandi er einfaldlega siðlaus og valdhafar hafa komist upp með að gera siðlausa hluti eins og Panamaskjölin báru vott um. Hvers vegna í ósköpunum þrýstu velferðarflokkarnir okkar ekki á nýja stjórnarskrá þegar þeir gátu?! Valdhöfum er skýlaust gert kleift að vinna að sérhagsmunum fjársterkra hópa sem eru það fyrst og fremst vegna arðráns þeirra á almenningi í gegnum auðlindir og bankana. Það er eitthvað virkilega bogið við hagstjórn Íslands og hefur verið í áratugi. Fólk er bara orðið svo samdauna þessu að það heldur áfram að finna leiðir til að réttlæta ruglið. Svona eins og alkahólistinn sem reynir að réttlæta eigin drykkju eða gleðikonan sem reynir að telja sjálfum sér og öðrum um að henni finnist þetta frábær leið til að fjármagna háskólanám og að hún sé í raun mjög hamingjusöm. Verðtrygging skulda án verðtryggina launa? Í alvöru? Staðreyndin er sú að við erum að borga íbúðirnar okkar a.m.k. 5 sinnum og leigumarkaðurinn er í ruglinu og þessu er bara leyft að vera svona. Einhver lofar að byggja þúsund íbúðir og annar lofar okkur pening svo við getum keypt okkur inn í þetta svikamyllukerfi? Vill fólk ekki bara senda alla spilafíkla með milljón til Las Vegas og réttlæta það með einstaklingsfrelsi og stöðugleika? Ok, ég skal aðeins róa mig í dramatísku samlíkingunum.

Við erum með raunhæfa lausnir sem bæði sérfræðingar mæla með og sem hafa reynst vel í öðrum löndum í allri hagstjórn. Dögun vill stofna samfélagsbanka, þar sem fólk getur stundað einföld bankaviðskipti án þess að vera borga undir áhættufjárfestingar annarra. Arður samfélagsbanka fer allur aftur til samfélagsins (það er alveg skýr lagarammi um svona banka). Við erum ekki að finna upp hjólið með þessu. Þetta er vinsælasti banki meða almennings í Þýskalandi og hefur tíðkast í Svíþjóð og einstökum fylkjum Bandaríkjanna um áratuga skeið. Dögun er líka með lausnir í framfærslu- og húsnæðismálum. Lögfesting framfærsluviðmiða sem velferðarráðuneytið reiknar á hverjum tíma eru lágmarksgreiðslur sem nokkur manneskja á að fá frá ríkinu. Hvort sem það heita laun, bætur, námslán, fæðingarorlof, lífeyrir eða eitthvað annað. Lausnirnar í húsnæðismálunum eru fyrst og fremst að búa í haginn fyrir heilbrigðan leigumarkað eins og tíðkast í flestum Evrópulöndum þar sem óhagnaðardrifin leigusamvinnufélög bjóða trygga langtímaleigu fyrir viðráðanlegt verð. Fólk getur þá safnað sér fyrir íbúð ef það vill. Aðrir vilja kannski bara ferðast um heiminn og sleppt því að fjárfesta í steypu. Við styðjum nefnilega alvöru einstaklingsfrelsi en ekki gervifrelsi til að vappa um í skuldafangelsi kapítalismans. 

Lífsgæði hafa dregist saman hér hjá ungu fólki vegna þess að hér hafa verið við völd þeir sem tala máli sérhagsmuna og en ekki almennings. Hópar eins aldraðir, námsmenn, öryrkjar og fleiri hafa dregist aftur úr í lífsgæðum og kannast ekki við það góðæri sem stjórnvöld reyna að telja okkur trú um að sé í gangi. Við í Dögun munum ekki gefast upp á að vinna fyrir réttlátu samfélagi bæði nú og fyrir komandi kynslóðir. Enda komum við af gólfinu eða úr grasrótinni, úr félaga – og hagsmunsamtökum almennings (NGO’s) en erum ekki atvinnupólitíkusar. Ísland hefur alla burði til að veita hágæða heilbrigðisþjónustu til allra landsmanna óháð efnahag. Við höfum efni á því og við erum meira segja með raunhæfar lausnir til að fjármagna það (m.a. með breytingum í hagstjórn og auðlindastjórn). Hins vegar mun Dögun ekkert skipta sér af fólki sem vil stofna eigið fyrirtæki og vill veita smærri sjálfbærum fyrirtækjum réttlátt rekstrarumhverfi.En Dögun styður ekki að einkarekin velferðarþjónusta rýri hina almennu eins oghefur viðgengist. Þegar við náum að breyta fiskveiðistjórnunarkerfinu þannig að allir njóti góðs af, bæði sjómenn og almenningur, með því að setja allan fisk á markað og leyfa frjálsar veiðar á króki svo eitthvað sé nefnt munum við hafa efni á ýmsu. Ég veit að allir aðrir velferðarflokkar lofa líka ókeypis heilbrigðisþjónustu og arð til fólksins af auðlindum en leiðin að bjóða upp allar veiðiheimildir í núverandi kerfi er galin. Það mun leiða til enn meiri samþjöppunar auðs hjá stórum fyrirtækjum sem eru að eyðileggja íslenskan samkeppnismarkað á ýmsum sviðum. Það er ekki gott fyrir neinn. Svo við styðjum líka raunverulega frjálsa samkeppni (en ekki frelsi einokunarfyritækja til að arðræna almenning).

 Við teljum menntun og menningu mikilvæga í sjálfu sér og vera hluti grunnstoða að góðu samfélagi. Við viljum bæta kjör kennara stétta strax (sem er ekki teygjanlegt hugtak í mínum huga). Jafnrétti til náms er óáfrávíkjanleg krafa hjá okkur og viljum við m.a. endurskipuleggja verkaskiptinu milli ríkis og sveitarfélaga og hækka svokölluð nemendagjöld til að tryggja að misvelstöndug sveitarfélög geti boðið ókeypis mat og skólagögn svo dæmi sé tekið. Dögun er á móti nýju LÍN frumvarpi og telur að það verði að tryggja með lögum að nám sé ekki skuldagildra. Við leggjum til einnig hvetjandi kerfis til að halda ungu menntuðu fólki á landinu. Við viljum að þriðjungur námslána falli niður (eða breytast í styrk) ef fólk ynni 10 ár í störfum hérlendis sem kæmu almenningi til góða (ss. Í mennta- og heilbrigðiskerfi). Ég tel listina einnig mjög mikilvæga fyrir samfélagið og finnst að yfirvöld eigi að hlúa að öllum listgreinum. Sjálf gerðist ég plötusnúður 42 ára gömul og söng í kór í 20 ár auk þess að hafa dansað af ástríðu frá því að ég man eftir mér.Við erum ennfremur grænn flokkur sem styður sjálfbærni í öllu sínu veldi og mun ekki linna látum fyrr en mengandi stóriðjur eru farnar að borga veglegt verð fyrir rafmagn ætli þær að vera hér áfram. Forgangsatriði er að garðyrkjubændur og aðrir sem stunda sjálfbæra framleiðslu fái ódýrt rafmagn. Mig langar að minna fólk á að forsenda þess að hér þrífist samfélag sé að við verndum jörðina okkar og þrátt fyrir að það sé gott að við skyldum hafa fullgilt Parísarsamkomulagið tel ég okkur geta gert enn betur. Ég er líka hneyksluð á því að það skildi hafa tekið 9 ár að fullgilda samning Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðra. Ég mun gera allt til að koma í veg fyrir slík mannréttindabrot kæmist ég á þing sem sem og mínir flokksmenn. Við viljum líka standa við alþjóðlega saminga um mótttöku flóttamanna og erum fjölmenningarlegur flokkur sem fagnar alþjóðlegri fjölbreytni. Sjálf myndi ég vilja breyta því hvernig Dyflinarreglugerðinni er beitt og er brjáluð yfir bráðabirgðaratkvæðinu við útlendingalög sem Alþingi var að samþykkja.

Dögun er stofnaður sem lýðræðisflokkur uppúr búsáhaldabyltingunni og vill auka beint lýðræði og gera 10% kjósendenda kleift að knýja fram þjóðaratkvæði. Innganga í ESB og aðrar slíkar stórákvarðanir fara að sjálfsögðu í þjóðaratkvæði í svoleiðis flokki. Ég er virkilega sorgmædd yfir því að eldri velferðarflokkar nýttu ekki tækifærið að tryggja okkur nýja stjórnarskrá. Ég er sorgmædd yfir því að gamla valdakerfið á ítök sín þar og kemur í veg fyrir raunverulegar kerfisbreytingar. Þess vegna valdi ég m.a. að bjóða mig fram fyrir Dögun 2013 sem var til þjónustu reiðubúinn fyrir almenning án hagsmunatengsla við fjármagnseigendur.

Ekki láta skoðanakannanir stjórna þér. X-T er einfaldlega með langbestu hugmyndirnar. Það besta er að við erum líka með lausnir til að framkvæma þær. Gefðu okkur séns að komast á þing svo við getum verið með og unnið að réttlæti og mannúð fyrir allan almenning. Seinast vantaði okkur bara rúmt prósent upp á að við næðum inn manni. Við þurfum bara örlítið fleiri hugrakka til að fá alla vega að komast á blað. Við viljum vera þjónustufulltrúar almennings. 

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu