Þessi færsla er meira en 8 ára gömul.

Að reykja eða reykja ekki maríjúana – er það spurningin?

Að reykja eða reykja ekki maríjúana – er það spurningin?

Umræða um lögleiðingu fíkniefna hefur verið áberandi síðastliðin misseri. A.m.k. tveir stjórnmálaflokkar voru með afglæpavæðingu fíknisjúkdómsins á stefnuskrá sinni til Alþingiskosninga 2013; Dögun og Píratar. Hafa ber í huga að afglæpavæðing fíknisjúkdómsins hefur ekki endilega neitt með lögleiðingu fíkniefna að gera.

Afglæpavæðing styður vissulega við þá hugmynd að fíklar sem eru með neysluskammta á sér séu ekki meðhöndlaðir sem glæpamenn, þeim sé boðin aðstaða til neyslu (þá er aðallega verið að tala um þá sem sprauta fíkniefnum í æð) og hreinar nálar. Fyrst og fremst snýst afglæpavæðing um að fíknisjúkdómurinn sé viðurkenndur sjúkdómur (en hann er flokkaður með öðrum geðsjúkdómum samkvæmt bæði bandaríska kerfinu DSM5 og því evrópska ICD 10) og að fíklum sé boðin heilbrigðis- og félagsleg þjónusta eins og öðrum sjúklingum. Afglæpavæðing snýst auðvitað líka um mannvirðingu og kærleika en hún er einnig þjóðhagslega hagkvæm vegna þess að hún minnkar glæpi tengda neyslu, minnkar sprautunálar á förnum vegi og eykur líkurnar á að fólk sem hefur náð botni og vill leita sér hjálpar geri það án þess að mæta fyrirlitningu samfélagsins.

Vissulega eru margir sem eru hlynntir afglæpavæðingu fylgjandi lögleiðingu líka; flestir leggja áherslu á „veikari“ efni eins og maríjúana enn sumir ganga lengra og vilja lögleiðingu allra fíkniefna. Ég ætla ekki að taka afstöðu til lögleiðingar hér. En ég lít samt sem á áfengi sem fíkniefni, eins og hver önnur efni sem breyta vitundarástandi einstaklings, enda áfengisfíkn hér á landi gífurlega útbreidd og alvarlegt vandamál. Margir sem tala fyrir lögleiðingu eru óþreytandi í að pósta greinum og rannsóknum um hvað maríjúana er hollt og gott og geti nýst til lækningar á ýmsum kvillum ásamt því að geta nýst til framleiðslu á ýmiskonar varningi eins og fötum o.fl. Margt af því er rétt en greina verður það að reykja jónur á hverjum degi frá því að nota unnar olíur til verkjastillingar krabbameinssjúklinga eða annarra verkja. Að reykja jónur á hverjum degi er ekki hollt neinum frekar en það að drekka á hverjum degi og því fylgja ýmsar áhættur. Rannsóknir hafa sýnt að það að reykja maríjúana á hverjum degi eykur líkurnar á geðrofseinkennum ásamt öðrum geðrænum einkennum þunglyndis og kvíða. Sama á við um neyslu áfengis í miklu magni.

Mér dauðleiðist alla vega þegar fólk þarf að að skipa sér í svart/hvítt fylkingar. Mér finnst spurningin um afglæpavæðingu ekki snúast um það að vera svo rosalega ,,líbó“ og vilja endilega að fólk sé að reykja jónur daginn út og inn. Mér finnst hún snúast um að viðurkenna fíkn sem sjúkdóm og sýna þeim sjúklingum virðingu og bjóða þeim upp á heilbrigðis – og félagsþjónustu eins og öllum sjúklingum í stað þess að líta á þá sem glæpamenn. Það segir sig sjálft að meiri líkur eru á að í þannig umhverfi leiti fólk sér aðstoðar. Spurningin er því ekki hvort við viljum eða viljum ekki reykja maríjúana. Spurningin er hvort við viljum heilbrigt samfélag sem horfist í augu við vandamál sín og finnur lausnir sem sýnir fólki sínu virðingu og sé tilbúið að rétta þeim hjálparhönd sem þess þurfa.


 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni