Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Við drepum og ofsækjum þá sem vilja breyta heiminum til hins betra

Við drepum og ofsækjum þá sem vilja breyta heiminum til hins betra

Hafið þið tekið eftir því að við lifum í heimi þar sem gott fólk er ofsótt, fangelsað eða myrt, en siðblindir fúskarar eru verðlaunaðir og dýrkaðir fyrir að arðræna okkur og kúga? Martin Luther King, myrtur. Malcom X, myrtur. Chelsea Manning, fangelsuð. Julian Assange, ofsóttur og fangelsaður. Marielle Franco, myrt. En það kæmi mörgum okkar lítið á óvart ef Julian Assange yrði myrtur fljótlega, það er eiginlega bara tímaspursmál hvenær Breskum og Bandarískum stjórnvöldum tekst að myrða hann með pyntingum sínum og einangrun. Fyrir að afhjúpa stríðsglæpi vesturlanda og spillingu. Það er víst glæpur að stunda blaðamennsku ef þú ert Julian Assange.

Spáið í því. Þetta er fólkið sem vill breyta heiminum, sem talar fyrir friði, réttlæti, og kærleika. En við drepum þetta fólk. Á meðan setjum við á stall fádæma lúsera sem hafa ekkert gert nema auðga sjálfan sig og vini sína. Svindlað og svikið sér leið á toppinn, án þess að hafa nokkru sinni tekið afstöðu eða lyft litla fingri til að hjálpa þeim sem standa höllum fæti. Ekki raunverulega. En ég ætla ekki að nefna nein nöfn, það væri óskynsamlegt af mér. Ekki ef ég ætla að eiga mér einhverja von um árangur á markaðstorgi vinnuaflsins. Þá er betra að segja sem minnst.

Af einhverjum ástæðum ákváðum við að verðlauna og dýrka fólk sem gerir bókstaflega hvað sem er til að öðlast völd, frægð og frama, og helgar sig auðsöfnun á kostnað annara, samfélagsins og náttúrunnar. Það eru skilaboðin sem við sendum börnunum okkar. Það er æðsta dygð okkar að vinna að persónulegum frama og stöðu. Hinsvegar er samfélaginu eiginlega sama um þá sem hafa helgað sig baráttunni fyrir bættri félagslegri stöðu annars fólks. Fátækra, aldraðra, öryrkja, hælisleitenda. Þetta fólk er eignilega ekki til. Fjármálaráðherra hefur ekki tíma fyrir fólk sem ekki hjálpar sér sjálft. Það eru engir sjónvarpsþættir sem hampa fólki sem hjálpar öðrum. Ekkert Silfur Egils fyrir verkafólk eða einstæðar mæður á leigumarkaði. Íslandsbanki er ekki að skipuleggja neinar ráðstefnur til að leysa vanda venjulegs fólks. Það er enginn þjóðarsjóður til að tryggja fátækum íslendingum þak yfir höfuðið. Það er ekki til nein geimferðaráætlun fyrir þetta fólk. Ekki nein Marshalláætlun til að útrýma fátækt. Við lifum í heimi þar sem eigingjarnir og sjálfelskir fávitar komast upp með allt, en fólk sem berst fyrir auknu frelsi og réttindum annarra er ofsótt, fangelsað og myrt. Stundum aðeins til þess að senda okkur skilaboð. Skilaboð um að reyna þetta ekki. Ekki reyna að breyta heiminum. Við sem trjónum á hátindi hins frjálslynda kapítalíska kerfis viljum ekki breyta neinu sem skiptir máli svo ekki reyna það.

Frelsum Julian Assange.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni