Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Valdið til fólksins—Annars breytist ekkert

Valdið til fólksins—Annars breytist ekkert

Kapítalisminn er ósamræmanlegur lýðræðinu og leiðir óhjákvæmilega til auðræðis. Það er ekkert virkt lýðræði í raun, kvótaþegar og milljarðamæringar ganga um og múta og fá auðlindir samfélagsins á silfurfati en almenningur fær ekkert af því sem hann biður um: mannsæmandi laun eða húsnæðiskerfi, aukið fjármagn til heilbrigðiskerfisins, nýja stjórnarskrá, menntun án endurgjalds, sanngjarnan arf af auðlindum, banka sem þjóna fólki en ekki fjármagni, og svo mætti lengi telja.

Spilling er ekki bara spilling. Spilling er kerfislægur vandi sem kapítalisminn skapar af stórum hluta. Spilling er aðeins einkenni en ekki sjúkdómur. Kapítalisminn setur öll völd í hendur örfárra milljarðamæringa sem eiga fyrirtækin og allan auðin í samfélaginu. Aðeins 26 milljarðamæringar eiga meira en fátækari helmingur mannkyns. Hvernig dettur okkur í hug að réttlátt samfélag geti virkað þegar kerfið útdeilir valdinu og auðnum með þessum hætti?

Sósíalistar eru með lausn á vandanum og hún heitir lýðræði. Það þarf að færa völdin til, úr höndum kvótakónga og milljarðarmæringa og í hendur fólksins. Sósíalismi hefur líka þróast síðustu áratugi. Sósíalistar vilja ekki ríkisvæða allt samfélagið heldur lýðræðisvæða það. Við viljum lýðræðisvæða lífeyrissjóðina og fjármálakerfið og sósíalistar vilja lýðræðisvæða efnahagskerfið og fyrirtækin.

Því ef við ráðumst ekki að rót vandans, hvernig kapítalisminn setur öll völd í hendur örfárra ólígarka og milljarðamæringa, mun ekkert breytast til lengri tíma litið. Það mun engu breyta að kjósa nýja flokka eða fólk sem segist aðeins ætla að stjórna betur eða ráðast gegn spillingu en ekki að hrófla við sjálfu kerfinu, kapítalismanum.

Sósíalismi er ekki eitthvað gamalt sem hefur verið reynt heldur eru sósíalistar að tala fyrir nýjum og raunverulegum lausnum á vanda samfélagsins. Og tíminn er að renna út, kapítalisminn býr ekki bara til spillingu, ójöfnuð og óréttlæti, heldur er hann langt kominn með að eyðileggja umhverfið og binda enda á líf á jörðinni.

Sósíalistar eru að leggja fram nýjar lausnir en ekki gamlar og staðnaðar lausnir sem ekki taka á rót vandans. Sósíalistar skilja að til þess að ná fram raunvereglum breytingum þarf að útvíkka lýðræðið og færa völdin frá hinum fáu til hinna mörgu. Færa völdin til fólksins.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu