Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Sýnum spillingunni kurteisi

Sýnum spillingunni kurteisi

Viðbrögð hægrisins við hressilegri ræðu Braga Páls á Austurvelli hafa að mestu verið á einn veg og það er að kalla ræðuna hatursorðræðu gegn Sjálfstæðisflokknum. Og fyrirsjánlega alveg án þess að það fylgi með rökstuðningur eða útskýringar. Í ræðunni rifjar Bragi Páll upp mörg spillingarmál flokksins frá síðustu árum og kallar flokkinn krabbamein og spyr hvort það sé tilviljun að öll helstu spillingarmál síðustu ára séu honum nátengd.

Fyrir mér er þetta ekkert flókið. Það er alls ekki hatursorðræða að segja mestu valdastofnun samfélagsins vera krabbamein. Það er ekki hatursorðræða þegar um ræðir sjálft musteri spillingarinnar eins og Atli Þór Fanndal kallaði flokkinn í Silfrinu um daginn. Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um vald hinna ríku og hefur haft tögl og hagldir á samfélaginu, alltaf. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki einhver minnihlutahópur sem þarfnast verndar.

Það er augljóslega ekki hatursorðræða að fólk noti slíkt myndmál til þess að gagnrýna flokkinn sem hefur gert hvað mest til þess að grafa undan lýðræðinu í landinu með framferði sínu. Ég finn heldur engin dæmi um að hugtakið hafi verið notað yfir orðræðu gegn stjórnmálaflokki. Við erum að tala um flokkinn sem hefur mokað undir útgerðina og viðhaldið því arðránskerfi sem er við líði. Þetta er flokkur auðmanna, kapítalista, og útgerðarmanna, sem árlega stinga milljörðum í eigin vasa, milljörðum sem ættu með réttu að renna til þjóðarinnar. Þetta gerir auðstéttin í skjóli Sjálfstæðisflokksins og annara flokka sem líta á yfirráð flokksins yfir þjóðinni sem óbreytanlegt ástand.  Þetta er líka flokkurinn sem hefur hækkað gríðarlega skatta og gjöld á lágtekjufólk og skilið öryrkja og eftirlaunafólk eftir. Þetta er flokkurinn sem lagði niður verkamannabústaðakerfið og sleppti lausum ísköldum og grimmum veruleika markaðarins á lágtekjufólk. Stórir hópar í samfélaginu skrimta á svo lágum launum að þau duga varla fyrir mannsæmandi lífi. Sjálfstæðisflokkurinn er sá hópur í samfélaginu sem stendur í vegi fyrir því að hérna sé hægt að byggja upp alvöru velferðarsamfélag. Þetta er flokkurinn sem ítrekað hefur hunsað lýðræðið þegar það hentar honum. Hvort sem það sé að hunsa heila þjóðaratkvæðagreiðslu eða þegar 85 þúsund manns skrifa undir áskorun þess efnis að setja meira fjármagn í heilbrigðiskerfið okkar. Fjárskortur sem ógnar lífi fólks. Þetta er flokkurinn þar sem formaðurinn var í Panamaskjölunum og er nú fjármálaráðherra. Þetta er flokkurinn sem tengist öllum helstu spillingarmálum síðustu ára.

En það eru ekki bara hægrimenn sem tala um hatursorðræðu gegn Sjálfstæðisflokknum. Það gerir líka rithöfundurinn Jón Hallur Stefánsson og Egill Helgason tekur undir. Talað er um að það eigi að sýna flokknum kurteisi og að ræða Braga hafi ekki verið falleg. Spillingin er heldur ekki falleg, arðránið er ekki fallegt. Fátækt kapítalismans er ekki falleg. Sveltistefnan er ekki falleg. Niðurskurðarstefnan er ekki falleg. Hættum þessu, þessi gagnslausa virðing fyrir auðstéttinni er ekki falleg né vænleg til árangurs. Því ef svo væri værum við ekki öskrandi og hrópandi í enn eitt skiptið niður á Austurvelli.  

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu