Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Sósíalistar hafa náð fram flestum þeim réttindum og lífskjörum sem við búum við

Sósíalistar hafa náð fram flestum þeim réttindum og lífskjörum sem við búum við

Sósíalismi snýst um að þróast áfram, sósíalistar trúa að hægt sé að skapa betra og réttlátara samfélag.

Fólk sem hefur kallað sig sósíalista, anarkista og kommúnista er fólkið sem hefur með baráttu sinni náð fram flestum af þeim réttindum og lífskjörum sem við búum við í samfélaginu. Það er nákvæmlega vegna þess sem þessi orð "sósíalisti" og "kommúnisti" hefur verið notuð gegn okkur. Reynt hefur verið að breyta merkingu þeirra og sósíalistar gerðir að einhverju til að óttast. Sósíalistar hafa verið ofsóttir og sósíalisminn skrímslavæddur af hægrinu og atvinnurekendum sem hafa hag af því að viðhalda kapítalismanum. Við eigum ekki að snúa baki við sögunni eða orðunum okkar bara vegna þess að auðvaldinu hefur tekist að gera fólk hrætt við þau. Það væri uppgjöf. Það er uppgjöf að afneita hugmyndafræðinni sem hefur fært okkur alla þessa sigra, það er uppgjöf að hörfa inn á miðjuna og gangast við kapítalismanum og halda að það sé raunverulega hægt að breyta einhverju sem skiptir máli með smáskammtalækningum og undirgefni. Það er misskilningur að það sé hægt að beisla kapítalismann. Það er ekki raunverulega hægt eins og sagan sýnir okkur. Enda hefur ójöfnuður og misskipting á vesturlöndum aukist verulega síðustu áratugi og völd hinna ríku hafa sjaldan verið meiri.

Við þurfum að vera dugleg að rifja upp söguna. Ég var að lesa um Mother Jones, konuna sem barðist nærri allt sitt líf gegn barnaþrælkun í Bandaríkjunum.  Í þá daga, í byrjun síðustu aldar, var stór hluti barna undir sextán ára aldri í erfiðisvinnu. Mother Jones, sem hafði misst börnin sín og eiginmann úr veikindum einhverskonar, leiddi mótmælagöngu barna að heimili Theodore Roosevelt þáverandi forseta. Börnin voru með skilti sem stóð á: 

"Við viljum fara í skólann, ekki í námurnar." 

Börnin höfðu á þeim tíma ekki neitt frelsi til að leika sér, ekkert frelsi til að vera börn, heldur voru látin vinna myrkranna á milli. Auk þess sem mörg börn höfðu lent í vinnuslysum og vantaði á þau fingur og útlimi. Það var ekkert eftirlit á þessum árum. Auðstéttin í Bandaríkjunum notfærði sér vinnuafl barna til að  auka eigin auð. Það kostaði gríðarlega baráttu og fórnir verkafólks og sósíalista til að breyta þessu. 

Mother Jones er aðeins ein af þúsundum sósíalista sem börðust fyrir efnahagslegu réttlæti á fyrri hluta síðustu aldar í Bandaríkjunum. Á tímum þar sem sósíalistar og kommúnistar stjórnuðu verkalýðsfélögum þar í landi. Á þeim tíma fyrir McCarthy-tímabilið, áður en sósíalisminn var gerður útlægur úr Bandarísku samfélagi. Mother Jones starfaði í áratugi innan verkalýðsfélaga og sósíalistaflokksins og skildi að til þess að breyta þurfi harða baráttu, borgaralega óhlýðni og fórnir. 

Sósíalismi hefur alltaf verið farvegur og hreyfing fólks sem berst fyrir auknu réttlæti í samfélaginu. Sósíalismi er andstæðan við kapítalisma. Hugmynd um að hægt sé að byggja réttlátt samfélag þar sem allir geta lifað mannsæmandi lífi. Kapítalisminn er hinsvegar hugmynd um að lítill hópur fólks geti orðið óstjórnlega ríkur á kostnað samfélagsins. Frelsi innan kapítalismans snýst aðeins um frelsi þessa örsmáa hóps til að arðræna fólk og náttúruna. Frelsi sósíalismans snýst um að allir geti notið frelsis, ekki bara sumir. 

Sósíalismi er ekki eitthvað gamalt eða eitthvað úrelt eins og hægrið vill stanslaust halda fram. Sósíalismi er bókstaflega mannréttindabarátta og réttlætisbarátta verkafólks og jaðarsettra hópa fyrir efnahagslegu og félagslegu réttlæti. Sósíalisminn er trúin á að það sé hægt að skapa slíkt samfélag. Hægrið hins vegar stefnir ekki þangað, trúir ekki að hægt sé að skapa réttlátara samfélag. Hægrið vill viðhalda ójöfnuðu, fátækt og óréttlæti í samfélaginu til að viðhalda auð og völdum hinna ríku.

Athugasemdir

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa grein.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni