Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Lúxusbátur stjórnmálastéttarinnar kemur með sjálfvirkum launahækkunum

Lúxusbátur stjórnmálastéttarinnar kemur með sjálfvirkum launahækkunum

Stjórnmálastéttin þráir samstöðu á meðan hún skilur  kvennastéttir og láglaunafólk eftir á hriplekum bát og neitar að kasta til þeirra björgunarhringnum. Í kapítalísku samfélagi eru aldrei allir í sama báti. Stéttastríð yfirstéttarinnar er alltaf í gangi.

Sumar stéttir fá sínar launahækkanir á færibandi án þess að þurfa að svo mikið sem lyfta litla putta. Það er engin furða að fólk sé alveg gapandi yfir fréttum dagsins. Þingmenn eru að skammta sér rúmlega hundrað þúsund á mánuði í launahækkanir. Afturvirkt. Þetta er ótrúleg ósvífni á meðan heilu kvennastéttirnar eru hundsaðar, stéttir sem eru að berjast við vírusinn, og eru án samninga. Fjármálaráðherra segir svo að þetta sé allt einhver misskilningur, að fyrir löngu hafi verið búið að ákveða þessar hækkanir, og meinar þá að þetta sé í lagi. Alveg eins og þegar laun hjúkrunarfræðinga lækkuðu um daginn koma Bjarni fram baðandi út höndunum og sagði þetta allt misskilning, launin væru ekkert að lækka, eða sko, hækkunin hafi aðeins verið tímabundin. Launin lækkuðu vissulega og það á meðan sama stétt er samningslaus og stendur í baráttu við vírusinn. Svokallað framlínufólk sem er að hætta lífi sínu til að hefta útbreiðslu veikinnar. En Bjarni og ríkisstjórnin fatta þetta bara ekki. Þeim finnst þetta bara allt í fína. Augljóslega. Annars væru þau ekki að láta þetta gerast.

„Stéttastríð yfirstéttarinnar gegn launafólki er nefnilega alltaf í gangi og það sem verra er, hún er að sigra“

Þetta ætti ekki að koma okkur á óvart. Þó þetta sé ótrúlega vitleysa. Stjórnmálafólk er ekki í neinum tengslum við venjulegt fólk. Það er ekki vegna þess að þingmenn hafi verið einangraðir inn á skrifstofum undanfarnar vikur heldur vegna þess að þeir hafa einangrað sig frá almenningi hægt og rólega, þróun sem hefur gerst á síðustu áratugum. Þetta hefur nefnilega ekki alltaf verið svona, í eina tíð sátu fulltrúar launafólks á þingi og börðust fyrir réttindum okkar. Á nýfrjálshyggjutímanum tókst valdstéttinni að sannfæra almenning um að slíkt væri á einhvern hátt óeðlilegt og það ætti að ríkja aðskilnaður á milli Alþingis og verkafólks. Á sama tíma eru hagsmunasamtök fyrirtækja og atvinnulífsins með beina línu inn í stjórnarráðið og fá nánast allt sem þau vilja. Frægt er þegar Viðskiptaráð grobbaði sig fyrir hrun af því að meirihluti tillagna sinna til stjórnvalda enduðu í lagasetningu. Stéttastríð yfirstéttarinnar gegn launafólki er nefnilega alltaf í gangi og það sem verra er, hún er að sigra. 

Mesta lygi síðustu vikna er að við séum öll í sama báti. Það er svo sannarlega ekki þannig. Heilu starfsstéttirnar hafa ekkert val um að vinna heima og einangra sig. Það eru helst kvennastéttir og láglaunafólk sem verða að taka mun meiri áhættu núna og vinna úti á meðal fólks. Vírusinn og kreppan kemur verst niður á þeim sem höllustum fæti standa fyrir. Það er alltaf þannig þegar vandamálin skella á okkur. Verkafólk sem vinnur í matvörubúðum og heilbrigðisstarfsfólk hefur ekkert val um að einangra sig heima. Þetta er fólkið sem heldur samfélaginu gangandi á meðan við hin bíðum af okkur storminn. 

En svo sjáum við auðvitað hverjir það eru sem eru jafnastir allra, þingmenn eru úr svo miklum tengslum við fólk að þeir sjá ekkert að þessu launahækkunum, alveg eins og margir þeirra sáu ekkert að launalækkun hjúkrunarfræðinga fyrir aðeins nokkrum dögum síðan. Þeir eru margir ófærir um að setja sig í spor launafólks. Við erum ekki öll í sama báti, við erum það svo sannarlega ekki. Bara alls ekki. Þeir stjórnmálamenn sem tala með þeim hætti gera það gegn betri vitund. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni