Þessi færsla er meira en 4 ára gömul.

Einkavæddir bankar vinna gegn hagsmunum almennings

Einkavæddir bankar vinna gegn hagsmunum almennings

Þremur árum áður en Sjálfstæðisflokkurinn einkavæddi bankana okkar, um síðstu aldamót, afnám Bill Clinton hin frægu Glass-Steagal lög úr gildi, lög  sem voru innleidd eftir Kreppuna miklu. Það var árið 1999. Lögin voru sett til að aðskilja starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingabanka svo eigendur bankanna gætu ekki lagt fjármuni almennings undir í áhættusömum gjörningum sem eiga meira skilt við fjárhættuspil en bankastarfsemi. Íslenska bankakerfið var galopnað og eigendum bankanna var veitt nánast algjört frelsi til að gera hvaða sem þeir vildu. Skuldirnar þöndust út á ógnarhraða og svo hrundi allt, aðeins sex árum seinna.  Núna vilja stjórnmálamennirnir endurtaka leikinn án þess að innleiða breytingar í ætt við Glass-Steagal, án þess að aðgreina spilavítisstarfsemi bankanna. 

Ein afleiðing hrunsins, sem við mættum kalla lán í óláni, var að bankarnir voru að mestum hluta komnir aftur í hendur ríkisins. Við eigum þessvegna tækifæri á því að þróa hérna á Íslandi bankakerfi sem þjónar hagsmunum fólks en ekki aðeins fjármagns. 

Spurningin sem við ættum að spyrja okkur er: hversvegna ættum við að leyfa einkaaðilum að eiga banka, fyrirbæri sem hefur vald til að búa til peninga með lánum, ef þeir geta ekki haldið sér á floti án þess að þeir ógni stöðugleika samfélagsins með reglulegu millibili? Kapítalisminn framleiðir kreppur og sú næsta er ekki svo langt undan. Spurningin er aðeins hvenær en ekki hvort.

Bankar voru ekki alltaf svona, það var tími þegar bankar tóku á sig áhættuna af því að lána peninga en létu ekki almenning og ríkið taka á sig fallið þegar eitthvað fór úrskeiðis. En svo hafa bankarnir unnið að því að afregluvæða fjármálakerfið í síauknu mæli, svo mikið að það má kalla glæpsamlegt. Bankanir áttu að fá að keppa á "frjálsum markaði" án eftirlits. Markaðurin myndi á einhvern óútskýrðan hátt skapa verðmæti fyrir samfélagið. Hið gagnstæða gerðist. Bankarnir snéru sér að því að fjárfesta í allskyns áhættustarfsemi og fjármálgjörningum sem hafa ekkert með raunhagkerfið að gera. Í stað þess að fjárfesta og veita litlum og meðalstórum fyrirtækjum lán þá fóru þeir að taka þátt í starfsemi sem vinnur gegn almenningi og hagkerfinu í heild sinni. Starfsemi sem sogar til sín fjármagn án þess að skapa nein raunveruleg verðmæti fyrir samfélagið.

Við eigum auðvitað að samfélagsvæða bankakerfið alveg eins og skólana og heilbrigðiskerfið. Við getum búið til fjármálakerfi sem þjónar hagsmunum almennings en ekki aðeins örfárra eigenda. Bankar eiga ekki að hámarka hagnað örfárra á kostnað almennings heldur þjóna almenningi. Það var raunar upphaflega hugmyndin með bankakerfi til að byrja með. Það er þessvegna afhjúpandi að sjá Vinstri-Græn, sem við ýmiss tækifæri kalla sig vinstriflokk , hafa algjörlega misst sjónar af hugmyndafræðinni og tekið upp stefnu hægrisins og nýfrjálshyggjunnar. 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni