Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Yfirvarp Bjarna þá og nú

Þegar Bjarni Ben og Sigmundur Davíð voru að mynda ríkisstjórn vorið 2013 létu þeir frá sér að staða ríkissjóðs væri mun verri heldur en þeir bjuggust við eftir vinstri stjórnina sem hafði lyft grettistaki við að hreinsa til eftir Hrun Sjálfstæðisflokksins. Þetta kynntu þeir svo á blaðamannafundi eftir að þeir mynduðu rikísstjórn. Um svipað leyti var kynnt umtalsverð lækkun veiðigjalda á útgerðina sem siglir í seðluðum sjó og mokar upp gróðanum, ferðaþjónustan fór niður í lægra skattþrep þrátt fyrir bullandi uppgang auk þess sem auðlegðarskattur og álversskattur féllu niður með tilheyrandi gúmmilaði handa ríka fólkinu

Út frá þessari „slæmu“ stöðu sem var greinilega ekki það slæm fyrst hægt var að lækka skatta á hina ríku, þá var farið í brjálaðan niðurskurð þar sem dauðasveit fjárlaganefndar gekk svo hart fram næstu árin að margar stofnanir eru komnar inn að beini í dag. Heilbrigðiskerfið varð líkt og margt annað illa fyrir barðinu á niðurskurðsveiflandi frjálshyggjuhnífnum og það þrátt fyrir að Bjarni Ben hafði lofað því í kosningabaráttuni að hlúa að því.  Staðan er grafalvarleg þar og það sama má segja um menntakerfið sem er búið að vera kerfisbundið eyðilagt í þeim tilgangi að búa til tvöföld kerfi.

Í kosningabaráttunni núna hreykti Bjarni Ben sér af því að staðan væri góð en vildi samt alls ekki á tímabilinu setja fé í heilbrigðiskerfi, menntakerfi, samgöngur og annað sem nauðsynlega þarf að gera því það þyrfti að „lækka skatta“ sem skilaði litlu til fólks eða með öðrum orðum hækka gjöld á „notendur þjónustunnar“ í nafni „kostnaðarvitundar sjúklinga“ í staðinn. Þetta fór fram um leið og hann hækkaði duglega matarskattinn á almenning sem átti greinilega að bæta upp tjón ríkissjóðs af lækkun veiðigjalda og fleira á hlaðborði hinna ríku.

Svo núna þegar formenn flokka sem hafa komið mun heiðarlegra fram og standa í stjórnarmyndunarviðræðum segja að staða ríkissjóðs sé mun þrengri og þau þurfi að finna leiðir til að geta staðið við loforðin um eflingu heilbrigðiskerfis með t.d. aukinni skattheimtu þá kemur Bjarni Ben fram og segir að þrengri staða ríkissjóðs sé ekkert annað en yfirvarp fyrir auknum sköttum.

Fyrirgefið en heldur maðurinn að allir séu eins og kjósendur Sjálfstæðisflokksins?

Nú ætla ég að trúa frekar Katrínu, Benedikt frænda Bjarna og öðrum um að staðan sé eitthvað þrengri og það vegna þess að þau hafa komið heiðarlega fram ólíkt Panamaprins Sjálfstæðisflokksins sem hefur flækt sig sjálfviljugur inn í Vafninga lyga og svika án þess að það bíti nokkuð á teflonhúð hans. Manni finnst því líklegt að bókhaldið hjá Bjarna Ben hafi farið í svipað „creative accounting“ eins og heimilisbókhaldið þar sem hann þóttist ekkert vita um að eiga aflandsfélag í vafasömum viðskiptatilgangi á skattaundanskotaeyjum.

Stjórnarmyndun 2013 og 2016 geta þó litið svipað út ef maður hugsar ekki betur út í þetta en eru samt tveir ólíkir hlutir þegar nánar er skoðað. Það er nefnilega svo að árið 2013 þá var sagt að staðan væri mun verri svo hægt væri að ganga í harðan niðurskurð í átt til einkavinavæðingar og tekjustofnar sem komu við kauninn á auðugum fyrirtækjum og fólki, lækkaðir eða lagðir af meðan ekki var gerð minnsta tilraun til að efna loforð um eflingu heilbrigðiskerfis.

Árið 2016 fóru allir flokkar fram með loforð um að efla heilbrigiðiskerfið og fleira sem Bjarni Ben hafði látið færa í sláturhús svo hægt væri að einkavinavæða. Þó nokkrir þeirra voru með það upp á borði að hækka þyrfti skatta, veiðigjöld o.fl. á hina aflögufæru svo hægt sé að gera þeim sem eru verr settir en ættarmót Engeyinga, auðveldara fyrir að fá læknisþjónustu og menntun r. Nú er talað um það í stjórnarmyndunarviðræðum að staðan sé þannig að hækka þurfi e.t.v. skatta á hina aflögufærustu til að geta veitt betri þjónustu í stað þess að halda henni í svipuðu horfi eða skera niður enn frekar annars staðar.

Ég veit hvort ég myndi velja en á endingu er þetta alltaf spurningin um hvar skattarnir eru sóttir.

Og við vitum öll hverjir hafa það mest og best en leggja samt hvað minnst til samfélagsins.

Þeir sem eiga aflandsfélög og ástunda skattaundanskotabrellur.

Auðugir áhrifamenn innan vébanda Sjálfstæðisflokksins.

Forríkir fjárfestar og íslenskir „viðskiptamenn“.

Auk fleiri vina og vandamanna Bjarna Ben.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu