Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Verulegar verðhækkanir Vodafone

Fyrir um mánuði síðan þá ákvað ég að hafa samband við símþjónustufyrirtækið mitt: Vodafone og óska eftir því að skoðað yrði hvort hægt væri að breyta eitthvað símþjónustunni minni í átt til lækkunar. Ég nota bæði gemsa og heimasíma sem mér var farið að finnast fullkostnaðarsamt miðað við reikninga og ekki mikla notkun í báðum tilfellum enda hef ég yfirleitt reynt að taka ódýrustu áskriftarleiðina hjá Vodafone. Skömmu síðar hafði samband við mig þjónustufulltrúi og færði mig í nýjar þjónustuleiðir úr gömlum sem hann sagðist ekki einu sinni kannast við.

Svo kom næsti reikningur og hann hafði hækkað um einhverja hundraðkalla sem ekki olli kátínu hér á heimilinu vegna fyrrgreindrar óskar. Ég sendi því ekki sérlega glaður póst á Vodafone með ósk um að þetta yrði tafarlaust leiðrétt enda fáránlegt að enda uppi með hærri reikning þvert á ósk mína um að reynt yrði að finna leiðir til lækkunar. Meðan ég beið eftir svari þá fór ég að skoða símreíkninga mína gaumgæfilega yfir ár aftur í tíma því ég hafði svo sem ekkert velt þessu sérstaklega fyrir mér. Þar byrjaði ég að taka eftir því að ýmis fastaþjónusta hafði hækkað í nokkrum skrefum sem sjást hér að neðan. Ég tek það fram strax að ekkert tillit er tekið til hvað er innifalið í þjónustunni fyrir áskriftina.

Í lok ársins 2015 þá var fastagjaldið fyrir heimasímann 2.590 kr. og tekið skal fram að það er ekki sundurliðað sem slíkt. Fastagjaldið sem ég greiddi fyrir gemsann var 1.990 kr. og fyrir gagnamagnspakka í símann með inniföldu gagnamagni sem ég fullnýtti aldrei var ég að greiða 642 kr. Fastagjöldin voru samanlagt 5.222 kr.

Strax í janúar hækkaði fastagjaldið fyrir heimasímann um 200 kr. og var orðið 2.790 kr. Fastagjöldin hækkuðu strax sem slík upp í 5.422 kr.

Næsta hækkun sem verður kemur fram í maí. Þá hækkar heimasíminn um aðrar 200 kr og verður fastagjaldið þá 2.990 kr. Gemsinn hækkar þá einnig um 200 kr. og verður fastagjaldið af honum 2.190 kr. Fastagjöldin eru þá komin upp í 5.822 kr. og hafa hækkað um 11% frá því um áramótin sem er ekki í samræmi við verðbólgu eða aðra þætti.

Svo kemur næsta hækkun fram fyrir september sem er hækkun á fastagjaldi fyrir gagnamagnspakkann í símann. Það fer upp úr 642 kr. upp í 990 kr. og eru því fastagjöldin kominn upp í 6.170 kr. sem er nær 20% hækkun frá áramótum. Á þeim tímapunkti fór mér að finnast reikningurinn fullhár þegar kom að greiðslu um mánaðarmótin október/nóvember og fór að íhuga hvort það væri ekki hægt að ná þessu niður einhvern veginn.

Um svipað leyti ákvað Vodafone að færa gjalddaga sína fyrir reikninga fram til miðs mánaðar og birtist því reikningur frá þeim fyrir október um svipað leyti og maður hafði greitt síðasta reikning. Engar breytingar mátti sjá þar og skömmu síðar hafði ég samband við Vodafone til að athuga með einhverskonar lækkun á kostnaði sem endaði með fyrrgreindri hækkun á reikning.

Víkjum því næst til svarsins sem ég fékk frá Vodafone um breytingarnar á símþjónustu. Þar var talið upp allskonar fyrir aumingja sem væri búið að bæta við inn í þjónustuna sem skipti litlu máli fyrir mig.Svarinu fylgdi með hvað þetta kostaði í það heila og er það tekið hér fram að neðan án tilltis til innihalds þjónustu enda hafði ég aldrei fullnýtt hana áður.

Eftir óskaða breytingu til lækkunar kostnaðar myndi ég greiða 1.290 kr. fyrir heimasímaáskrift og 2.390 kr. sem aðgangsgjald eða samtals 3.680 kr. fyrir heimasímann. Fyrir gemsann myndi ég svo greiða 3.290 kr eða sem segir 2.390 kr. fyrir áskrift og 900 kr. fyrir auka gagnamagnspakka. Samtals eru þá fastagjöldin komin upp í 6.970 kr. eða sem samsvarar hækkun um þriðjung frá því um áramótin í nokkrum skrefum sem er veruleg verðhækkun á ársgrundvelli þó upphæðirnar sem slíkar séu lágar. Einnig var tekið óljóst fram að hækkun hefði orðið á gjöldum fyrir desember sem kæmu fram á næsta reikning hvort sem það er innifalið í tölunum í svarinu eða ekki.

Mitt svar við þessari skýringu Vodafone var frekar einfalt.

Ég svaraði þeim reiður nokk að það hefðu verið stórkostleg mistök hjá mér að óska eftir því að leiðir yrðu fundnar til lækkunar símkostnaðar hjá þeim.  Það er nefnilega augljóst að besta leiðin til þess væri einfaldlega að fara til samkeppnisaðila og það eftir margra ára viðskipti við Vodafone sem ég hafði fært mig til eftir að hafa fengið nóg af Símanum. Ekki bætir heldur úr skák að mér finnst þessar tíðu litlu hækkanir sem gera eina stóra hækkun á ársgrundvelli vera verulega vafasamir viðskiptahættir sem nóg er af meðal hins siðlausa íslenska viðskiptalífs.

Spurningin sem maður veltir fyrir sér nú er því:

Hvert er best að fara með viðskipti sín?

Síminn og Vodafone koma allavega ekki til greina.

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni