Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Stöðugleiki partýliðsins

Fyrir nær tveimur árum þá fékk ég uppgjafartilfinningu mikla gagnvart íslensku samfélagi.

Spillingin, siðleysið og sinnuleysið hafði þá náð fullri ferð og manni fannst eins og allt vera að stefna í miklu verra far heldur en árið 2007.

Fólk virtist líka vera bara nokkuð sátt við þetta enda voru margir að bíða eftir skuldaleiðréttingunni sem átti að réttlæta hvað sem gert var. Ef einhver opnaði munninn til að benda á að ríku pabbastrákarnir í ríkisstjórninni væru að misþyrma örkumla samfélaginu út í garði þá var bara Æseif-öskurslagið keyrt upp í græjunum og viðkomandi sagt að vera ekki með svona „góða fólks“-stæla gagnvart uppáhaldsfótboltaliði partýliðsins.

Ekki bara það heldur heyrði maður og heyrir enn til svona partýliðs þar sem það galar um að það sé ekkert rangt við að leka upplýsingum um hælisleitendur heldur eigi almenningur rétt á að vita allt um kynlíf þeirra, það hrópar að það sé í góðu lagi að refsa ríkisfjölmiðlinum fyrir að koma fram með óþægilegar fréttir fyrir ríkisstjórnina, það telur það eðlilegt að fjármálaráðherra noti starf sitt og eigur ríkisins til að hygla vinum og vandamönnum og finnst það alveg sjálfsagt að menntamálaráðherra sé að vinna sem almannatengill fyrir leigusala sinn í Kína meðan landinn borgar launin svo fá dæmi séu nefnd um venjulega daga ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu.

Maður fann fyrir verulegri uppgjafartilfinningu svo þegar sama lið öskraði sig hást af bræði um spillingu, sérhagsmunagæslu og afsagnir þegar KSÍ klúðraði miðasölu og einhverjir vildarvinir fengu miða á landsleik.

Fokk it, þetta er það sem þetta lið eruð búin að vera að segja að sé eðlilegt og sjálfsagt nema þegar það bitnar beint á þeim sjálfum.

Njúvs flash for jú.

Spilling, siðleysi og sérhagsmunagæsla er aldrei ok sama þó hún bitni á öðrum.

En það er eins og það gildi aldrei eðlileg sjónarmið þegar kemur að stjórnmálum. Þá er bara dottið í boltakúltúrinn, United vs. Liverpool og allt það. Þá er eins og allt sé í lagi og bara öskrað að þú sért í þessu liði ef þú bendir á spillingu, vanhæfni eða vítaverð mistök jafnvel þó það séu allir sammála um að managerinn sé óhæfur líkt og Ragnheiður Elín. Það eru fáir saklausir af þessu, þetta er bara einhver blinda sem grípur fólk sama hvað gengur á og ætti að vera verkefni sálfræðinga, mannfræðinga eða annarra slíkra að rannsaka hvað veldur.

En þessi uppgjafartilfinning mín fylgdi ótrúleg þreyta á íslensku samfélagi, svo mikil þreyta að maður íhugaði stundum hvort maður ætti ekki að fara og já, ég ráðlegg öllu yngra fólk að fara frekar ef kosningaúrslitin skila því að stöðnun og umbótaleysi „stöðugleikans“ verður ofan á. Manni langaði allavega ekki til að búa eða lifa í samfélagi sem væri svona blint á ógeðið sem færi fram undir nefinu á þeim líkt og misnotkun presta í kaþólsku kirkjunni.

Ég játa að ég fékk smá von aftur um samfélagsumbætur þegar Panama-skjölin birtust og heimurinn sá enn á ný hversu rotið Ísland var. Fjöldamótmælin niður á Austurvelli sem skiluðu afsögn Sigmundar Davíðs ýttu undir þá von en samt varð maður var strax við eitt.

Partýliðið var mætt á svæðið, stórhneykslað á Sigmundi Davíð fyrir að ljúga og klúðra viðtalinu við erlenda fréttastöð líkt en svo þegar kom að þeirra fótboltaliði í Valhöll þá byrjaði strax formaður ungliðahreyfingar Sjálfstæðisflokksins að syngja liðssönginn í vörn fyrir managerinn sinn(líklega í von um að komast af varamannabekknum).  Hinn falski liðssöngur sem heyrðist þá og það í beinni útsendingu frá stærstu Austurvallarmótmælum sögunnar, var á skjön á við allt annað tal um heiðarleika, almenna hneykslun og kröfu um úrbætur, ungliðinn söng um að skattaundanskotavafningur Bjarna Ben í gegnum aflandseyjar og aflandsfélag Ólafar Nordal væru allt öðruvísi og eðllileg ólíkt þessu hjá Sigmundi Davíð.

 Halló, skattaskjól, aflandsfélag, feluleikur með peninga þar sem skatturinn sér ekk til.

Enginn ráðherra eða þingmaður á að stunda svoleiðis eða sitja á þingi mínútunni lengur, þetta er það ósiðlegt og svívirðilegt að opinberir fulltrúar þjóðarinnar séu notast við sömu aðferðir og skipulögð glæpasamtök þegar kemur að því að fela peninga.

Það breytir engu um hvort það sé eðlileg skýring á bak við líkt og hugsanlegt er með Ólöfu Nordal ólíkt Bjarna Ben sem hefur fyrir löngu sannað sig sem einn mesta óheilindamann landsins.

Fólk í opinberum stöðum sem er að ástunda sama athæfi og dreggjar mannkyns á að víkja með det samme. Þannig er það í flestum siðmenntaðri löndum heims.

En nei, þau eru álitin hetjur hér á landi fyrir að standa af sér „samsæri RÚV og hrægammasjóða“, talað um ofsóknir og partýliðinu finnst það vera gamlar fréttar því nú eigi að tala um framtíðina.

Gamlar fréttir, já, en fréttir þessa árs um allan heim með tilheyrandi álitshnekki fyrir landið.

Hvað ætli annars þjóðum heims finnist um það að Ísland mynda munstra  Bjarna Ben usem forsætisráðherra í kjölfar þessara kosninga?

Erum við að tala um meira spjallþáttagrín á kostnað orðspor landsins?

 Yrði Idiocracy Iceland vinsælasta leitin á Google?

Maður vill eiginlega ekki vita það.

Enda er það eina sem getur komið í veg fyrir slíkan álitshnekk er að vísa Sjálfstæðisflokk og Framsókn út úr partýhúsnæðinu sem við eigum og  þessir flokkar hafa rústað.

Ég er allavega sjálfur kominn yfir uppgjöfina og dauðþreyttur á að sjá þetta gerast aftur og aftur að fólk velji frekar „stöðugleika“ spillingar, sérhagsmunagæslu og siðleysis. Ég er líka búinn að fá nóg af því að búa í landi þar sem fjármálaráðherra hyglar ríkasta 1% þjóðarinnar aftur og aftur meðan flokkurinn hans fer með keðjusagir gegn heilbrigðiskerfi, menntakerfi og öllu öðru því sem við teljum nauðsyn þess að skapa hér gott samfélag.

Ég ætla allavega að mæta á kjörstað og kjósa eitthvað sem ruggar bátnum illilega. Eitthvað sem fær bankstera til að fá hland fyrir hjartað, eitthvað sem fær sístelandi sægreifa til að svelgjast á sjó, eitthvað sem fær samfélagslegu Darwinista frjálshyggjunnar sem tilbiðja Davíð Odds og Ayn Rand til að froðufella alla leið inn á geðdeild, eitthvað sem fær reiðistorm frá Morgunblaðinu og Bingamiðlum, eitthvað sem sér til þess að við verðum ekki að athlægi í augum alheimsins.

Ég veit reyndar ekki hvað það er en það verður allavega atkvæði í von um umbætur og betri framtíð án Bjarna Ben og mergsjúgandi fjölskyldu hans.

Og já, partýliðið.

Það getur bara fokkað sér eins og ritari Samfylkingunnar sagði við orðljótasta kvenhatara landsins með tilheyrani hneykslun og afsagnarkröfum partýliðsins.

Ég mun allavega ekki segja af mér sem bloggari meðan það hneykslast á einhverju reiðilegu blótsyrði á netinu meðan það sér ekkert rangt við það að Bjarni Ben hafi notast við aflandsfélög í einhverjum sóðabissness svo maður nefni eitt atriði af mörgum atriðum sem það vill ekki að sé rætt.

Það getur bara beðið Bjarna sinn um að troða þessari gervihneykslun upp í stöðugleikann á sér á næsta SALEK-i.

Hundsum það lið því ég nenni ekkiað þurfa að hlusta á 20-50 ár til viðbótar af rifrildum um að breyta þurfi landbúnaðarkerfinu, sjávarútvegskerfinu, fjármálakerfinu og síðast en alls ekki síst stjórnarskránni meðan heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfið er látið grotna niður í átt til einkavinavæðingar og aukinnar stéttskiptingar. Ég nenni ekki heldur lengur að þurfa að hlusta á sífelldar sundrungarsmjörklípur um flugvöll, spítalastaðsetningu, bús eða ekki bús í búðir og annað slíkt sem skilar engum árangri nema því að okkur er stillt upp á móti hvort öðru eða gerð hrædd við breytingar af einhverju partýliði sem vill engu breyta.

Við höfum hreinlega ekki efni á slíku partýliði né stöðugleikanum þeirra lengur enda er hann ávísun á vonleysi um betra samfélag.

Hættum að vera hrædd.

Kjósum breytingar og umbætur núna.

Ég ætla allavega að gera það í von um betra samfélag.

Hitt er bara ávísun á stöðuga spillingu samfélagsins.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu