Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Skíthælastjórnin

Á engilsaxneskunni ylhýru er til orðið Cad.

Það orð hefur margar mjög neikvæðar þýðingar yfir á blessaða íslenskuna en þó það sem stendur upp úr er orðið skíthæll.

Nú höfum við fengið stjórn sem samanstendur af CAD og manni finnst því liggja við að hún eigi eftir að bera heitið Skíthælastjórnin þó maður sé ekkert endilega viss um að það eigi um alla sem í stjórninni sitja.

Byrjunin bendir allavega til þess enda er það fáheyrt ef ekki í fyrsta sinn sem að forsætisráðherra vestræns ríkis sest í stólinn eftir að hafa orðið uppvís um að stinga mikilvægri skýrslu undir stól í þeim tilgangi að það myndi ekki trufla kosningabaráttu hans flokks og í kjölfarið logið að þingi og þjóð. Ekki bætir það heldur úr skák að forsætisráðherrann er þekktur um allan heim fyrir að hafa falið fé í skattaskjóli og hér heima hefur hann reynst einhver mesti óheilindamaður Íslandssögunnar þegar horft er yfir feril hans í viðskiptum, stjórnmálum og meðhöndlun sannleika.

Það að tveir aðrir stjórnmálaflokkar ákveði að gerast samsekir þessu athæfi hans með því að leiða Bjarna Ben til valda sem forsætisráðherra og aðra af álíka sauðarhúsi úr Sjálfstæðisflokknum, gerir það að verkum að manni finnst þetta eiginlega réttnefni.

Ekki bætir heldur úr skák að báðir þessir stjórnmálaflokkar lyppast algjörlega niður í samningaviðræðum, gefa eftir nær öll baráttumál sín í kosningabaráttunni þegar kemur að stjórnarsáttmála og henda öllum siðferðislögum prinsippum sem manneskjur til hliðar í ásókn sinni eftir völdum.

Maður skilur þetta hreinlega ekki.

Það er nefnilega fólk þarna sem maður hefur hingað til haldið að væri heiðarlegt prinsippfólk sem mæti mannorð sitt meira heldur en að fórna því til að tryggja að mesti óheilindamaður Íslandssögunnar fengi að láta uppeldisdraum sinn og Engeyjarættarinnar rætast þ.e. að hann yrði forsætisráðherra einn daginn.

Hvað gerðist eiginlega í kollinum á þessu fólki?

Litli Sjálfstæðisflokkurinn Viðreisn er kannski mun skiljanlegri heldur en Björt Framtíð þegar kemur að þessum hlutum. Þetta eru óánægðir Sjálfstæðismenn sem fengu ekki sitt framgengt á landsfundum og stofnuðu nýjan flokk líkt og fleiri óánægðir Sjálfstæðismenn hafa gert í gegnum tíðina. Þegar á hólminn kom þá hafa þau álitið að stefnumálunum væri fórnandi fyrir það eitt að ná einhverskonar sigri í valdabaráttu sinni innan Sjálfstæðisflokksins svona áður en þau renna saman við hann á ný. Svo fylgir líka örugglega einn banki með og fleiri bitlingar til vina og vandamanna þegar upp verður staðið eftir þetta stutta stríð þeirra en því miður fyrir almenning þá verður hann aðalfórnarlamb þessa stríðs líkt og þegar aðrir sambærilegir stríðsherrar kljást í fjarlægum löndum.

Björt Framtíð er að manni finnst hið óskiljanlega í þessari jöfnu, allt frá því að flokkurinn fór að haga sér eins og þægur hvutti við hlið húsbónda síns Viðreisnar sem hafði bara áhuga á að vera í stjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Manni finnst Atli Þór Fanndal hafa ýmislegt fyrir sér þegar kemur að greininni Lotningu sem hann skrifaði um þetta vanhelga bandalag sem gekk út á það að leiða Sjálfstæðismenn til valda en um leið er maður hugsi um hver sé drifkrafturinn á bak við það að Óttar Proppé og Björt Framtíð hafi látið teyma sig svona til slátrunar.

Björt Framtíð er nefnilega búin að vera eftir þetta kjörtímabil vegna samsektar sinnar og þáttöku í því að réttlæta grófa pólitíska spillingu Bjarna Benediktssonar.

Það munu fáir vilja greiða flokki „nýrra og breyttra stjórnmála“ atkvæði sitt eftir slíkt.

Hvað getur það verið?

Ég hef heyrt því allavega fleygt að önnur helsta réttlætingarástæðan fyrir þessari fórn sé að þau hafi viljað reyna stemma stigu við væntanlegri einkavinavæðingu innan heilbrigðiskerfisins og annarri grunnstoðaeyðileggingu Sjálfstæðisflokkana tveggja. Hinsvegar hefur maður heyrt að Engeyjarmafían hafi notað Framsókn sem kylfu á Bjarta Framtíð þ.e.a.s. að ef Björt Framtíð „spilaði ekki með ríku strákunum“ þá yrði Framsókn snarlega kippt inn í staðinn og helför frjálshyggjunnar gegn heilbrigðis-, mennta og velferðarkerfi gæti því haldið áfram óáreitt.

Það sem Björt Framtíð hefur þá ekki áttað sig á að þetta mun gerast um leið og þau fara að verða óþæg í sukkveislu fína fólksins eða fullnýtt sem leikfang Sjálfstæðisflokksins sem er einfaldlega að leika biðleik. Þá verður þeim hent út úr veislunni sem hverri annarri druslu og þegar Engeyingum hentar verður Framsókn kippt inn um leið.

En til þess að Framsókn geti farið inn í staðinn fyrir Bjarta Framtíð þá þarf tvennt að gerast til að Sjálfstæðisflokkurinn geti framkvæmt það.

Það þarf að gera einhverjar breytingar á innflutningi matvæla og landbúnaðarkerfinu til að friða kaupmennina og gera það samt þannig að það styggi ekki stórbændur. Um leið og það er afstaðið þá getur Framsókn komið inn þó það gæti orðið fyrr vegna örvæntingar Framsóknar en það veltur á því að seinna atriðið hafi náð að klárast.

Hitt sem þarf fyrst og fremst að klárast er uppgjörið við Sigmund og detoxið á hans hamagangi innan Framsóknarflokksins til að Framsókn verði stjórntækt sem slíkt. Framsókn er líka það örvæntingarfullt að það mun gera hvað sem er fyrir völdin að nýju og því ansi hentugt leikfang fyrir bæði stóra og litla Sjálfstæðisflokkinn þegar kemur að því að stúta samfélaginu endanlega í þágu ríka liðsins og skipta bönkum á milli vina og vandamanna.

Þar til það gerist þá mun Björt Framtíð þurfa að taka þátt í svo mörgum viðurstyggilegum athæfum á borð við lög á verkfall sjómanna, frekari afnám á réttindum launafólks líkt og var aðgöngumiðinn að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins núna rétt fyrir jól, einkavinavæðingu ýmiskonar, varnir fyrir frekari spillingu Bjarna Ben og fleira sem mun gera kjósendur enn reiðari í þeirra garð og skila því að sagt verður almennt um stjórnina:

„Þetta er ljóta skíthælastjórnin.“

Og að endingu mun vonin um bjarta framtíð deyja í hugum landsmanna þegar helvíti frjálshyggjunnar hefur drepið íslenskt samfélag.

Þökk sé nytsemi Bjartrar Framtíðar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni