Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Kirk Douglas 100 ára

Kirk Douglas 100 ára

Stórleikarinn Kirk Douglas sem er ein af síðustu eftirlifandi stjörnum gamla Hollywood varð 100 ára í dag. Þessi sonur fátækra rússneskra innflytjenda fór að feta stiga kvikmyndaferil sinn skömmu eftir seinna stríð og sá ferill frekar hratt af stað enda fékk hann sína fyrstu Óskarstilnefningu árið 1949 fyrir Champion. Hann átti eftir að verða ein stærsta stjarna Hollywood og lék í fjölmörgum vinsælum myndum, sérstaklega þó vestrum og spennumyndum en einnig mjög áhættusömum ádeilumyndum stórra leikstjóra. Sjálfur fór hann einnnig út í framleiðslu mynda og átti farsælt samstarf við vin sinn Burt Lancaster.

Áhrif han náðu út fyrir leiklistina innan Hollywood því hann lagði grunninn að endalokum svartlistunar McCarthy-ismans með baráttu sinni fyrir því að handritshöfundurinn Dalton Trumbo fengi nafn sitt á kreditlista Spartacus. Auk þess hefur Kirk skrifað fjölmargar bækur, staðið í baráttu fyrir ýmis málefni, stutt við fjölmarga sem eiga undir höfði að sækja og fyrir örfáum árum síðan ákvað hann ásamt konu sinni að fé hans myndi renna til góðgerðarmála enda orðaði hann það svo að hann tæki ekki peninga með sér í gröfina.

Það er því vel úr vegi að minnast nokkurra af eftirminnanlegri myndum hans sem maður hefur séð um ævina óháð því hvort þær séu með þeim bestu.

Spartacus – Af öllum myndum Kirk Douglas og annarri af þeim sem hann gerði með Stanley Kubric, er þetta líklegast sú frægasta. Epísk saga um þrælauppreisn á tímum Rómar þar sem fléttað er inn rómverskri pólitík og rómantík inniheldur margar eftirminnanlegar senur en af þeim ber „I am Spartacus“-senan líklegast af. Stórvirki á alla kanta enda náði hún sér í Óskarsverðlaun nokkur m.a. til handa Peter Ustinov.

Paths of glory – Hin myndin sem Kirk Douglas gerði með Stanley Kubrick er ein af bestu andstríðsmyndum sem gerðar hafa verið um franska hermenn sem er ætlað að taka á sig heigulssök til að breiða yfir klúður herforingja. Kirk er stórgóður sem herforingi sem er ætlað að verja menn sína eftir að hafa leitt þá í tilgangslausri orustu að fyrirskipun yfirboðara sinna.

Ace in the hole – Í fjölda ára var þetta meistaraverk Billy Wilders ófáanlegt. Þetta er einhver beittasta fjölmiðlaádeila sem til er þar sem Kirk Douglas leikur blaðamann sem snýr innilokun manns í helli upp í stórfrétt til að koma ferli sínum á rétt spor en atburðarásin umbreytist yfir í stjórnlausan fjölmiðlasirkus. Eftirminnanlegur leikur, beitt handrit og umfjöllunarefnið á enn vel við í dag á tímum smelludólgafréttamennsku og hannaðra atburðarása almannatengla.

The bad and the beautiful – Önnur ádeilumynd með Kirk Douglas er einnig með þeim eftirminnanlegri. Kirk leikur þar óforskammaðan kvikmyndaframleiðanda sem notar fólk grimmt til síns eigin ágóða og sagt hefur verið að fyrirmyndin sé David O. Selsnick. Kirk leikur kvikmyndaframleiðandann stórvel og það vel að hann fékk eina af fjölmörgum Óskarstilnefningum fyrir en myndin sjálf endaði með 5 Óskara.

There was a crooked man... – Eitt kvöldið fyrir fjölmörgum árum þá varð þessi vestri á vegi mínum á Stöð 2. Hann segir frá sjarmerandi en gersamlega samviskulausum þrjóti sem Kirk Douglas leikur frábærlega sem er settur í fangelsi sem stjórnað er af algjörri andstæðu hans í formi Henry Fonda sem er einnig frábær. Upphefst þá mikil atburðarás þar sem þrjóturinn byrjar að spila með menn í þeim tilgangi að sleppa út úr fangelsinu. Stórskemmtileg fangelsismynd með stórgóðum leik og góðri fléttu.

Seven days in May – Ein af þeim sjö myndum sem Kirk gerði með Burt Lancaster er einn af stærri samsærisþrillerum sjöunda áratugsins. Kirk leikur ofursta sem kemst á snoðir um samsæri hershöfðingja sem Burt stýrir og ætla sér að steypa forseta Bandaríkjanna af stóli fyrir „linkind“ í samningaviðræðum um kjarnorkuafvopnun. Þetta er ein af betri myndum leikstjórans John Frankenheimers og sagan sem slík eldist vel.

Tough guys - Þó maður gæti nefnt kannski aðrar af myndum Kirk og Burts saman þá situr þessi alltaf eftir í minnningunni sem ein af þessum stórskemmtilegu „gamla kalla“-myndum þar sem þetta gamla tvíeyki leika það skemmtilega saman að unun er að horfa á. Þeir leika þar gamla gangstera sem sleppa út úr fangelsi eftir áratuga vist og reyna að aðlagast níunda áratugnum með sínu sítt að aftan. Báðir fara þeir á kostum og ásamt Eli Wallach sem hálfblindum leigumorðingja valta þeir yfir alla þá sem yngri eru þegar kemur að leik. Myndin varð mjög vinsæl á sínum tíma og skiljanlega.

The list of Adrian Messenger – Þó Kirk leiki ekki aðalhlutverkið í þessari skemmtilegu spennumynd John Hustons þá er hann eftirminnanlegur sem morðingi sem notast við dulargervi til að nálgast fórnarlömb sín. Burt Lancaster og fleiri leikarar koma einnig við sögu í dulargervi sem var „gimmick“ myndarinnar sem kannski stelur athyglinni frá sögunni.

Posse – Þó fjölmargir vestrar sem Kirk lék í hafi verið hefðbundnir vestrar þá var þessi á margan hátt óvenjulegur. Kirk leikur þar frekar metnaðargjarnan löggæslumann sem hyggur á pólitískan frama og ætlar sér að nýta handsömun útlaga til þess. Útlaginn sem er stórvel leikinn af hinum vanmetna Bruce Dern er aftur á móti ekki á þeim buxunum og hefst þá mikil refskák milli þeirra.

Amos – Þessa sjónvarpsmynd sá ég á RÚV fyrir fjölda ára síðan og hún hefur haldist í minningunni, þökk sé stórgóðum leik Kirk Douglas sem erfitt gamalmenni sem er vistaður á elliheimili og byrjar þar að gruna að ein hjúkkan sé að senda gamalmenni þar yfir í eilífðina. Hún minnir mann kannski eilítið á Gaukshreiðrið að ákveðnu leyti enda lék Kirk Douglas í leikrítinu á sínum tíma og reyndi að fá það kvikmyndað áður en syni hans Michael, tókst að koma því á hvíta tjaldið.

The fury – Það eru nokkrar Brian DePalma-myndir sem ég hef séð ansi oft í gegnum tíðina og þessi samsærisþriller er ein af þeim. Kirk leikur þar fyrrum njósnara sem leitar að syni sínum sem álitinn er dauður en er verið að nota í hugaraflstilraunir af fyrrum samstarfsmanni hans hjá CIA. The final countdown – Þegar maður hugsar til þess þá er þetta líklega fyrsta myndin sem maður sá með Kirk Douglas. Á sínum tíma heillaðist maður sem barn af þessari tímaflakkssögu þar sem flugmóðurskip fer aftur í tímann til ársins 1941 í grennd við Pearl Harbour og áhöfnin undir stjórn Kirk Douglas þarf að ákveða hvort hún breyti sögunni eða ekki. Árum saman hefur maður ásamt æskuvinum minnst hennar með ákveðinni nostalgíu og það jafnvel þó maður viti að hún hafi ekki elst sérstaklega vel.

Maður getur svo sem tiltekið margar fleiri eftirminnanlegar s.s. hina klisjukenndu The vikings sem er skondin í dag, krimmans Detective story, vestra á borð við Last train to Gun Hill og Gunfight at O.K. Corrall, Disney-myndarinnar 20 þúsund mílur undir sjávarmáli sem byggð var á sögu Jules Verne, dramans Lust for life þar sem Kirk lék Vincent Van Gogh, grínvestrans Cactus Jack sem innihélt ungan Arnold Schwarzenegger og eldist örugglega frekar illa auk fleiri mynda en ætli maður ljúki ekki þessari upptalningu á því að minnast á gestahlutverk hans í Simpsons þar sem hann talaði fyrir upphaflega skapara Itchy og Scratchy-teiknimyndanna.

Til hamingju með hundrað árin, Kirk. Við munum minnast þeirra í gegnum myndir þínar.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu