Þessi færsla er meira en 7 ára gömul.

Hvað með Kauþingsbónusa?

Þegar hinir svívirðulegu bankabónusar til starfsmanna slitabús Kaupþings og fleiri banka komust í hámæli þá létu margir þingmenn heyrast hátt í sér á þingi þegar stutt var í prófkjör og töluðu um að það þyrfti að grípa til aðgerða.

Stjórnarþingmenn og ráðherrar sögðust vera nokkuð sammála um að þetta væri forkastanleg svívirða en talið var á þá leið að það þyrfti að grípa til almennra aðgerða og aðgerðirnar mættu ekki vera sértækar gegn slitabúunum sem ákváðu að ógna „stöðugleikanum“ illræmda. Skilja mátti svo á einum helsta verjenda bankstera á þingi að það væri nú vandséð að þingið gæti gripið til aðgerða né mætti helst ekki taka geðþóttaákvarðanir. Um svipað leyti benti fyrrum skattstjóri á að það sé vel gerlegt að skattleggja þessa bankabónusa(sem ættu að vera bannaðir vegna skaðlegra áhrifa á samfélagið sbr. Hrunið) ef viljinn sé fyrir hendi.

En ekkert hefur verið gert né gerðist eins og við ættum nú að hafa tekið eftir.

Prófkjörin eru nefnilega búin.

Aftur á móti þá var nú stokkið til núna í síðustu viku og sett fram geðþóttafrumvarp til að redda klúðri fyrirtækis og sveitarfélaga í hvelli.

Þá á ég vitaskuld við frumvarpið um að halda áfram með framkvæmdir við Þeistareykjalínu þrátt fyrir að lögbann hafði verið sett á áframhaldandi framkvæmdir þar til búið væri að úrskurða um réttmæti framkvæmdaleyfis.

Þarna er nefnilega ætlunin að sniðganga stjórnsýslu sem löggjafinn hefur sett sjálfur og grípa framfyrir hendurnar á henni til að tryggja að Landsnet fái að halda áfram framkvæmdum sama hvernig úrskurðarnefnd úrskurðar. Þetta er gert þrátt fyrir að það virðist sem að fyrirtækið og sveitarfélögin sem tengjast þessu sem hafa klúðrað þessum málum sjálf.

Semsagt, í stað þess að tryggja að hin almennu lög séu virt og farið sé eftir eðlilegri stjórnsýslu þá ákveður alþingi að grípa inn af geðþótta með sértækum aðgerðum þar sem löggjafinn setur lög á eigin lög. Þetta er gert til að skera þessa aðila úr snöru eigin klúðurs eða viljandi „tæknilegra mistaka“ sem er nú ansi algengt hér á landi þegar kemur að græðginni.

Eiginlega dregur maður þá ályktun út frá þessari geðþóttaákvörðun þingsins að það sé nær 100% öruggt að úrskurðarnefndin muni fella þann úrskurð að framkvæmdin sé ólögleg út frá þessum viðbrögðum og því sé verið að beita klassísku „scorched earth“-stefnu þar sem eyðileggingin er hámörkuð áður en stjórnsýslan getur fellt sinn dóm og svo sagt að þetta sé svo langt komið að það verði ekki hægt að stoppa.

En nóg um það.

Snúum okkur aðeins nú að Kaupþings-bónusum og öðrum bankabónusum aftur.

Fyrst alþingi getur gripið til svona geðþóttalagasetningar í þágu eins fyrirtækis þá er nokkuð ljóst að alþingi getur gripið til aðgerða núna strax fyrir kosningar, bannað þessa bankabónusa og/eða keyrt í gegn 80-100% skatt á svona bónusta til fjármálageirans og helst allra stjórnenda fyrirtækja á hlutabréfamarkaði.

Það þarf greinilega engin almenn lög sé miðað við þetta frumvarp í þágu Landsnets eins, aðeins viljann til að skora Kapóna landsins á hólm í þágu samfélagsins alls.

Eða eru þingmenn of hræddir við að styggja „fjármagnið“?

Manni finnst það nefnilega líklegt.

Það er nefnilega svolítið mikið 2007 í loftinu.

 Geðþótti þingmanna sýnir það.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu