Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Hinn eitraði kaleikur Sigríðar Andersen

Það er vægast sagt eitraður kaleikur sem Sigríður Andersen hefur rétt alþingi með dómaraskipunartillögu sinni.

Ef tillagan verður ekki samþykkt þá er það vantraust á ráðherra af hálfu stjórnarliða.

Manni finnst því mjög líklegt að stóri Sjálfstæðisflokkurinn hóti á bak við tjöldin litla Sjálfstæðisflokknum og Bjartri Framtíð með gaddakylfu kosninga til að tryggja samþykki þeirra. Hvorugur af minni flokkunum myndi reiða vel af í kosningum og þetta veit Sjálfstæðisflokkurinn.

Á hinn bóginn ef þessi eitraði kaleikur Sigríðar Andersen verður drukkinn af þingmönnum stjórnarinnar þá mun það hafa miklar og slæmar afleiðingar.

Traust til alþingis mun minnka enn frekar enda er ekki verið að fara að tillögum matsnefndar heldur er hluta af hæfasta fólkinu hent út af geðþótta ráðherra og í staðinn munu aðilar sem voru metnir minna(og með þeim minnst metnu) hæfir skipaðir dómarar í staðinn. Það er í besta falli fúsk og í engu nokkuð sem getur kallast „ný vinnubrögð“ eða „betri stjórnhættir“ þó flestir hallist og muni hallst að því að þarna er gamla spillingin enn eina ferðina á ferð. Að auki þá mun þetta sýna það enn frekar að alþingi hefur lítil sem engin völd í raun heldur er færiband sem gúmmístimplar það sem ráðherrar vilja því ráðherrarnir ráða alþingi í raun. Ráðherraræðið yrði enn bersýnilegra og það hjálpar heldur ekki til að alþingi lýsir í raun yfir vantrausti á val matsnefndarinnar sem slíkrar um leið og það hampar geðþóttavali ráðherrans.

Traust til dómskerfisins mun minnka þar sem verið er að ganga framhjá hæfasta fólkinu og verið er að skipa minna hæft fólk en síðast en ekki síst þá er verið að skipa eiginkonu áhrifamikils þingmanns Sjálfstæðisflokksins sem var metinn minna hæf en þeir sem matsnefndin lagði til. Sama hvað sagt verður um hæfni hennar þá öskrar þetta atriði á flesta sem það atriði sem skipti máli við ákvörðun dómsmálaráðherra. Reynslan hefur kennt okkur það að þegar ráðherrar Sjálfstæðisflokksins fara að skipta sér af mannaráðningum þá er það yfirleitt til að hygla ættingjum, vinum og flokksfélögum en ekki til að tryggja að íslenska þjóðin fái hæfustu einstaklinganna í störfin. Að auki smellpassar þessi dómaraskipun Sigríðar á eiginkonu þingmannsins við fyrri skipanir Sjálfstæðismanna á Ólafi Berki, Þorsteini Davíðssyni og Jóni Steinari sem flestir sáu að voru munstraðir í dómarastóla vegna ætternis, vináttu og flokkshollustu.

Þetta mun líka áhrif á traust til hinna dómarana sem Sigríður Andersen vill skipa í stað fjórmenningana sem voru metnir hæfara enda mun sitja yfir þeim svart ský spillingar um að þau hafi verið skipuð út frá pólítískum tengslum og velvilja en ekki hæfni. Hvort sem það reynist satt eða ekki þá mun þetta verða alltaf vera með því fyrsta sem kemur í huga fólks:“Já, var þessi dómara ekki skipaður út frá tengslum við Sjálfstæðisflokkinn?“. Traust þeirra, orðspor og virðing mun verða fyrir skaða óháð hæfni þeirra og gengi í starfi.

Það er líka hægt að sjá út úr þessum eitraða kaleik Sigríðar Andersen langrækna hefnigirni Sjálfstæðismanna gagnvart þeim sem dirfast að gagnrýna flokkinn eða hefur gert öfgamönnum þar heitt í hamsi. Ástráður Haraldsson sem Sigríður vill ekki skipa, gerðist svo ósvífinn að gagnrýna skipun Árna Matt á Þorsteini Davíðssyni Oddsonar sem dómara enda var sá með þeim minnst hæfustu. Það þoldu Sjálfstæðismenn illa og ekki heldur þegar hann gagnrýndi Jón Steinar og félaga þegar þeir ógiltu stjórnlagaþingskosningarnar á mjög þröngum forsendum. Það hefur líka örugglega hlakkað meinfýsnislega í mörgum forkólfum Sjálfstæðisflokksins innan ríkisstjórnar sem utan að þeir væru kannski að sparka líka í leiðinni í Svandísi Svavars vegna tengsla hennar við Ástráð.

En hinn eitraði kaleikur Sigríðar mun ekki bara skaða traust á alþingi og dómskerfi heldur gæti hann valdið búsifjum fyrir ríkissjóð. Málaferli og skaðabótamál vegna skipunar á fólki sem er metið minna hæft mun örugglega tapast miðað við fordæmi fortíðar með t.d. Ólaf Börk og Þorstein Davíðsson. Almenningur verður því látinn greiða málskostnað og skaðabætur í gegnum ríkissjóð meðan þingmenn sem standa að þessu munu enga ábyrgð þurfa að sæta nema kannski í kannski mesta lagi yppa öxlum glottandi með einhverja réttlætinguna á vörum og bitling í vasanum.

Þegar þetta er skrifað þá er alþingi enn að reyna að komast að niðurstöðu um málið en ég held að það sé óhætt að gefa sér það að niðurstaðan verður að stjórnarmeirihlutinn mun drekka úr þessum eitraða kaleik Sigríðar Andersen.

Óttinn við stjórnin springi og valdaleysið í kjölfarið mun hræða litla Sjálfstæðisflokkinn og Bjarta Framtíð til hlýðni ef þörf krefur en aðrir stjórnarliðar vita það að ef þeir greiða atkvæði eftir því sem ráðherra segir þeim þá tryggir það framtíðarbitlinga og góðar stöður í framtíðinni. Allt vantraustið, trúverðugleikaskaðinn, fúskið, fjárútlátin og annað er einfaldlega ásættanlegur skaði í augum stjórnarþingmanna sem vilja halda stöðu sinni.

Svoleiðis er bara Ísland.

Og hefur lengi verið.

 

 

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu