Þessi færsla er meira en 6 ára gömul.

Allt er þá þrennt er: fjölmiðlar og minnihlutaflokkurinn í Reykjavík

Inn um dyr borgarbúa á fimmtudaginn barst Morgunblaðið þeirra Davíðs Oddsonar, Eyþór Arnalds og útgerðarinnar í ókeypis dreifingu. Þar á forsíðunni var vitnað í grein inn í blaðinu sem Eyþór Arnalds hafði skrifað og var að hneykslast á því að fjöldi starfshópa hefði verið stofnaðir hjá borginni utan um einhver tiltekin verkefni. Það er reyndar skondið í ljósi þess að Eyþór Arnalds situr í stjórn 26 fyrirtækja sem eru örugglega mörg hver með starfshópaum tiltekin verkefni innan sinna vébanda.

Um kvöldið sá maður svo sem fyrstu frétt Stöðvar 2 beina útsendingu frá því að Sjálfstæðisflokkurinn hefði staðfest nýjan framboðslista og talað við Eyþór Arnalds að sjálfsögðu auk þess sem sæti 2 var kynnt. Þessu var svo fylgt á eftir af hálfu Heimi Más Péturssonar með ósk um að frambjóðendurnir myndi hrópa saman TIL SIGURS sem fullkomnaði almannatenglaða útsendinguna.

Þó að maður þyrfti teppi til að ná niður kjánahrollinum út frá TIL SIGURS-hrópinu þá var samt umhugsunarvert að það skuli hafa verið bein útsending frá tilkynningu um staðfestingu framboðslista Sjálfstæðisflokksins á Stöð 2 meðan önnur framboð fá ekki slíkar auglýsingar fremst í fréttatíma. Maður hefur t.d. heyrt það á skotspónunum að eitt framboð í Reykjavík sem er með ágætt bakland hafi fengið þau svör frá Stöð 2 að það væri ekki neitt voðalega spennandi fréttaefni að vera með beina útsendingu frá prófkjörsúrslitum þeirra og RÚV hafi einnig tekið fálega í svipaðan fréttaflutning af prófkjörsmálum þar. Á sama tíma er gengið mjög langt í yfirdrifinni áhugasemi um málefni minnihlutaframboðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þar sem er slegið upp t.d. beinni útsendingu í fréttatíma frá leiðtogakjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík, leiðtoginn Eyþór Arnalds hafi verið boðaður sérstaklega í Silfrið daginn eftir sem hann fékk að gaspra svo stjórnlaust að maður fékk það á tilfinninguna að þetta væri Silfur Eyþórs og svo fyrrgreind beina útsending frá staðfestingu framboðslista Sjálfstæðismanna í Reykjavík.

Síðan í morgun þegar maður rölti eftir Fréttablaðinu með stírurnar í augum þá blasti við manni risastór mynd af Eyþóri Arnalds og Hildi Björnsdóttir að fagna með Sjálfstæðismönnum á forsíðunni. Það er svo sem ekki í fyrsta sinn sem Fréttablaðið setur innanhúsmál minnihlutaflokks Sjálfstæðismanna í Reykjavík og þeirra prófkjörsmálum á hærri stall forsíðunnar en annarra framboða en það sem setur þetta í einkennilegt og umhugsunarvert ljós er að Hildur Björnsdóttir er tengdadóttir ritstjórans sem sviptir Fréttablaðið hulu hlutleysis. Miðað við fyrri sögu af afskiptum eigenda af fréttaflutningi Fréttablaðsins og þau augljósu áhrif sem almannatenglar úr stjórnmála- og viðskiptalífi hafa á fréttir hjá Fréttablaðinu og 365 miðlum í gegnum tíðina þá stórefast maður um það að þarna verði einhver Newsweek-bragur í fréttum af borgarstjórnarkosningum heldur eitthvað meir í anda Fox News.

Allt er þá þrennt getur maður kannski sagt um „hlutleysislega“ umfjöllun ákveðinna fjölmiðla en það er þó eitt sem er umhugsunarvert áhyggjuefni og það er lýðræðishallinn sem þetta myndar þegar fleiri en Mogginn eru farnir að ástunda grimma áróðursstarfsemi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík í aðdraganda sveitastjórnarkosninga. Fyrir utan það að þetta grefur undan lýðræðinu að þá grefur þetta einnig undan trausti á fjölmiðla þegar þeir stóru haga sér á þann hátt að einn flokkur er settur ofar öllum og aðrir fá allt aðra meðferð. Slíkt er ekki sigurvænlegt fyrir fjölmiðlanna sjálfa til lengri tíma litið jafnvel þó að flokkurinn þeirra sigri með tilheyrandi hrópum í beinni útsendingu.

Fyrir samfélagið sjálft er það ósigur þar sem kjánahrollurinn mun að endingur breytast yfir í lýðræðishrollvekju sem gæti endað með að við fengjum að lokum okkar eigin Trump í sigurvímu til að drottna yfir okkur.

Þökk sé þægum fjölmiðlum og hlutdrægri fréttamennsku.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið á blogginu

Nýtt efni

Loka auglýsingu