Tilnefningar til Blaðamannaverðlauna 2016

Tilnefningar til Blaðamannaverðlauna 2016

Stundin fær flestar tilnefningar til Blaðamannaverðlauna Íslands af öllum miðlum landsins fyrir síðasta ár. Alls fær Stundin þrjár tilnefningar í flokkunum: Rannsóknarblaðamennska ársins, blaðamannaverðlaun ársins og viðtal ársins. 

Fréttablaðið, Morgunblaðið og RÚV fá tvær tilnefningar hver miðill, Kjarninn eina, Vísir.is eina og DV eina.


Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, annar ritstjóra Stundarinnar, er tilnefnd til blaðamannaverðlauna ársins fyrir „fjölbreytta og mikilvæga umfjöllun um kynbundið ofbeldi“. Í rökstuðningi dómnefndar segir: „Í fjölmörgum greinum gaf Ingibjörg þolendum kynbundins ofbeldis og kynferðisbrota vettvang að tjá sig um sína upplifun af brotunum, upplýsti um hve víða í samfélaginu þessi brot er að finna og hversu erfitt er fyrir fórnarlömb að leita réttlætis vegna þeirra.“

Ingi Freyr Vilhjálmsson blaðamaður er tilnefndur fyrir „afhjúpandi umfjöllun sína um fjárhagsleg tengsl Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra og eignarhaldsfélags hans OG Capital við fyrirtækið Orka Energy.“ Í rökstuðningi segir: „Í ljós komu verulegir hagsmunaárekstrar vegna samstarfssamnings íslenskra og kínverskra stjórnvalda í orkumálum sem Orka Energy var aðili að og ráðherrann ritaði undir.“

Reynir Traustason er tilnefndur í flokknum Viðtal ársins fyrir viðtal við Ástu Kristínu Andrésdóttur hjúkrunarfræðing sem sökuð var um manndráp af gáleysi. Í rökstuðningi segir: „Reynir gerir lífshlaupi Ástu Kristínar góð skil og fær viðmælanda til að tala mjög opinskátt um hvernig þessi atburður hefur markað líf hennar, hvernig hún hefur barist við kvíða og reynt að viðhalda lífsviljanum.“


Þetta er í fjórða sinn sem þau Ingibjörg Dögg og Ingi Freyr eru tilnefnd til blaðamannaverðlauna. Ingibjörg Dögg fékk verðlaunin í flokki rannsóknarblaðamennsku árið 2010 „fyrir áleitna og vandaða umfjöllun um kynferðisbrotamál og forystu um skrif á þessu sviði, svo sem um biskupsmálið og önnur meint kynferðisbrot innan kirkju og trúfélaga.“

Reynir Traustason var verðlaunaður fyrir umfjöllun ársins 2003, fyrir „frumkvæði og heildstæða umfjöllun um rannsókn Samkeppnisstofnunar á samráði olíufélaganna.“ Sama ár var hann einnig tilnefndur til blaðamannaverðlauna ársins.

Allar greinar Stundarinnar sem tilnefndar eru til Blaðamannaverðlauna má finna á þessari slóð.

Loka auglýsingu