Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Ekkert feimin við að berjast fyrir sínu

Líf­ið bros­ir við Hall­dóru Jóns­dótt­ur. Hún er ný­far­in að búa með ást­inni sinni, vinn­ur á bóka­safni eins og hana hafði alltaf dreymt um og hef­ur meira en nóg að gera í að sinna tónlist, keilu, leik­list og öðr­um áhuga­mál­um. Hún sætt­ir sig ekki við að líf annarra sé met­ið verð­mæt­ara en henn­ar og tel­ur að heim­ur­inn verði fá­tæk­ari ef af því kem­ur að fólk með Downs verði ekki leng­ur til.

Ekkert feimin við að berjast fyrir sínu
Baráttukona og bókaormur Halldóra Jónsdóttir elskar bækur og er þess vegna himinlifandi með vinnuna sína, sem hún sinnir af mikilli alúð. Hún vinnur í bókasafninu í Árbæ og er sérstaklega hæf í því að raða í barnabókadeildinni.

Þegar blaðamaður heimsækir Halldóru Jónsdóttur á heimili móður hennar í Blesugróf, og verður að orði að þetta sé skemmtilegur staður í borginni, sem hann hafi aldrei komið á áður og spyr hvort það sé ekki gott að búa þarna, er Halldóra fljót að leiðrétta: „Ég á ekki heima hérna, ég er bara í heimsókn,“ segir hún ákveðin. Það er ekki skrýtið að hún vilji hafa þetta atriði á hreinu. Hún hafði verið á biðlista eftir því í fjórtán ár að komast í sitt eigið húsnæði. Það varð því tvöfaldur draumur sem varð að veruleika fyrir skemmstu: Að flytja úr foreldrahúsum og fá að búa með ástinni í lífi sínu, honum Ólafi Guðmundssyni. Þau voru hins vegar svo óheppin að næla sér bæði í flensu þremur dögum eftir að hafa flutt inn og þurftu því tímabundið að snúa aftur á heimili foreldra sinna og leyfa þeim að sjá um sig. En þau eru óþreyjufull að komast aftur heim. „Við viljum fara aftur heim „ því nú köllum við Hraunbæinn heim – af því okkur var lengi búið að langa að fara frá mömmu okkar og pabba og gera meira sjálf, gera hlutina saman, bara eins og pör gera, og vera sjálfbjarga,“ segir hún og bætir við að fyrstu dagarnir í sambúð hafi verið góðir. Þau hafi spilað tölvuleiki, litað saman, þrifið, eldað og borðað. Þau hafi líka hjálpast að við að búa um sig  – en samt ekki fyrr en þau langaði til og alls ekki strax eftir að þau vöknuðu. „Þetta var fyrsta skrefið okkar. Ef okkur gengur mjög vel færum við okkur kannski nær mömmu og pabba,“ segir Halldóra. Eitt gerir hún þó ekki með honum og það er að horfa á fótbolta. „Hann elskar fótbolta og horfir alltaf á hann. Það er ekki hægt að trufla hann þegar hann er að horfa, því hann er bara fastur við skjáinn. Þá er ég bara að lita á meðan.“

Eiga lífsgleðina sameiginlega

Halldóra og Ólafur eru á svipuðu reki, hann er 31 árs og hún 33 ára. Þau kynntust fyrir tveimur árum í sumarbúðum fyrir fatlaða á Laugarvatni og hafa verið óaðskiljanleg síðan. „Við erum bara gott par. Hann er bara góður strákur, lífsglaður, eins og ég er líka. Svo við pössum vel saman.“

 

Kjósa
1
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár