Flækjusagan

Þegar Bandaríkjamenn voru þjóðfrelsisfylkingin

Illugi Jökulsson minnist þess að nú eru rétt 240 ár síðan George Washington leiddi her sinn yfir Delaware-fljótið.

„Washington fer yfir Delaware" - Málverk sem þýsk-ameríski listamaðurinn Emanuel Gottlieb Leutze málaði 1851. Listamaðurinn tók sér það bessaleyfi að láta Washington og menn hans veifa bandarískum fána en hvorki var búið að hanna né taka fánann í notkun þann 26. desember 1776.

Nú að morgni 26. desember 2016 eru rétt 240 ár frá einum frægasta atburði bandaríska frelsisstríðsins, sem svo er kallað, þegar rúmur tugur breskra nýlendna í Norður-Ameríku braust undan stjórninni í London og tók sér sjálfstæði undir nafninu Bandaríkin.

Miðað við mörg önnur stríð var ameríska frelsisstríðið hvorki sérlega blóðugt né grimmilegt, en um það hafa þó skapast miklar og dramatískar þjóðsögur og ein þeirra sem Bandaríkjamenn hafa í mestum hávegum snýst um það þegar frelsisher þeirra fór yfir Delaware-ána í morgunsárið 26. desember 1776 og komst breska hernum þar sem heitir Trenton í New Jersey.

Með sigri við Trenton má segja að nýlendumenn hafi treyst sig svo í sessi að eftir það hafi fullnaðarsigur þeirra kannski ekki verið vís, en að minnsta kosti mun líklegri en áður.

Upp úr 1770 voru deilur nýlendumanna við yfirstjórnina í Bretlandi orðnar verulegar. Árið 1775 braust stríð út og Bretar voru ráðnir í að brjóta sjálfstæðistilburði nýlendumanna á bak aftur. Þeir svöruðu með því að hefja þjálfun hers sem laut forystu George Washingtons, landeiganda í Virginíu, sem fyrrum hafði verið í breska hernum. 

Lengst af árinu 1776 gekk nýlendumönnum heldur illa. Þeir gáfu út sjálfstæðisyfirlýsingu þann 4. júlí en stríðsrekstur þeirra gekk illa. Á síðari hluta ársins misstu nýlendumenn sína stærstu borg, New York, í hendur Breta og heilmiklar efasemdir voru á kreiki um hvort Washington væri nógu kænn til að stýra hinum nýja frelsisher nýlendumanna. Bretar höfðu kvatt út þó nokkurn her til nýlendna sinna og stór hluti hersins samanstóð af þýsku málaliði sem laut eigin stjórn. Þýska herliðið var yfirleitt kennt við fylkið Hessen, en þaðan kom meirihluti málaliða.

Seint í desember var 1.500 manna þýskur herflokkur kominn í vetrarbækistöðvar í bænum Trenton í New Jersey - en bærinn er nokkurn veginn miðja vegu milli New York og Philadelphiu, stærstu borgarinnar sem nýlendumenn réðu. Rétt fyrir sunnan Trenton fellur áin Delaware á leið sinni til sjávar. 

Áin er - líkt og samnefnd nýlenda - kennd við Thomas De la Warr, breskan barón sem var landstjóri í Virginíu um 1600 og lét kanna svæðið.

Fyrir sunnan Delaware-ána var Washington hershöfðingi nýlendumanna með hluta af her sínum. Hann ákvað að sækja yfir ána og ráðast til atlögu gegn þýska herflokknum í Trenton. Margt var Washington mótdrægt. Veður var vont, frost í lofti og stöðug él og stundum stormur. Mikið íshröngl var á fljótinu. Búast mátti við að Þjóðverjarnir hefðu varann á sér og hindruðu för Washingtons yfir ána.

Með harðfylgi tók Washington hins vegar að koma stórum hluta herliðs síns yfir ána snemma morguns 26. desember. Farið var á smábátum yfir ána og útsendurum Washingtons hafði tekist að gera Þjóðverjana andvaralausa með því að sannfæra þá um að engan veginn mætti búast við árás.

Þar er sagður hafa farið fremstur í flokki njósnarinn John Honeyman, þótt hlutur hans sé raunar umdeildur.

Nema hvað - Washington náði að fylkja 2.500 manna herliði eftir að hafa komist yfir Delaware-ána og hafði lið hans 18 fallbyssur. Til samanburðar hafði Johann Rall yfirmaður hessísku herdeildarinnar sex fallbyssur fyrir sína 1.500 menn.

Þegar Washington réðist til atlögu voru Rall og menn hans óviðbúnir með öllu. Sagt er að njósnari Þjóðverjanna hafi skömmu áður látið færa Rall bréf með upplýsingum um að árás Washingtons væri yfirvofandi, en Rall hafði stungið bréfinu ólesnu í vasa sinn. Hann mun hafa verið lúinn eftir að hafa spilað á spil alla nóttina.

Orrustan við Trenton var engin stórslagur miðað við ýmsa aðra bardaga. En sigur Bandaríkjamanna var afgerandi. Aðeins tveir hermanna Washingtons féllu og munu báðir hafa dáið úr vosbúð á leiðinni til Trenton - en veðrið var afleitt eins og áður sagði. Lið Ralls fór fljótt halloka og féllu 22 Þjóðverjar, þar á meðal Rall sjálfur. Allt að 900 Þjóðverjar voru teknir til fanga.

Fangarnir voru fluttir aftur suður yfir Delware-ána, ásamt heilmiklu magni af hergögnum sem lið Washington náði í Trenton.

Orrustan skipti í sjálfu sér engum sköpum, enda hörfaði Washington sem sé aftur yfir ána og vann því ekkert landsvæði. En orrustan færði Bandaríkjamönnum mikið sjálfstraust og eftir hana var Washington tryggur í sessi aðalhershöfðingja Bandaríkjanna.

Margir nýlendumenn höfðu efast stórlega um að her þeirra væri fær um að standa upp í hárinu á innrásarher Breta og hinu þýska málaliði þeirra. Þeir höfðu því lítið viljað af sjálfstæðistilburðunum vita. Nú efldist mjög baráttuandinn og trúin á að sigur væri mögulegur.

Orrustan skipar því stóran sess í þeirri þjóðsagnamynd sem Bandaríkjamenn hafa af frelsisstríði sínu.

Þótt þeir gleymi reyndar gjarnan sjálfu aðalatriðinu.

Að orrustan snerist um hugdjarfa árás vanmáttugrar þjóðfrelsisfylkingar gegn innrásarstórveldi með útlenskan málaliðaher.

Á seinni árum hafa Bandaríkjamenn oftar verið í hlutverki Breta en nýlendumanna í svona orrustum.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Úttekt

Nýlendur unga fólksins

Pistill

Eitraðir ísbirnir hröktu nasista Hitlers brott; nú er Pútin mættur

Fréttir

Ferð án fyrirheits: Flokkurinn sem boðaði nýja og breytta pólitík endar ferð sína í hægri stjórn

Fréttir

Ætlar að taka tillit til gagnrýni fjármálaráðs í næstu fjármálaáætlun

Spurt & svarað

Skýrsla um loftlagsmál var „sjokk“

Fréttir

Þeir verst settu borga þrefalt meira í tannlækningar en lög gera ráð fyrir

Mest lesið í vikunni

Pistill

Um kosti þess að búa á Íslandi

Úttekt

Björn Ingi fékk kúlulán meðfram lundafléttu

Fréttir

Segir Viðskiptablaðið fara með dylgjur og lygar

Pistill

Baráttan um heilbrigðiskerfið er barátta fyrir lýðræði

Pistill

Ísland efnahagsbrotalaust land 2020

Pistill

Vaxandi misskipting