Auglýsingin hverfur eftir stutta stund...
Loka

Pistill

Röng fullyrðing og leiðrétting Áslaugar Örnu

Gunnar Jörgen Viggósson hvetur þingmenn til að halda sig við staðreyndir og lepja ekki allt gagnrýnislaust upp eftir Samtökum atvinnulífsins.

Formaðurinn og ritarinn Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ásamt formanni flokksins, Bjarna Benediktssyni. Mynd: Pressphotos

Í jómfrúarræðu sinni á Alþingi fyrr í vetur sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, að „útgjöld ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu [væru] eiginlega hvergi hærri meðal þróaðra ríkja en á Íslandi“. Stundin birti í kjölfarið gögn frá OECD og hagstofu Evrópusambandsins sem sýna að fullyrðingin er röng og ríkisútgjöld til að mynda hærri á umræddan mælikvarða í Finnlandi, Frakklandi, Danmörku, Belgíu, Austurríki, Ítalíu, Svíþjóð, Ungverjalandi, Noregi, Portúgal, Hollandi og Þýskalandi. Umsvif hins opinbera í hagkerfinu eru þannig meiri í framangreindum löndum.

Áslaug svaraði því til að alltaf þurfi að draga ellilífeyrisgreiðslur frá ríkisútgjöldum hérlendis og erlendis áður en samanburður er gerður milli landa. Víða erlendis sinni ríkið nefnilega hlutverki lífeyriskerfis, en hér á landi spari fólk í lífeyrissjóði utan ríkisins (það er auðvitað torskiljanlegt að aldrei megi bera saman heildarumsvif hins opinbera og því hafi hún ómögulega meint það, en látum það liggja milli hluta). Vísaði Áslaug til greininga Samtaka atvinnulífsins sem hafa dregið ýmislegt frá opinberum útgjöldum landa í greiningum sínum, svo sem almannatryggingar, ellilífeyri og atvinnuleysisbætur, og ályktað að íslenska „báknið sé bólgið“. Hafði Áslaug einmitt í beinu framhaldi af fyrrgreindum ummælum á Alþingi tekið upp þá túlkun samtakanna og sagt að ef opinbert fé skorti í mikilvæg verkefni hljóti það að stafa af rangri forgangsröðun og slæmri nýtingu fjármuna.

Undirliggjandi hugmyndin með þessum frádrætti er að bera saman sambærilegri stærðir milli ríkja. Með honum fáist betri nálgun á umsvif annars reksturs hins opinbera, og hún sýni að íslenska ríkið sé mjög stórt. Það er auðvitað gilt og gagnlegt sjónarmið að bera saman sambærilegar stærðir þegar við á. En ef það er augljóst að draga skuli frá ellilífeyrisgreiðslur, þá er jafn augljóst að draga skuli frá vaxtagreiðslur. Vaxtakostnaður hins opinbera er háður skuldastöðu og vaxtakjörum, og endurspeglar að litlu leyti undirliggjandi rekstur. Ríkisbáknið, svo notað sé orðfæri Samtaka atvinnulífsins, er því betur mælt að þeim frádregnum. Þá birtist heldur önnur mynd.

Séu bæði ellilífeyris- og vaxtagreiðslur dregnar frá útgjöldum hins opinbera endar Ísland í 12. sæti af þeim 23 OECD-löndum sem birta tiltæk gögn fyrir 2015, langt fyrir neðan hin Norðurlöndin – á milli Slóvakíu og Slóveníu. Þar með fellur sá málflutningur þingmannsins að íslenska ríkið skorti endilega forgangsröðun og skilvirkni. Þessa umræðu má svo taka lengra í frádrætti og gagnaúrvinnslu þar til enginn veit lengur hvað um er rætt, en í bili setjum við punkt við að ekki skuli trúa gagnrýnislaust öllu því sem Samtök atvinnulífsins segja – sérstaklega ef maður er þingmaður og vill að málflutningur sinn sé tekinn alvarlega.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Viðtal

Foreldrunum ráðlagt að láta hann frá sér

Viðtal

Ekkert feimin við að berjast fyrir sínu

Fréttir

Kennarar lifa ekki dæmigerðu lífi af launum sínum

Pistill

Allar hrakspár reyndust réttar, engin von rættist

Pistill

Elsku þolandi

Fréttir

Brynjar óttast að neikvæð umræða skaði bankakerfið

Mest lesið í vikunni

Viðtal

„Það er ekki hægt að dæma látinn mann“

Viðtal

Foreldrunum ráðlagt að láta hann frá sér

Viðtal

Ekkert feimin við að berjast fyrir sínu

Fréttir

Nichole gagnrýnir RÚV fyrir að gefa Mikael „mikið svigrúm“ og segir að dregin sé upp dökk mynd af sér

Viðtal

Erfiðara að berjast við kerfið en að eiga barn með Downs

Fréttir

Stjórnarliðar gagnrýna Mikael Torfason vegna ummæla hans um fátækt á Íslandi