Pistill

Næst þegar á að mótmæla mæta vopnaðir menn

Illugi Jökulsson telur bæði heilbrigðismál og byssumál vott um að það sé verið að svindla á alþýðu fólks.

Ríkislögreglustjóri Segir enga stefnubreytingu hafa orðið. Mynd: Pressphotos

Það er verið að svindla á okkur.

Heilbrigðiskerfið hér á landi, sem við trúðum að væri svo gott og við byggðum það upp í sameiningu, íslenskt alþýðufólk, sjómenn, bændur, húsmæður, skrifstofufólk, iðnaðarmenn, verksmiðjufólk, listamenn, íslenskt alþýðufólk sem sagt, við byggðum þetta kerfi upp og það átti að vera fyrir okkur öll, börnin okkar, gamla fólkið okkar, við byggðum þetta upp, enginn átti að græða nema þeir sem nutu þjónustunnar í betri heilsu og betri lífsgæðum, en nú er verið að búa svo um hnútana að ríka fólkið geti grætt á kerfinu, geti grætt á heilsu og heilsuleysi okkar hinna.

Eftir að þjóðin hafði skýrt og greinilega gefið til kynna að það væri algjört forgangsmál í hennar huga að bæta kerfið og setja í það meiri peninga, þá er ekkert gert – því Engeyjarættin og vinir hennar og vinkonur eru búin að ákveða að nú ætli þau að snúa sér að því að græða á heilbrigðiskerfinu, þegar verður búið að þurrmjólka aðrar auðlindir, þá ætlar ríka fólkið að græða á þessu, og þá er settur yfir heilbrigðiskerfið guðsvolaður sakleysingi í karrígulum jakkafötum, og hann er látinn trúa því að hann hafi sjálfur sóst eftir starfinu, en meiningin er auðvitað sú að við verðum andvaralaus, það geti ekki verið að svona viðkunnanlegur maður gangi erinda auðvaldsins, hann hlýtur að vera einn af okkur, er það ekki?

En hann lýgur að mér, hann lýgur að okkur öllum því hans hlutverk er – hvort sem hann gerir sér fulla grein fyrir því eða ekki – að vera hið vingjarnlega andlit Ásdísar Höllu og græðgisdeildarinnar.

Það er sem sé verið að svindla á okkur.

Nú er líka verið að venja okkur við að lögreglumenn gangi um vopnaðir.

Það hvarflar ekki að mér að gera lítið úr hryllingi hryðjuverka, en það er augljóst að þegar birtast vopnaðir lögreglumenn og spranga innan um börn í skemmtiskokki, þá er ekki verið að verjast hryðjuverkum. Þá er verið að gefa yfirlýsingu. Yfirlýsingu um að vopnaðir lögreglumenn geti, muni og mega dúkka upp hvenær og hvar sem er.

Og ráðherrar ríkisstjórnar vísa öllu frá sér – þetta sé á ábyrgð Haralds Johannessen ríkislögreglustjóra, sem megi bara ráða því einn og sjálfur hvernig þessum málum skuli hagað í þessu samfélagi okkar.

Og allir sem voga sér að lýsa óánægju eða efasemdum eru umsvifalaust skammaðir fyrir að vera „kommalufsur“ eða vilja stofna lífi barna í hættu og sérhvert komment á Fb, þar sem einhver missti sig út í svívirðingar um einstaka lögreglumenn, er notað til að sýna fram á hve ómerkilegt hyski það sé sem lítist ekki á blikuna þegar Halli Jó sendir byssumennina sína á vettvang barnaskemmtana.

Það er verið að svindla á okkur.

Ég treysti almennum lögreglumönnum til allra góðra verka. En ég treysti ekki Haraldi Johannessen til að gera grundvallarbreytingar á því hvernig samfélag okkar kemur okkur fyrir sjónir. Haraldur er maður sem reglulega hefur þegið háar stöður í samfélaginu, ekki á grundvelli hæfni, heldur pólitískra sambanda. Þetta vita allir og þarf ekkert að fara í grafgötur með það. Haraldur hefur á hinn bóginn aldrei verið grunaður um miklar gáfur, og þið fyrirgefið, en ég treysti honum ekki til að ráða þessu einn. Það má sjá dýptina í hugsun Haraldar af því þegar hann dreif Þjóðaröryggisráðið á fund í sprengjuheldu byrgi suðrá velli.

Hvílík heimska! Hvílíkur innantómur blöðruselsskapur!

Nema tilgangurinn er auðvitað sá að gera okkur hrædd.

Því til hvers er þessi byssuleikur? Jú, eins og gáfuð kona sagði: Næst þegar verða mótmæli, þá mæta vopnaðir menn.

Þegar auðvaldið hefur séð tvær ríkisstjórnir þess hrekjast frá völdum vegna mótmæla, þá á að kenna okkur lexíu.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Stundin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Mest lesið í dag

Pistill

NEI, við veitum ekki þessar upplýsingar

Fréttir

Þorsteinn aftur staðinn að rangfærslum – nú um málefni lífeyrisþega

Úttekt

Umsátrið um Katar

Fréttir

Telja að fólk hafi ekki kynnt sér skýrslurnar nógu vel – Benedikt: „Ég kom ekkert nálægt skýrsluvinnunni“

Úttekt

Fjársvelt samneysla og sögulegar óvinsældir

Pistill

Hvern leikur þú?

Mest lesið í vikunni

Fréttir

Slæm tíðindi af Stefáni Karli

Fréttir

Var látin afneita áföllum í áfengismeðferð

Viðtal

„Það var öskrað á mig og mér hótað“

Pistill

Borgar sig ekki að eiga íbúð

Fréttir

Vopnaðir sérsveitarmenn handtóku ölvaðan mann í miðbænum

Fréttir

Föður barnanna vísað úr landi í nótt